Sigrún Haraldsdóttir er hætt að kippa sér upp við rigninguna, sem hún kvartaði yfir í Vísnahorni gærdagsins:
Þraut er oft að þurfa að heyra
það er kjánar blaðra,
en reyndin er; það rignir meira
á réttláta en aðra.
Jón Ingvar Jónsson orti skírnarvísur til afabarnanna Yrsu og Bríetar, dætra Evu Sólan og Jóns Stefáns Jónssonar:
Afa jafnan gott er geð
og gengur allt í haginn
þegar Bríet brosi með
býður góðan daginn.
Þó að heimsins köldu klær
klóri hræðilega
Yrsa litla alltaf nær
úr afa sorg og trega.
Eftir skírnina fór mynd á fésbókina af séra Hjálmari Jónssyni, sem skírði, og afanum Jóni Ingvari. Sá síðarnefndi orti til skýringar:
Sá með bláa bindið er
barnavinur mestur
og heiðurskarl sem hylla ber.
Hinn er bara prestur.
Séra Hjálmar svaraði:
Glott af þessum görpum skín,
glatt er þeim í sinni
þó geti vart meiri greppitrýn
á gjörvallri fésbókinni.
Þá Jón Ingvar:
Um Hjálmar vil ég lofgjörð letra
en læt samt getið, tel það betra:
hann minni er,
það munar hér
svona einum sentimetra.
Séra Hjálmar bætti við:
Ganga um með glöðum róm
á Guðs og manna vegum
Jón á hælaháum skóm
en Hjálmar venjulegum.
Loks Jón Ingvar:
Á mætan Hjálmar margur þá
mikið augun pírði,
hann tiplaði allan tímann á
tánum er hann skírði.
Guðmundur Andri Thorsson kastar fram á fésbókinni:
Allt þótt digni og hratt því hnigni
öll heims um ból,
og enn þótt rigni og aldrei lygni –
skín innra sól.
Halla Kjartansdóttir leggur orð í belg:
Þótt hann rigni, þótt ég digni,
þótt hann lygni aldrei meir,
fram skal stauta blauta brautu,
buga þraut uns fjörið deyr.
Pétur Blöndal pebl@mbl.is