Viðtal
Helgi Vífill Júlíusson
helgivifill@mbl.is
Hugbúnaðarfyrirtækið IceConsult hefur komið sér fyrir á erlendri grundu og hyggur á frekari landvinninga. Það er með skrifstofu í Danmörku og Noregi ásamt því sem samstarfsaðili selur hugbúnað þess í Bretlandi. Ráðgert er að hefja starfsemi í Svíþjóð í haust og viðræður standa yfir við fyrirtæki sem er áhugasamt um að selja og þjónusta hugbúnaðinn í Ástralíu, segir Finnur Friðrik Einarsson, sviðstjóri hjá IceConsult „Við höfum mikinn áhuga á að vaxa erlendis og til vitnis um það höfum við til dæmis nýlega ráðið danskan markaðsmann en Skandinavía er okkar aðalmarkaður,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið.
Tilnefnt til Vaxtarsprotans
Fyrirtækið var tilnefnt til Vaxtarsprotans á síðasta ári en veltan jókst um rúmlega 50% milli ára. Starfsmönnum hefur fjölgað umtalsvert á skömmum tíma. „Við munum örugglega vaxa enn meira í ár,“ segir hann. Veltan á þessu ári stefnir í að vera 500 milljónir króna. Helstu viðskiptavinir eru stofnanir og stærri fyrirtæki.IceConsult hefur þróað hugbúnaðinn MainManager sem aðstoðar fyrirtæki og stofnanir við rekstur á stoðþjónustu, t.d. viðhaldi á fasteignum, stýringu og eftirfylgni þjónustusamninga, þrifum, öryggismálum og fleira, að sögn Finns, til að kjarnastarfsemin geti blómstrað. Á ensku heitir þetta „facility management“ og er þýtt sem aðstöðustjórnun. Almennt er kostnaður fyrirtækja í stoðþjónustu um 10-20% af rekstrarkostnaði þeirra. Með uppsetningu á tilteknum rafrænum verkferlum og réttum þjónustusamningum er hægt að ná fram ögun og hagræðingu sem skilar um 10-30% sparnaði á þessum þáttum, að sögn Finns.
Hann segir að þetta sé hratt vaxandi geiri, árið 2010 var hann til dæmis sá sem óx hvað hraðast í Bretlandi. „Á undanförnum árum hefur hann verið meðal þeirra sem hefur vaxið hvað hraðast í heiminum,“ segir Finnur.
Stór samningur í Noregi
Í upphafi árs 2012 samdi IceConsult við Statsbygg, sem er rekstraraðili opinberra eigna í Noregi með 2.350 slíkar í sinni umsjá, þar á meðal eru háskólar, skrifstofur, menningarsöguleg mannvirki, fangelsi, konunglegar byggingar og sendiráð. Finnur segir að samningurinn hafi þá verið metinn á um 400 milljónir króna. Með samningnum óx fyrirtækið mikið. Gunnlaugur B. Hjartarson, stofnandi fyrirtækisins, flutti ásamt konu sinni til Ósló til að fylgja eftir verkefninu.
Fjölgaði starfsmönnum
Til að takast á við aukin umsvif var ákveðið að fjölga starfsmönnum og jafnframt var leitað eftir fjármögnun til að takast á við aukin umsvif og ný tækifæri.. „Það kom okkur á óvart hve viðskiptabanki okkar hafði takmörkuð úrræði í ljósi stöðunnar og fyrirliggjandi samninga. Niðurstaðan var sú að félagið skipti um viðskiptabanka og fór í samstarf við Arion banka sem var tilbúinn að styðja okkur dyggilega,“ segir Finnur.Vöxtur fyrirtækisins hefur kallað á það að starfsmönnum hefur fjölgað ört, en þeir eru nú yfir 30, þar af rúmlega 20 á Íslandi. Það sem af er ári hefur starfsmönnum hér á landi fjölgað um fimm og á síðasta ári var sambærileg aukning. Í Danmörku hefur starfsmönnum fjölgað um þrjá. Allir forritararnir eru á Íslandi.
Fyrir skömmu samdi IceConsult við dönsku verkfræðistofuna Rambøll, sem gerir það að verkum að viðskiptavinum í Dönmörku fjölgar töluvert á mjög skömmum tíma. „Það er spennandi samningur sem skapar mikil tækifæri,“ segir Finnur.
Fjárfest fyrir 80 milljónir
Fyrir þremur árum fjárfesti Frumtak, sem er sérhæfður fjárfestingarsjóður í nýsköpun, í IceConsult fyrir 80 milljónir króna. „Hugmyndin var að fjármunirnir færu í að ljúka við að efla markaðssókn í Danmörku og víðar í Skandinavíu auk Bretlands. Í millitíðinni unnum við útboð í Noregi og því hefur mikil orka starfsmanna farið í að sinna því verkefni,“ segir hann.ENDURGREIÐSLA SKATTS HEFUR KOMIÐ SÉR AFAR VEL
Bætt umhverfi tæknifyrirtækja
Finnur Friðrik Einarsson, sviðstjóri hjá IceConsult, segir að endurgreiðslu á þróunarkostnaði, sem síðasta ríkisstjórn kom á, sé fagnað í sprotasamfélaginu og komi fyrirtækjum mjög til góða. Um sé að ræða 20% skattaendurgreiðslu af almennum launakostnaði, sem fari í rannsóknir eða þróun vöru, upp að hundrað milljónum króna.„Þessi endurgreiðsla hefur komið sér afar vel fyrir okkar fyrirtæki og það má segja að í kjölfarið hafi starfsumhverfi okkar batnað til muna,“ segir hann.
Fyrsta rekstrarárið sem lögin tóku til var árið 2010. Fram hefur komið í fjölmiðlum að af um 30 löndum innan OECD hafi rúmlega 20 þeirra komið á skattaívilnunum vegna rannsókna og þróunar á einn eða annan hátt. Markmið laganna sé að bæta samkeppnisskilyrði nýsköpunarfyrirtækja og efla rannsóknir og þróunarstarf.