Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
Dagný Bjarnadóttir segir verkefnaframboð landslagsarkitekta iðulega sveiflast í takt við byggingariðnaðinn. Þegar kreppan knúði dyra fækkaði verkefnunum verulega. „Verkefnin hurfu ekki alveg strax, því ýmislegt var þegar farið af stað og þurfti að klára en fljótlega tók að hægja mjög á. Útkoman varð m.a. sú að fjöldi íslenskra landslagsarkitekta flutti úr landi og er t.d. allstór hópur starfandi í Noregi. Bara úr mínum kunningjahópi í stéttinni get ég hæglega nefnt 5-6 manns sem farið hafa af landi brott.“
Dagný á rösklega 20 ára feril að baki sem landslagsarkitekt en hún afréð árið 2011 að stofna eigin stofu DLD – Dagný Land Design. Hún segist hafa stofnað DLD til að hafa aukið svigrúm til tilraunastarfsemi og nýsköpunar og hefur Dagný m.a. gert áhugaverðar tilraunir í garðhúsgagnahönnun upp á síðkastið. Smám saman er verkefnum farið að fjölga á ný og gengur reksturinn ágætlega.
Að sögn Dagnýjar má greina jákvæða þróun í þá átt að bæði fyrirtæki, einstaklingar og sveitarfélög eru farin að koma auga á hvernig nota má landslagshönnun til að skapa verðmætt andrúmsloft og yfirbragð. Síðasta sumar tók hún þátt í veruleikasjónvarpsþætti hjá RÚV þar sem þessi eiginleiki landslagsarkitektúrsins kom skýrt í ljós en þar voru teymi hönnuða og arkitekta fengin til að lífga upp á litlausa bæjarhluta.
„Á ógnarskömmum tíma og fyrir ákaflega lítinn pening unnum við með heimamönnum að því að gera upp svæði bæði í Vestmannaeyjum og á Höfn í Hornafirði. Á báðum stöðum þurfti ekki að kosta miklu til og viðfangsefnið voru hús og torg sem stóðu auð og afskipt. Þegar umhverfið var fært í nýjan búning var hins vegar eins og andi svæðanna umbreyttist og úr varð nýr og eftirsóttur kjarni í samfélaginu. Fráhrindandi afgangsreitur varð skyndilega að verðmætu nýju hverfi.“
Fjárfest í umhverfinu
Batnandi verkefnastaða segir Dagný að skrifist einkum á ýmis skipulagsverkefni bæjarfélaga og svo uppbyggingu á svæðum sem ferðamenn heimsækja. Minna sé um verkefni fyrir fyrirtæki og enn síður fyrir einstaklinga. Einstaklingsmarkaðurinn hefur líka tekið miklum breytingum og er ekki svo gjöfull fyrir landslagsarkitekta að fást við:„Að hanna venjulegan heimilisgarð er oft mikil vinna og ekki með góðu móti hægt að rukka viðskiptavininn í samræmi við erfiðið. Ég hef brugðið á það ráð að reyna frekar að bjóða fólki upp á stutta ráðgjöf þar sem ég kem á staðinn og reyni að leysa verkefnið af hendi á skömmum tíma. En þá kemur upp sá vandi að viðskiptavinurinn vill oft fá meira en hann er í raun að borga fyrir.“
Að láta fagmann hanna garðinn frá upphafi til enda kostar sitt en getur hins vegar verið sniðug fjárfesting fyrir þá sem eru reiðubúnir til að fara alla leið. „Bæði getur verið hagkvæmara að gera hlutina vel og rétt strax í byrjun frekar en að kannski tví- og þrígera garðinn eftir efnum og tíðaranda. Þá er greinilegt að vandlega hannaður og gróinn garður getur aukið virði fasteignarinnar og það sem lagt var út fyrir fallegum og faglega hönnuðum garðinum má oft fá til baka þegar kemur að því að selja eignina.“
