Harry Bretaprins var samkvæmt heimildum mbl.is staddur hér á landi í vikunni. Var hann við æfingar á Langjökli ásamt hópi hermanna á vegum góðgerðarsamtakanna Walking with the Wounded.
Hópurinn, sem samanstendur af 18 hermönnum, ætlar að ganga á suðurpólinn í nóvember næstkomandi. Harry prins er velgjörðarmaður samtakanna en hermennirnir hafa allir særst alvarlega í átökum, flestir í Afganistan eða Írak. Þeir eru frá Bretlandi, Bandaríkjunum, Kanada og Ástralíu.
Hermennirnir komu hingað til lands í mars á þessu ári til að æfa fyrir gönguna á suðurpólinn. Arctic Trucks höfðu umsjón með ferð hópsins í mars og munu fara með þeim á pólinn. Meðal hermannanna er Duncan Slater, liðþjálfi í breska hernum. Slater missti báða fætur í sprengingu í Afganistan 2009. Ef hann kemst á suðurpólinn verður hann fyrsti maðurinn sem misst hefur báða fætur til að komast þangað. gunnardofri@mbl.is