Eftir að hafa tekið þátt í fyrstu Evrópukeppni kvennalandsliða sem hófst árið 1982 varð bið á að Ísland yrði þar á meðal þátttökuþjóða. Íslenska liðið var ekki sent í undankeppni næstu þriggja Evrópumóta og það liðu því níu ár frá síðasta leiknum 1983 og þar til Ísland lék fjóra leiki í undankeppninni árið 1992 en þá spiluðu Ísland, England og Skotland saman í riðli.
Þegar Ísland sótti England heim í maí 1992 var það fyrsti kvennalandsleikur Íslands í hálft fimmta ár. Landsliðið var nefnilega lagt niður í árslok 1987 og Ísland spilaði ekki neinn landsleik næstu fjögur ár á eftir.
England vann leikinn sem fram fór í Yeovil, 4:0, og riðilinn með fullu húsi stiga. Enska liðið fór í átta liða úrslit en féll þar út gegn Ítölum og komst ekki í fjögurra liða úrslitakeppnina árið eftir.
Fyrsti sigur gegn Skotum
Ísland vann hinsvegar sinn fyrsta sigur í Evrópukeppni þegar liðið lagði Skota 2:1 á Akranesvelli 22. júní 1992. Mánuði áður höfðu liðin gert 0:0 jafntefli í Perth. Halldóra Gylfadóttir og Ásta B. Gunnlaugsdóttir komu Íslandi í 2:0 áður en Skotar minnkuðu muninn. vs@mbl.is