Skoraði fyrsta EM markið Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði eina mark Íslands í keppninni í Finnlandi fyrir fjórum árum í fyrsta leik á móti Frakklandi.
Skoraði fyrsta EM markið Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði eina mark Íslands í keppninni í Finnlandi fyrir fjórum árum í fyrsta leik á móti Frakklandi. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EM2013 Víðir Sigurðsson í Kalmar vs@mbl.is Stúlkurnar okkar eru mættar í sænsku Smálöndin. Á heimaslóðir Emils í Kattholti, sem einmitt varð fimmtugur um daginn.

EM2013

Víðir Sigurðsson í Kalmar

vs@mbl.is

Stúlkurnar okkar eru mættar í sænsku Smálöndin. Á heimaslóðir Emils í Kattholti, sem einmitt varð fimmtugur um daginn.

Saga íslenska kvennalandsliðsins er þó mun styttri en sænska prakkarans því í haust verða 32 ár liðin frá fyrsta landsleiknum, sem var gegn Skotum. Og nú er liðið mætt í annað sinn í röð í úrslitakeppni tólf bestu liða Evrópu, þar sem markmiðið er að gera betur en í Finnlandi fyrir fjórum árum.

Ég var í þúsund vatna landinu fyrir fjórum árum og fylgdist með frumraun landsliðsins þar, og ég er mættur til hinnar sögufrægu borgar Kalmar á suðausturströnd Svíþjóðar, þar sem Ísland mætir Noregi í fyrsta leiknum á EM í dag. Kalmar var vettvangur mikilla átaka á fyrri öldum og borgin um tíma kennd við blóðbað - og þó full dramatískt sé að bera slag Íslands og Noregs saman við þau átök er ljóst að ekkert verður gefið eftir þegar liðin mætast í dag.

Skammt á milli feigs og ófeigs í Finnlandi

Mér er í fersku minni naumt tap, 0:1, fyrir norska liðinu í Lathi fyrir fjórum árum. Munurinn á liðunum var lítill en Ísland fór heim, án stiga, á meðan þær norsku komust í undanúrslit. Svo skammt var þar á milli feigs og ófeigs.

Ég get ekki lýst yfir sérstakri bjartsýni fyrir hönd stúlknanna okkar í þetta sinn. Spurningarmerkin eru mörg eftir skrykkjótt gengi það sem af er árinu, og meiðsli lykilmanna. Ég veit eiginlega ekki við hverju má búast næstu sjö dagana hér í Kalmar og í annarri Smálandaborg, Växjö, þar sem islenska liðið mætir Þýskalandi og Hollandi á sunnudag og miðvikudag. Liðið hefur ekki verið sannfærandi upp á síðkastið og spurningin er hvernig það kemur til leiks.

Eitt sem er á hreinu fyrirfram er að þýska liðið er firnasterkt, þótt marga góða leikmenn vanti. Allt annað en sigur þess og níu stig í B-riðlinum kæmi mjög á óvart. Slagurinn ætti að vera á milli hinna þriggja liðanna. Noregur á að vera með heldur betra lið en Íslands, enda þótt allt geti gerst í leikjum liðanna eins og við höfum séð undanfarin misseri. Holland á að vera með mjög svipað lið og Ísland, en komst þó mjög óvænt í undanúrslitin á EM 2009, rétt eins og Noregur og Þýskaland!

Mótherjarnir líka köflóttir

En málið er að bæði Noregur og Holland hafa líka átt köflóttu gengi að fagna undanfarna mánuði. Norska liðið mætir til leiks í dag án sigurs í sjö leikjum í röð, en vann þó m.a. japönsku heimsmeistarana fyrr á árinu. Holland hefur unnið góð lið og tapað fyrir slakari liðum. Undirbúningur íslenska liðsins var stuttur, það náði minni tíma saman fyrir keppnina en andstæðingarnir, og svo er spurning hvort það sé afgerandi ókostur.

Hafi verið rétt staðið að málum þessa síðustu daga - engin ástæða er til að ætla annað - og ef stúlkurnar okkar hrökkva í gamla góða gírinn í Kalmar í dag, getur vissulega allt gerst. Fótbolti snýst að miklu leyti um dagsformið og stemninguna, þannig að við skulum bíða og sjá hvernig íslenska liðið fer af stað í mótinu..

Óvænt gegn Noregi í fyrsta EM-leiknum

Víðir Sigurðsson í Kalmar

vs@mbl.is

Norðmenn eru fyrstu andstæðingar Íslendinga í úrslitakeppni Evrópumótsins í Kalmar á morgun, og það var einmitt landslið Noregs sem Ísland mætti fyrst allra í Evrópukeppni landsliða á sínum tíma.

Ísland var ein þeirra sextán þjóða sem tóku þátt í fyrstu Evrópukeppninni sem haldin var á árunum 1982 til 1984 og var þar í sannkölluðum Norðurlandariðli með Svíþjóð, Noregi og Finnlandi.

Byrjunin var góð því Ísland byrjaði á að sækja Noreg heim til Tönsberg 28. ágúst 1982 og hafði þá aðeins leikið einn A-landsleik kvenna frá upphafi. Það var vináttulandsleikur gegn Skotum ári áður.

Ísland komst tvisvar yfir í Tönsberg

Úrslitin í Tönsberg voru mjög óvænt því leikurinn endaði 2:2. Íslenska liðið komst tvisvar yfir í leiknum, Ásta B. Gunnlaugsdóttir skoraði á 12. mínútu eftir sendingu frá Erlu Rafnsdóttur en Norðmenn jöfnuðu fljótlega úr vítaspyrnu. Á 27. mínútu fékk Ísland vítaspyrnu þegar Laufey Sigurðardóttir var felld og úr henni skoraði Rósa Valdimarsdóttir, 2:1. Norska liðið jafnaði snemma í síðari hálfleik og sótti talsvert eftir það en náði ekki að knýja fram sigur.

Íslenska liðinu tókst ekki að fylgja þessu eftir og tapaði þeim fimm leikjum sem eftir voru í riðlinum. Heimaleikjunum, á Kópavogsvelli, 0:1 gegn Noregi, 0:2 gegn Finnum og 0:6 gegn Svíum og útileikjunum 0:3 gegn Finnum og 0:5 gegn Svíum.

Sundhage tryggði Svíum fyrsta titilinn

Það var sænska liðið sem vann riðilinn örugglega, fór í fjögurra liða úrslitakeppni og stóð uppi sem Evrópumeistari eftir tvo leiki og vítaspyrnukeppni gegn Englendingum. Svíar unnu 1:0 í Gautaborg þar sem núverandi landsliðsþjálfari þeirra, Pia Sundhage, skoraði sigurmarkið, en Englendingar unnu 1:0 í Luton. Svíar höfðu betur í vítakeppninni eftir seinni leikinn þar sem Sundhage tryggði þeim Evrópumeistaratitilinn með því að skora úr síðustu spyrnunni.