Í Orlando Stórfjölskyldan, sextán manns alls, fór saman í ferðalag í vor til Bandaríkjanna.
Í Orlando Stórfjölskyldan, sextán manns alls, fór saman í ferðalag í vor til Bandaríkjanna.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stefán er fæddur í Reykjavík 11. júlí 1943. Hann var til heimilis fyrstu árin við Karlagötu en fluttist fjögurra ára gamall í nýtt hús sem foreldrar hans byggðu í Faxaskjóli. Þar eyddi hann æsku- og unglingsárum.

Stefán er fæddur í Reykjavík 11. júlí 1943. Hann var til heimilis fyrstu árin við Karlagötu en fluttist fjögurra ára gamall í nýtt hús sem foreldrar hans byggðu í Faxaskjóli. Þar eyddi hann æsku- og unglingsárum.

Stefán gekk í Melaskóla og síðan Gagnfræðaskólann við Hringbraut. Þaðan lá leiðin í Reykjaskóla í Hrútafirði og loks Menntaskólann í Reykjavík. Lauk hann þaðan stúdentsprófi vorið 1964. Stefán innritaðist í læknadeild Háskóla Íslands haustið 1964 og lauk námi í febrúar 1971. Hann starfaði á Sjúkrahúsi Akureyrar í eitt ár eftir að námi lauk og var síðan héraðslæknir á Patreksfirði.

Fór í framhaldsnám til Umeå

Á haustmánuðum 1972 fluttist hann, ásamt fjölskyldu, búferlum til Umeå í Svíþjóð og hóf sérnám í kvensjúkdómum og fæðingarfræði við háskólasjúkrahúsið þar í borg. Meðfram náminu stundaði hann kennslu læknanema og hjúkrunarkvenna. „Starfsaðstaðan þar var einstaklega góð og starfsandinn frábær. Öllum sem þar hófu störf voru fengin rannsóknarverkefni og þrýst fast á að þeirri vinnu yrði lokið með láði. Kennsla læknanema og hjúkrunarkvenna var ríkur þáttur í starfinu á deildinni og kom fljótlega í minn hlut að leggja drjúgan tíma í þessa kennslu.“ Stefán hlaut viðurkenningu sem sérfræðingur í Svíþjóð 1977 og ári seinna á Íslandi.

„Dvölin í Umeå var okkur hjónum ánægjuleg og þrátt fyrir norðlæga legu borgarinnar voru sumrin einstaklega sólrík og hlý. Veturnir gátu aftur á móti orðið nokkuð kaldir, og 25 stiga frost þóttu svo sem engin býsn. Í minningunni var alltaf logn á veturna og tíminn gjarnan notaður til útiveru, skautahlaups og skíðagöngu á ísilagðri ánni, sem rann í gegnum borgina.“

Árið1976 hóf Stefán vinnu að doktorsritgerð þar sem borin voru saman áhrif og styrkleiki ýmissa tíðahvarfahormóna. Lauk hann þeirri vinnu á sex árum og doktorsvörn fór fram við Háskólann í Umeå 2. apríl 1982.

Viðbrigði að koma til Íslands

Haustið 1980 hóf hann störf á kvennadeild Landspítalans. „Svo var það eitt sinn að ég hitti kunningja minn til margra ára, Ríkharð Jónsson, Skagamann, knattspyrnumann og formann stjórnar Sjúkrahúss Akraness. Tjáði hann mér að það væri að losna yfirlæknisstaða við kvensjúkdómadeildina í Akranesi. Spurði hann mig hvort ég myndi hafa á því áhuga. Ég tók því fálega, en lofaði honum að ég skyldi hugsa málið. Skömmu síðar hringdi hann og sagði að nú væri staðan laus og lagði jafnframt á mig ákveðna pressu. Ég á stóran frændgarð á Akranesi og í æsku var ég oft gestur á heimili föðurbræðra minna og þeirra ágætu eiginkvenna. Og það varð úr. Ég féllst á að sækja um stöðuna, fékk hana og við hjónin fluttum búferlum upp á Akranes. Hugsaði ég svona með sjálfum mér að vera þar í 2 til 3 ár, en þau eru í dag orðin 31.

Stefán tók því síðla árs 1981 við stöðu yfirlæknis á fæðingar- og kvensjúkdómadeild Sjúkrahúss Akraness og gegndi þeirri stöðu þar til hann lét af störfum í október 2007.

„Að koma frá Umeå, að vísu með millilendingu á Landspítalanum, voru mér mikil viðbrigði. Í Umeå var húsakostur rúmur og ef eitthvað skorti af tækjum eða tólum voru þau einfaldlega keypt og málið þar með dautt. Á Akranesi var búið við þrengsli og krónískan skort á peningum. Það sem ég þó skynjaði fljótt var hversu starfsfólkið var samhent. Allir lögðust á eitt að gera hag og velferð deildarinnar sem mestan og bestan. Vil ég sérstaklega nefna ljósmæðurnar sem eru einstakar konur og ósérhlífnar. Eiga þær heiður skilinn og stóran þátt í góðu orðspori deildarinnar. Upp úr aldamótum var loks ráðist í endurhönnun á deildinni, sem í dag býr við rúman húsakost og góða aðstöðu.“

Áhugamál

Áhugamálin hafa verið mörg hjá Stefáni á lífsleiðinni. Fótbolti og skautar, stangveiði og skotveiði, ferðalög innanlands sem utan, bókalestur og klassísk tónlist, myndataka og myndvinnsla, garðrækt og hin síðari ár sumarbústaðurinn á Snæfellsnesi. Í fyrirrúmi er þó fjölskyldan, sem hefur stækkað ört, en barnabörnin eru orðin átta talsins.

Fjölskylda

Stefán er kvæntur Soffíu Sigurjónsdóttur f. 3.10. 1944, lífeindafræðingi og kennara. Foreldrar hennar eru Sigurjón Sigurðsson, fyrrv. lögreglustjóri, f. 16.8. 1915, d. 4.8. 2004, og Sigríður Magnúsdóttir Kjaran húsmóðir, f. 9.2. 1919, d. 4.11. 2011.

Börn Stefáns og Soffíu eru Sigurjón Örn, svæfinga- og gjörgæslulæknir, f. 24.11. 1971, kvæntur Bryndísi Böðvarsdóttur kennara. Börn þeirra eru Elvar og Freyja María; Ragnheiður Hrönn líffræðingur, f. 8.8. 1973, gift Þórarni Kristmundssyni æðaskurðlækni. Börn þeirra eru Stefán Már, Katrín Helga og Kristján Örn; Sigríður Helga viðskiptafræðingur, f. 10.2. 1977 gift Jóni Þór Grímssyni lögfræðingi. Börn þeirra eru Soffía Kristín, Birgir Þór og Eva Hrönn.

Systkini Stefáns eru Hilmar Þorgnýr auglýsingateiknari, f. 24.5. 1947, d. 17.8. 2001, og Kristjana Ingunn f. 18.10. 1952 húsfreyja, gift Saul Barr, hagfræðingi og fyrrv. prófessor, bús. í Bandaríkjunum.

Foreldrar Stefáns eru Ragnheiður Jóhannsdóttir húsfreyja, f. 2. júní 1916, látin 21. september 1988. Helgi Sveinsson Eyjólfsson f. 11.5. 1906, d. 17.10. 1985. Fósturforeldrar Helga voru hjónin Stefán Jósefsson og Guðný Jónsdóttir á Litla-Bakka á Akranesi. Helgi var bifreiðastjóri að atvinnu, en ungur að árum hélt hann til Kanada og lærði flug og lauk þar flugprófi fyrstur Íslendinga.