EM 2013
Víðir Sigurðsson í Kalmar
vs@mbl.is
Katrín Jónsdóttir landsliðsfyrirliði í knattspyrnu segir að hún og fleiri af reyndari leikmönnum landsliðsins búi að þeirri reynslu að hafa spilað fyrir Íslands hönd í síðustu úrslitakeppni Evrópumótsins, sem var í Finnlandi fyrir fjórum árum. Íslenska liðið mætir Noregi klukkan 16 í dag að íslenskum tíma og sá leikur mun ráða geysilega miklu um framhaldið í keppninni, fyrir bæði liðin.
Katrín sagði við Morgunblaðið í Kalmar í gær að í landsliðinu í dag væru mikið fleiri sem lékju erlendis en fyrir mótið í Finnlandi 2009, og það skipti miklu máli.
„Já, við erum með mun fleiri sem við getum kallað atvinnumenn og það hjálpar okkur. Það munar miklu að fleiri í liðinu nú séu vanar því að spila stóra leiki með sínum félagsliðum. Það var stórt að fara á Evrópumót árið 2009, engin okkar hafði gert það áður, og ég viðurkenni fúslega, hversu gömul sem ég var þá orðin, að ég var dálítið stessuð. Það kom vel fram í fyrsta leik hjá liðinu í þeirri keppni.
Það er því gott að geta farið inn í þetta Evrópumót með þessa reynslu á bakinu og miðlað henni til þeirra sem ekki voru í Finnlandi. Þrátt fyrir að mótið sé stórt og mikilvægt, þá er þetta bara fótbolti. Ef maður reynir að nýta sem mest af orkunni í sjálfan fótboltann úti á vellinum og lætur ekki stressið ná tökum á sér og taka orku, þá er mikið unnið.
Á móti kemur að fyrir þessa lokakeppni voru meiri meiðsli en fyrir keppnina í Finnlandi. Við látum það hinsvegar ekki á okkur fá. Allar sem eru í hópnum í dag gera allt sem þær geta til að sýna sig og sanna til að fá að spila, allar leggja allt í sölurnar,“ sagði Katrín.
Mikill styrkleiki að komast aftur á EM
Hún kvaðst ekki í vafa um að framfarirnar væru talsverðar hjá íslenska liðinu á milli stórmótanna tveggja.„Já, mér finnst það vera til marks um mikinn styrkleika og framfarir að við skyldum vinna okkur aftur sæti í lokakeppninni, því með því sýndum við að það var engin heppni að við skyldum vera með í Finnlandi. Ég bind miklar vonir við að íslenska landsliðið nái að halda þessari stöðu sinni, og komist jafnvel hærra. Það hefur verið talað um að markmiðið sé að komast í topp tíu á heimslistanum, en til þess þurfum við kannski enn fleiri leiki, koma upp 23-ára landsliði, og gera fleira,“ sagði Katrín.
Íslenska liðið hefur tapað sex af þeim sjö landsleikjum sem það hefur leikið á þessu ári en fyrirliðinn telur að það segi ekki alla söguna.
Gríðarleg einbeiting á þessum fáu dögum
„Þó gengið í ár hafi ekki verið akkúrat eins og við höfum viljað, þá erum við búnar að læra mikið af því sem hefur gengið á undanfarna mánuði. Margir nýir leikmenn hafa fengið reynslu af því að spila, sem hjálpar okkur vonandi. Íþróttamenn og lið lenda alltaf einhvern tíma í mótlæti og þá er mikilvægt að hópurinn, þjálfarateymið og allir í kringum liðið nái að vinna almennilega úr því.Núna var undirbúningurinn fyrir EM styttri en maður hefði óskað en á móti kemur að það hefur verið gríðarleg einbeiting og fókus á þessum fáu dögum sem við höfum verið saman, til að stilla saman strengi og ná góðri stemningu, og það finnst mér virkilega hafa tekist,“ sagði Katrín Jónsdóttir.