Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
„Það má segja að þessi plata sé nokkurs konar upphitun fyrir fyrstu breiðskífu okkar sem væntanleg er í byrjun næsta árs,“ segir Jófríður Ákadóttir, söngkona hljómsveitarinnar Samaris, um samnefnda plötu sem sveitin hefur sent frá sér. Platan Samaris inniheldur stuttskífurnar Hljóma þú , sem fyrst kom út í aðdraganda Iceland Airwaves árið 2011, og Stofnar falla , sem út kom fyrir Iceland Airwaves 2012, auk fjögurra endurhljóðblandaðra laga.
„Stuttskífurnar tvær voru löngu orðnar ófáanlegar og því var okkur farið að langa til þess að gefa þær aftur út,“ segir Jófríður, en 12 tónar gefur út Samaris hérlendis og One Little Indian annars staðar í heiminum. „Við vorum rétt byrjuð að leita okkur að útgefanda þegar One Little Indian hafði samband. Okkur leist vel á þá útgáfu, ekki síst vegna þess hversu flotta listamenn sú útgáfa er með á sínum vegum,“ segir Jófríður. Hljómsveitin hyggst fylgja nýju plötunni eftir með útgáfutónleikum í kvöld á Volta. „Húsið opnar kl. 21 og við ætlum að bjóða upp á vöfflur. Þá verður þetta meira eins og partí,“ segir Jófríður og tekur fram að á tónleikunum verði leikin lög af smáskífunum tveimur í bland við nýtt efni af væntanlegri breiðskífu. Á tónleikunum koma einnig fram hljómsveitin Yagya og Dj Yamaho.
Sækja í rómantíska texta
Samaris er, auk Jófríðar, skipuð þeim Áslaugu Rún Magnúsdóttur sem leikur á klarínett og Þórði Kára Steinþórssyni sem sér um forritun. „Við Áslaug kynntumst í Tónlistarskólanum í Reykjavík þar sem við vorum báðar að læra á klarínett. Áslaug og Doddi voru skólafélagar í Ölduselsskóla og síðar fórum við öll í Menntaskólann við Hamrahlíð,“ segir Jófríður þegar hún er spurð um hljómsveitina. Samaris vakti fyrst athygli með sigri á Músíktilraunum 2011 og skapaði sér strax sérstöðu með sveimkenndri tónlist sinni. Þar var blandað saman framúrstefnulegum töktum við reikulan klarínettuleik og dulrænan söng Jófríðar.Athygli vekur að allir textar plötunnar eru sóttir í ljóð íslenskra skálda frá lokum 19. aldar til byrjunar 20. aldar, en meðal skálda eru Steingrímur Thorsteinsson, Páll Ólafsson og Guðfinna Jónsdóttir frá Hömrum. „Við prófuðum að skrifa eigin texta, en fannst stemning þeirra ekki passa við tónlistina okkar. Þegar við fórum að prófa að nota eldri texta þá smellpassaði allt bara,“ segir Jófríður og tekur fram að oft verði fyrir valinu frekar myrkir og ógnvænlegir textar. „Við spáum mikið í innihald ljóðanna og reynum að forðast texta sem fjalla um guð, trú og ættjarðarást, þó iðulega verði fyrir valinu textar um náttúruna. Við sækjum mikið í rómantíska ljóðlist, en þurfum að gæta þess að þetta verði ekki of væmið.“
Spurð hvort tónlistin verði til áður en textarnir eru valdir segir Jófríður erfitt að svara því. „Við byrjum yfirleitt með einhvern takt- og hljómagrunn sem ég syng síðan melódíuna yfir. Oft er ég með ljóðabók við hendina og prófa ýmsa texta þar til þetta fellur saman,“ segir Jófríður og útilokar ekki að eftir næstu breiðskífu muni sveitin leita til ungskálda samtímans í leit að textum.