Hljómsveitin Of Monsters and Men verður með tónleika í Garðabæ í lok sumars á túninu við Vífilsstaði. Tónleikarnir fara fram 31. ágúst eftir að hljómsveitin kemur úr tónleikaferð sinni um heiminn. Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, segir bæinn vera á fullu að undirbúa tónleikana og viðburði sem verða í kringum þá. „Það er fyrirhugað að Mugison og Lay Low verði þarna líka og við búumst því við töluverðum fjölda á svæðinu miðað við vinsældir þeirra sem ætla að spila. Þá höfum við verið að gauka því að fólki hér í bænum að vera með eitthvað uppistand á svæðinu eins og t.d. Myndlistarfélagið Gróska og eins kórar sem starfa í bænum,“ segir Gunnar.
Ekkert mun kosta inn á tónleikana en Gunnar vonar að hægt verði með einhverju móti að nýta viðburðinn til að safna peningum fyrir gott málefni. „Auðvitað kostar það eitthvað að halda svona tónleika og við erum alls ekki að fara fram á það að fólk gefi til okkar í þeim tilgangi að ná upp í kostnað. Við viljum nýta þetta tækifæri til að safna fyrir gott málefni.“
Bróðurpartur meðlima Of Monsters and Men koma úr Garðabænum og segir Gunnar bæinn vera stoltan af hljómsveitinni. „Við viljum eigna okkur þau pínulítið enda hafa mörg þeirra alist upp í gegnum félagsmiðstöðvar og tónlistarstarf hjá okkur.“