Fimm eru enn í lífshættu eftir að Boeing 777-vél Asiana Airlines brotlenti á San Francisco-alþjóðaflugvellinum á laugardag. Orsakir slyssins eru enn ókunnar en rannsakendur sögðu á þriðjudag að flugmenn vélarinnar hefðu ekki séð í flugbrautina rétt áður en vélin skall í jörðina, vegna þess hve framendi hennar vísaði hátt upp.
„Flugmaðurinn sem sat í aukasætinu, afleysingaraðstoðarflugstjórinn, sagði að hann hefði ekki getað séð flugbrautina úr sæti sínu. Og að flugvélin - nefið hefði vísað upp, þannig að hann gat ekki séð flugbrautina,“ sagði Deborah Hersman, formaður samgönguöryggisnefndar.
Hún sagði að leiðbeinandi flugstjórans, sem var að læra á 777-vélar hjá flugfélaginu, hefði tekið eftir því í 200 feta hæð að farþegaþotan flygi of lágt og að sekúndum áður en hún lenti hefði dregið hættulega úr hraða hennar.
CNN hefur eftir Hersman að meðal annars sé til skoðunar hvernig sjálfvirk eldsneytisgjöf vélarinnar hefði virkað og hvort hún hefði verið notuð en þegar hún er á stjórnar hún sjálfvirkt hraða vélarinnar.