Mánudaginn 8. júlí sl. birtist í Morgunblaðinu grein eftir Sölva Jónsson þar sem fjallað er um þróunarkenninguna. Greinin er svar við grein eftir Andra Eiríksson. Hann getur örugglega svarað fyrir sig, en hér verður tæpt á nokkrum atriðum þar sem gætir misskilnings. Gæsalappir eru settar um atriði í grein Sölva sem rætt er um.
„Þróunarkenningin er alveg jafn mikil trúarbrögð og sköpunarkenningin.“ Þróunarkenningin er vísindakenning, og vísindi felast í nákvæmri athugun á fyrirbærum, tilgátum og tilraunum. Trúarbrögð eru annars eðlis. Til eru ýmsar kenningar í vísindum, t.d. afstæðiskenningin, flekakenningin í jarðvísindum, frumukenningin, atómkenningin og þróunarkenningin. Þróunarkenningin felur í sér skýringu á þeirri staðreynd að lífverur þróast og að eiginleikar þeirra mótast af náttúruvali. Nútímaleg skilgreining á þróun er breyting á tíðni gena eftir kynslóðum. Þróun er ekki það sama og þróunarkenning. Samkvæmt þróunarkenningunni eru allar lífverur jarðar af sama uppruna. Nú hefur táknmál erfðanna verið kannað í fjölmörgum lífverum og niðurstaðan er í samræmi við forspá þróunarkenningarinnar: Allt líf á jörðinni er af sama stofni.
„Ef þróunarsagan væri rétt þá væri steingervingasagan uppfull af svokölluðum millitegundum sem hún er ekki.“ Reyndar er merkilegt að einhverjir steingervingar séu til. Það er sjaldgæft að líkamsleifar varðveitist. Ekki veit ég hvað Sölvi á við með hugtakinu „millitegund“, en ef hann á við allar þær tegundir sem sýna þróunarsögu t.d. hesta og hvala, þá sýnir steingervingasagan furðu mikið af slíkum „millitegundum“.
„Microevolution verður vegna kynblöndunar og þegar dýrategund lagar sig að umhverfi sínu.“ Sá sem setti fram þessa skilgreiningu á „microevolution“ hefur verið annars hugar. „Microevolution“ er notað um breytingar í tíðni genasamsæta innan stofns á tilteknu tímabili. Dæmi um „microevolution“: Árið 1971 voru fimm pör af eðlutegundinni Podascis sicula flutt frá eynni Pod Kopiste úti fyrir ströndum Króatíu, þar sem eðlurnar lifðu einkum á skordýrum, og yfir á nálæga eyju, Pod Mrcaru. Út af þessum tíu eðlum er kominn myndarlegur stofn sem er frábrugðinn upprunastofninum á eynni Pod Kopiste. Þær hafa hærri, breiðari og lengri haus, enda hafa þær mun meiri bitkraft. Þetta er aðlögun að því að eðlurnar nærast á jurtum á Pod Mrcaru. Dæmi um þróunartilraun sem er upplagður vettvangur fyrir umræðu um „microevolution“ og „macroevolution: Fyrir rúmum aldarfjórðungi hóf þróunarfæðingurinn Richard Lenski (við Michigan State University) tilraun með bakteríuna Escherichia coli. Í gegnum þúsundir kynslóða Escherichia coli bakteríanna hafa bæði orðið stökkbreytingar sem hafa leitt til aukinnar aðlögunar þeirra að umhverfi sínu og þróunarstökk, þegar skyndilega kom fram stofn með áður óþekkta eiginleika.
Í lokin: Cro-Magnon menn voru ekki yfir tveggja metra háir, heldur um 170 cm að meðaltali. Og strýtulaga höfuðkúpur í Perú koma til vegna fornrar siðvenju: Að fletja höfuðkúpur ungbarna (þekktist líka í Sviss).
ÓLAFUR HALLDÓRSSON,
B.S. í líffræði.
Frá Ólafi Halldórssyni