Friðjón Björgvin Gunnarsson
Friðjón Björgvin Gunnarsson
Eftir Friðjón B. Gunnarsson: "Ekkert fyrirtæki á Íslandi selur vörur frá Apple nema þær séu keyptar frá fyrirtæki framkvæmdastjórans. Hvað er það annað en einokun?"

Framkvæmdastjóri Skakkaturns ehf., Bjarni Ákason, skrifar grein í laugardagsblað Morgunblaðsins þar sem hann hjakkar í sama fari og áður og ræðst gegn persónu minni og rekstrarsögu fremur en að taka umræðuna á málefnalegan hátt. Ég geri fastlega ráð fyrir því að hann eigi við mig í greininni en bendi þó á að ég er Gunnarsson en ekki Friðjónsson. Ekkert af því sem framkvæmdastjórinn segir er svaravert enda einkennist það af dylgjum og rógburði einum saman gagnvart minni persónu.

Framkvæmdastjórinn fullyrðir hinsvegar að fjölmörg fyrirtæki selji vörur frá Apple á Íslandi og séu í samkeppni hvert við annað. Því verður að svara! Framkvæmdastjórinn sleppir því að geta þess að ekkert fyrirtæki á Íslandi selur vörur frá Apple nema þær séu keyptar frá fyrirtæki framkvæmdastjórans. Hvað er það annað en einokun? Til þess að slíkt „leyfi“ fáist, þarf að uppfylla ströng skilyrði framkvæmdastjórans, m.a. um að eigin innflutningur sé óheimill með öllu og menn verði að vera með svipað verð á vörunni. Þegar verð á Apple-vörum er skoðað hjá söluaðilum framkvæmdastjórans, þar sem hann fullyrðir að samkeppni sé í hávegum höfð, kemur í ljós að allir eru þeir með svipað eða sama verð. Hér er dæmi um samkeppnina sem framkvæmdastjórinn fullyrðir að ríki á markaðnum:

iMac 27“ 2,9GHz Quad-Core i5

Epli.is: 349.990 kr.

iSiminn.is: 349.990 kr.

Macland: 349.990 kr.

iStore.is: 339.000 kr.

Eldhaf: 339.990 kr.

Elko.is: 339.995 kr.

Buy.is: 318.557, skv. gengi USD/ISK 2.7. 2013.

Á þessu sést mjög skýrt hve mikil samkeppni er á meðal söluaðila framkvæmdastjórans. Svo sést mjög skýr valkostur, valkostur sem framkvæmdastjórinn neitar að keppa við í verði og málefnalegri orðræðu, heldur kýs hann að beita lögbanni og öðrum miður siðlegum aðferðum í tilraun sinni til þess að drepa samkeppnina. Það er hans val til verndar sinni einokunarstöðu. Neytendur velja þó í auknum mæli að beina viðskiptum sínum til aðila sem berst gegn einokun og ofríki Skakkaturns á hinum íslenska Apple-markaði. Það hugnast einokunaraðilanum Skakkaturni eða eigendum hans alls ekki.

Það er öllum sem eitthvað til þekkja alveg ljóst að smásöluverði á Apple-vörum á Íslandi er stýrt með harðri hendi eins manns. Ef það kallast samkeppni, þá held ég að framkvæmdastjórinn ætti að fletta upp orðinu samkeppni í orðabók.

Höfundur er framkvæmdastjóri Buy.is.

Höf.: Friðjón B. Gunnarsson