Yfirvöld í Egyptalandi hafa fyrirskipað handtöku Mohammed Badie, leiðtoga Bræðralags múslíma, en hann og aðrir háttsettir einstaklingar innan bræðralagsins eru sakaðir um að hafa hvatt til blóðugra átaka við höfuðstöðvar úrvalssveita hersins í Kaíró á mánudag.
Saksóknari hefur gefið út alls 200 ákærur í tengslum við átökin, þar sem Bræðralag múslíma segir að hermenn og lögregla hafi myrt 42 stuðningsmenn þeirra. Herinn segist hins vegar hafa orðið fyrir árás hryðjuverkamanna.
Að minnsta kosti 88 hafa týnt lífi í átökum í Egyptalandi eftir að lýðræðislega kjörnum forseta landsins, Mohamed Morsi, var steypt af stóli en talsmaður utanríkisráðuneytisins sagði við blaðamenn í gær að forsetinn fyrrverandi væri í haldi á öruggum stað og að enn sem komið er hefði engin kæra verið gefin út á hendur honum.
Ríkisfréttastofan MENA sagði frá því í gær að Hazem al-Beblawi, settur forsætisráðherra, hygðist bjóða Bræðralagi múslíma sæti í ríkisstjórn sinni en bræðralagið sagðist ekki myndu eiga í samningaviðræðum við valdræningja.
Svo virðist sem óróleika sé þegar farið að gæta meðal þeirra sem vildu Morsi frá völdum en talsmaður eins flokks innan Þjóðfrelsisfylkingarinnar sagði 33-greina stjórnarskrártilskipun bráðabirgðaforsetans bera þess merki að forsetinn fengi aukið löggjafar-, framkvæmdar- og dómsvald.
„Þú myndir líta út eins og hræsnari. Þetta virkar eins og þú sért ekki á móti einræðisstjórn, bara einræðisstjórn sem tilheyrir ekki þínum flokki,“ sagið hann í samtali við AFP.
Sádi Arabía, Sameinuðu arabísku furstadæmin og Kúveit hafa tilkynnt að þau muni veita Egyptalandi samtals 12 milljarða Bandaríkjadollara í aðstoð. holmfridur@mbl.is