Benedikt Guðjón Benediktsson vörubílstjóri fæddist í Bolungarvík 23. ágúst 1927. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Patreksfjarðar 20. júní 2013.

Útför Benedikts fór fram frá Bíldudalskirkju 27. júní 2013.

Nú þegar komið er að kveðjustund langar mig að rifja upp eitthvað af því sem við upplifðum saman ég og afi. Ég var bara smápúki þegar amma leyfði mér að fara með nesti til afa í beitningaskúrana, það þótti mér mjög spennandi, þar var ýmislegt rætt og ekki allt við hæfi í svona lítil eyru. Svo þegar árin liðu fékk ég að fara með afa í vörubílinn og skemmtilegast þótti mér að fá að fara í nokkurra daga ferðir í vegagerð, þá fannst mér ég svaka kall og þá bjó maður í vinnuskúrunum með hinum köllunum. Afi var mikill náttúruunnandi og tók mig með sér í fjölmargar ferðir til fjalla, bæði gangandi og stundum á gönguskíðum, hann sýndi mér gamlar þjóðleiðir og sagði mér frá ýmsu sem þeim tengjast. Afi smitaði mig af ólæknandi flugdellu með brölti sínu á svifdrekum og véldrekum og síðar flugvélum, en afi var einn af frumkvöðlum svifdrekaflugs á Íslandi. Einnig má segja að hann hafi haft áhrif á áhuga minn á tónlist, þar sem hann var síspilandi á nikku í kringum mig alla tíð. Afi hafði mörg viðurnefni, t.d. Benni bílstjóri, Benni lögga og Benni sterki, og er ég ákaflega stoltur af þeim öllum saman. En ég verð að viðurkenna að ég var alltaf rígmontinn af kallinum þegar hann var kominn í löggubúninginn. Ég get ekki sleppt því að minnast á brölt okkar saman á Félaganum þar sem ég ásamt pabba og afa hóf sjómannsferilinn, eru mér það ómetanlegar stundir.

Afi minn, það er alveg ljóst að þú hefur verið mikill áhrifavaldur í lífi mínu, takk fyrir samfylgdina, minningin lifir.

Benedikt Páll.