Gunnar Hólmsteinn Ársælsson
Gunnar Hólmsteinn Ársælsson
Eftir Gunnar Hólmstein Ársælsson: "Kaupmáttur mun því samkvæmt grein Magnúsar aukast um 1,5% við aðild að ESB og um allt að 5% ef gengið er í Myntbandalagið líka."

Í nýlegri frétt á vefsíðu Neytendasamtakanna er fjallað um miklar verðhækkanir á nokkrum algengum vörutegundum á borð við ávexti, egg, ost, kjúklinga og nautakjöt. Hækkanirnar eru í tugum prósenta, sú minnsta um 12%, en sú mesta um 30%. Tölurnar eru fengnar frá Hagstofu Íslands og ná yfir árin 2010-2013. Í fréttinni segir að hækkanirnar séu „það miklar að þær eru algerlega óásættanlegar út frá hagsmunum neytenda“. Lagt er til í fréttinni að þessar hækkanir og orsakir þeirra verði rannsakaðar sérstaklega. Útgjöld til matarinnkaupa eru jú einn af stærstu útgjaldaliðum hvers heimilis og við hrun krónunnar árið 2008 hækkuðu innfluttar vörur um tugi prósenta. Kaupmáttur snarlækkaði á sama tíma vegna mikillar verðbólgu sem fylgdi með.

Kaupmáttaraukning

Í nýju tímariti Máls og menningar er grein eftir dr. Magnús Bjarnason um áhrif ESB-aðildar á íslensk heimili. Hún er byggð á doktorsritgerð hans. Í inngangi greinarinnar segir að í henni verði „dregnar fram niðurstöður nokkurra helstu rannsókna sem unnar hafi verið um áhrif ESB-aðildar á efnahag íslenskra heimila“. Hér er því ekki einungis um eina rannsókn að ræða, heldur nokkrar.

Helstu niðurstöður Magnúsar eru þessar: „Gera má ráð fyrir að matvæli lækki um allt að 10% fljótlega eftir ESB-aðild. Þetta eitt mun skapa um 1,5% kaupmáttaraukningu heimilanna. Eins er öruggt að úrval og framboð matvæla mun aukast þar sem evrópskum innflutningstakmörkum yrði aflétt.“

Magnús ræðir einnig gjaldmiðilsmálin í grein sinni og möguleikann á því að hér verði tekin upp evra. Niðurstaða hans er þessi: „Ýmis hagfræðilíkön hafa bent til þess að áhrif sameiginlegrar myntar ESB gæti skapað aukningu kaupmáttar sem svarar 4-5% til langs tíma litið. Þessi kaupmáttaraukning er til viðbótar öðrum hagvexti í þjóðfélaginu þannig að langtímaáhrif myntbandalagsins eru umtalsverð.“

Kaupmáttur mun því samkvæmt grein Magnúsar aukast um 1,5% við aðild að ESB og um allt að 5% ef gengið er í Myntbandalagið líka, þ.e. evra verði tekin upp hér á landi. Fyrir venjulega meðalfjölskyldu myndi þetta þýða töluvert aukin fjárráð um hver mánaðamót.

ESB sett í frost

Núverandi ríkisstjórn hefur ákveðið að „frysta“ eða „gera hlé“ á aðildarviðræðum við ESB. Hinsvegar er ekki ljóst hver utanríkismálastefna stjórnarinnar er í raun og veru og dettur manni helst í hug að þetta verði svona „vegir liggja til allra átta“-utanríkisstefna. Nema þá helst í suður, til Evrópu. Þá hafa ráðherrar Framsóknarflokks einnig sagt að ekki standi til að efna til atkvæðagreiðslu um áframhaldið, en því lofuðu þeir fyrir kosningar. Þeir hyggjast því svíkja eigin kosningaloforð í þessu efni, en samkvæmt könnunum vill meirihluti landsmanna klára aðildarviðræðurnar við ESB.

Hræðslan við krónuna

Stjórnin hefur líka sagt að krónan verði framtíðargjaldmiðill þjóðarinnar, en krónan hefur verið í höftum síðastliðinn fimm ár og er Ísland undanþáguríki í EES-samstarfinu. Ísland brýtur nú ákvæði samningsins um frjálsa fjármagnsflutninga. Allir eru sammála um að þetta ástand gangi ekki, en allir eru líka lafhræddir um það hvað gerist þegar höftum verður aflétt. Hvenær sem það verður! ESB hefur boðið fram tæknilega aðstoð til að létta af höftunum, en afar ólíklegt verður að teljast að núverandi stjórn þiggi hana. Á tímum mikillar þjóðernishyggju nýrra valdhafa, passar það sennilega ekki.

Mikil andstaða er við það hjá hagsmunaaðilum að leyfa innflutning á matvörum, sem lækka myndu matvælaverð, t.d. á kjúklingum. Þetta er nánast eins og nefnt væri að slátra heilögum kúm í Indlandi! Því munum við, íslenskir neytendur, áfram súpa seyðið af háu verðlagi á matvælum, bæði innlendum og erlendum.

Höfundur er stjórnmálafræðingur og situr í stjórn Evrópusamtakanna.

Höf.: Gunnar Hólmstein Ársælsson