Fyrirtæki segir Dagný að ættu alveg sérstaklega að huga að hinu ytra umhverfi. Furðualgengt sé á Íslandi að útisvæðin mæti afgangi í iðnaðar-, skrifstofu- og verslunarhverfum. Fallegar og úthugsaðar byggingar eru reistar með ærnum tilkostnaði og miklum pælingum en hendinni kastað til og krónurnar vandlega sparaðar þegar kemur að umhverfinu. „Hér búum við í svo fjarskafallegu landi en þar sem landslagshönnuninni er ekki sinnt sem skyldi lifum við og hrærumst allt árið í umhverfi sem er næstum óþolandi því fegurðina skortir. Fyrir atvinnulífið getur fallega hönnuð aðkoma átt ríkan þátt í að skapa jákvætt viðhorf hjá viðskiptavininum á meðan illa hannað umhverfi getur haft þveröfug áhrif.“
Garðhúsgögn með góða samvisku
Meðal þeirra verkefna sem Dagný vinnur að um þessar mundir er hönnun garðhúsgagna sem smíðuð eru úr íslenskri Alaskaösp. Verkefnið vinnur hún í samstarfi við Hildi Gunnarsdóttur en þær hafa báðar vinnuaðstöðu í Toppstöðinni í Elliðaárdal.„Hún hafði unnið lokaverkefni um fangelsið og færðist í tal hjá okkur inni á kaffistofunni einn daginn hve mikill skortur væri á verkefnum fyrir fangana á Litla-Hrauni að vinna við sér til dundurs og mannbótar. Ég vissi af því að skógræktarfélagið væri þarna í næsta nágrenni að grisja mikið af skógarvið og að afurðin færi að mestu leyti í kurl sem svo er brennt sem orkugjafi.“
Sáu þær stöllur sér leik á borði að bæði hjálpa föngunum að byggja sig upp, þróa nýja nýtingarleið fyrir íslenskt hráefni og vitaskuld gera fallega nýja vöru.
Húsgagnalínan hefur fengið yfirskriftina FANG sem bæði vísar til framleiðslustaðarins og er einnig skammstöfun fyrir „framleiðsla afurða úr nytjaskógi í grennd“. Fyrsta húsgagnið er komið á markað, bekkurinn Drumbur, og fæst m.a. í Garðheimum. Fljótlega er von á legubekk og bogabekk.
Dagný segir neytendur bæði sýna því áhuga að varan sé íslensk framleiðsla úr íslensku hráefni en eins þyki merkilegt að húsgögnin séu smíðuð af föngum. Hún segir hafa mikið betrunargildi að fangarnir ýmist starfi eða stundi nám og til að bæta um betur fer stór hluti af hagnaðinum af sölunni í styrktarsjóð handa börnum fanga á Litla-Hrauni.
Húsgögnin gefa einnig tækifæri fyrir þjóðina að sættast við Alaskaöspina en samband asparinnar og Íslendinga hefur orðið heldur stirt síðustu áratugina. „Margir þola hreinlega ekki þetta tré en þetta neikvæða viðhorf byggir að mínu mati á misskilningi. Öspinni fylgja einfaldlega ákveðnir gallar sem og kostir. Alaskaöspin hefur reynst vera mjög fínn smíðaviður sem hentar íslenskum aðstæðum.“
Kálinu raðað í mynstur
Tíðarandinn hefur áhrif á hvernig fólk vill láta hanna garðana sína. Ein helsta tískubreytingin um þessar mundir segir Dagný að sé sú ríka áhersla sem lögð er á ræktun matjurta í beðinu heima. „Rækta má kál og ýmsar aðrar jurtir og ganga þannig frá beðinu að það myndi t.d. falleg munstur eða ritma og sé til prýði. Það er helst að kartöfluplönturnar þurfi að vera meira afsíðis því bæði þurfa þær gott pláss ef uppskeran á að vera góð og svo eru þær ekki endilega fallegar á að líta.“Margir biðja um ávaxtatré og eins berjarunna sem tína má af þegar tekur að hausta. Dagný segir matjurtagarðinn ekki þurfa að kalla á mikið umstang og þannig megi t.d. með réttu aðferðunum sleppa því að úða eitri á uppskeruna. „Síðan eru einfaldlega tekin t.d. stök salatblöð eða spínatblöð jafnóðum og þeirra er þörf, skoluð í vaskinum og sett á diskinn.“