Snæviþakin Herðubreið Norðan við Vatnajökul er ekki blómlegt um að litast þótt langt sé liðið á sumar. Landverðir hafa þurft að stika gönguleiðina að Öskju með snjóstikum en Gæsavatnaleið og Dyngjufjallaleið eru enn ófærar.
Snæviþakin Herðubreið Norðan við Vatnajökul er ekki blómlegt um að litast þótt langt sé liðið á sumar. Landverðir hafa þurft að stika gönguleiðina að Öskju með snjóstikum en Gæsavatnaleið og Dyngjufjallaleið eru enn ófærar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Anna Marsibil Clausen annamarsy@mbl.is Þrátt fyrir að veðurguðirnir hafi leikið íbúa á Suður- og Vesturlandi grátt þetta sumarið láta starfsmenn íslensku þjóðgarðanna engan bilbug á sér finna.

Baksvið

Anna Marsibil Clausen

annamarsy@mbl.is

Þrátt fyrir að veðurguðirnir hafi leikið íbúa á Suður- og Vesturlandi grátt þetta sumarið láta starfsmenn íslensku þjóðgarðanna engan bilbug á sér finna.

Lárus Kjartansson, landvörður hjá Þjóðgarðinum Snæfellsjökli, segir að góð stemning sé á svæðinu, jafnt hjá ferðafólki sem starfsfólki þjóðgarðsins. „Mér finnst bara góð umferð, bæði í Vatnshelli og á Djúpalónssand og annars staðar þrátt fyrir leiðinlegt veður,“ segir Lárus. „Ég myndi segja að ástand svæðisins sé bara nokkuð gott og við erum bara frekar ánægð með okkur hér í þjóðgarðinum. Við hliðrum auðvitað til og spilum þetta eftir veðri en við höfum getað gengið í öll verk sem við höfum ætlað okkur.“

Guðrún St. Kristinsdóttir, yfirlandvörður í Þjóðgarðinum á Þingvöllum, segir að eini munurinn sem hún finni fyrir milli ára sé að minna sé af íslenskum ferðamönnum. „Þeir spruttu hinsvegar upp eins og gorkúlur í fyrradag þegar glitti í smá sól,“ segir hún en telur erlendu ferðamennina líklegri til að halda sínum áætlunum á ferð um landið. „Ferðamennirnir eru ekkert að gera ráð fyrir glampandi sól og þó að það sé súld hefur verið ágætis veður,“ segir Guðrún. Hún viðurkennir að þurrkherbergin á tjaldsvæðinu fyllist þegar ferðamenn leita í skjól á kvöldin en hún segir enga breytingu vera á verkefnum starfsfólks milli ára. „Hér hefur fólk ekkert lagst í þunglyndi yfir veðrinu,“ segir hún og bendir blaðamanni á að ræða frekar við hálendisverði um vonda veðrið.

Mikill snjór við Öskju

Á öllum hálendisstöðvum Vatnajökulsþjóðgarðs er boðið upp á gönguferðir með landverði þar sem fólki er veitt innsýn í sögu og náttúru svæðanna. Jóhanna K. Þórhallsdóttir, hálendisfulltrúi í norðurhluta Vatnajökulsþjóðgarðs, segir gönguferðirnar lítið hafa raskast. „Þegar vegir voru opnaðir kom rosaleg gusa af fólki á örfáum dögum. Við erum búin að vera að sjá gríðarlega aukningu við Dettifoss og ég hélt að þetta væri fyrirboði um aukningu á hálendinu en þetta púlsar mjög í takt við veðurfar,“ segir Jóhanna. Hún kveður erlenda ferðamenn vera í miklum meirihluta en segir íslenska ferðamenn einnig líta við á góðviðrisdögum. Jóhanna telur álíka marga gesti á hálendinu og síðastliðin sumur en segir vegi hafa verið opnaða óvenju seint sökum snjóa.

„Meginmunur á ástandi svæðisins milli ára er hversu gríðarlegt snjómagn er í Öskju. Enn eru tveir kílómetrar óruddir en eins og áður þá stikum við gönguleiðina að Víti með snjóstikum,“ segir hún og bætir því við að einnig séu vegirnir milli Nýjadals og Drekagils með öllu ófærir. „Við erum þó ýmsu vön hérna og tökum ávallt glöð á móti fólki, sama hvernig viðrar.“

GÓÐUR GÍR Á GEYSI

Verslunin vænkast

„Fólk er vel búið og allir eru í almennt glöðum og góðum gír,“ segir Elín Svava Thoroddsen, sem er á meðal eigenda Hótels Geysis. „Erlendir ferðamenn eru ekkert að sækjast eftir einhverri veðursæld og veit að hér getur fljótt skipast veður í lofti,“ segir Elín en segist þó merkja að minna er um Íslendinga en oft áður. Elín segir að ferðaskrifstofurnar séu yfirleitt búnar að upplýsa erlenda ferðamenn um aðbúnað en minnist á að þó hafi nýlega þurft að lána einum gesti hótelsins buxur eftir að hann lenti óvænt í úrhellisrigningu. „Við erum líka með svo flotta útivistarverslun á staðnum að fólk er bara duglegt að kaupa sér búnað ef það vantar eitthvað,“ segir Elín.

Spurð hvort verslunin mokgræði ekki í vondu veðri svarar hún því til að rigningin komi í það minnsta ekki að sök upp á viðskiptin að gera og kveður ferðamennina æsta í íslenska hönnun. Hún segir starfsfólk hótelsins hvorki vera niðurlútt né niðurrignt enda vinni það flest inni. „Við reynum bara að halda gleðinni,“ segir hún hlæjandi. „Ætli það sé ekki helst landvörðurinn sem er niðurrigndur.“