Það hefur lengi verið opinbert leyndarmál að íslenskum heilbrigðisstofnunum er haldið í fjársvelti. Í stað þess að horfast í augu við vandann og takast á við hann hefur fjárveitingavaldið – Alþingi – velt vandamálunum á undan sér og slegið allri raunverulegri stefnumörkun á frest. Það eina sem hefur komið í veg fyrir stórslys er aðhald og mikil útsjónarsemi starfsmanna heilbrigðiskerfisins í þessari vonlausu glímu við krónískan halla og erfiðleikarnir aukast ár frá ári.
Við Íslendingar eigum nú tvo kosti í heilbrigðismálum. