Reykjavíkurborg hefur séð ástæðu til að senda frá sér tilkynningu þar sem minnt er á reglur, sem endurnýjaðar voru í lok síðasta árs, um götu- og torgsölu í borginni.
Reglurnar ná einnig til borgarhátíða eins og Hinsegin daga og Menningarnætur, sem þýðir að þá er öll sölustarfsemi á götum úti eða annars staðar á borgarlandinu leyfisskyld.
Aðstandendur Hinsegin daga hafa hins vegar einir leyfi til sölu á varningi og þjónustu á sinni hátíð, en Reykjavíkurborg sér um leyfisveitingar vegna matarvagna á sérstökum sölusvæðum. Vakin er athygli á að matarvagnar verða að hafa starfsleyfi frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.
Útbúið hefur verið sérstakt umsóknarferli fyrir slíkar óskir og er umsóknareyðublað aðgengilegt á vefsíðunni www.reykjavik.is/gotuogtorgsala. Þessum reglum er ætlað að hlúa að lífi í borginni og auka við fjölbreytni í starfsemi og þjónustu, eins og segir m.a. í tilkynningu Reykjavíkurborgar.