Víkingafélag Reykjavíkur, Einherjar, heldur hátíð í Hljómskálagarði í Reykjavík um helgina.
Hátíðin nefnist Ingólfshátíð og er þar vísað til Ingólfs Arnarsonar, landnámsmanns, sem gaf Reykjavík nafn, en hún er einnig tileinkuð Ingólfi Júlíussyni, ljósmyndara og heiðursfélaga Einherja, sem lést fyrir skömmu.
Að sögn Gunnars Víkings Ólafssonar, formanns Einherja, er stefnt að því að hátíðin verði árlegur viðburður í Reykjavík. Von er á gestum víða að á þessa fyrstu hátíð.
Hátíðarsvæðið verður opið frá 12 til 18 laugardag og sunnudag. Sett verða upp tjöld þar sem handverk af ýmsu tagi verður til sölu. Þá verða sýndar íþróttir frá víkingatímanum. Hátíðin er öllum opin og aðgangur er ókeypis.