Þjálfarinn Peter Öqvist, hinn sænski landsliðsþjálfari Íslands.
Þjálfarinn Peter Öqvist, hinn sænski landsliðsþjálfari Íslands.
Fimmtán leikmenn standa eftir í æfingahópi íslenska landsliðsins í körfubolta sem hóf æfingar í byrjun mánaðarins.

Fimmtán leikmenn standa eftir í æfingahópi íslenska landsliðsins í körfubolta sem hóf æfingar í byrjun mánaðarins. Magnús Þór Gunnarsson, Keflavík, Elvar Már Friðriksson, Njarðvík og ÍR-ingurinn Sveinbjörn Claessen hafa verið skornir frá hópnum síðan þá, að því fram kemur á vef körfuknattleikssambandsins.

Leikstjórnandinn Ægir Þór Steinarsson þurfti að draga sig úr hópnum vegna meiðsla og það sama gildir um Finn Atla Magnússon. Bróðir hans, Helgi Már, dró sig úr hópnum vegna vinnu og Justin Shouse verður ekki með af persónulegum ástæðum.

Svíinn Peter Öqvist, landsliðsþjálfari, kallaði því inn í hópinn 18 ára miðherja úr ÍR, Þorgrím Kára Emilsson.

Landsliðsins bíður æfingaferð til Kína en endanlegur hópur fyrir hana verður kynntur í vikunni. Liðið flýgur svo út á þriðjudaginn í næstu viku. Þegar heim verður komið leikur Ísland svo tvo æfingaleiki gegn Dönum, 25. og 26. júlí. Bæði A-liðið og U22 ára lið þjóðanna mætast í þeim leikjum.

Þrátt fyrir nokkur brottföll úr hópnum getur Öqvist stillt upp nánast sínu sterkasta því í honum eru flestir af bestu körfuknattleiksmönnum þjóðarinnar. Menn á borð við Jón Arnór Stefánsson, Hörð Axel Vilhjálmsson, Jakob Örn Sigurðsson, Pavel Ermolinskij og Hlyn Bæringsson. tomas@mbl.is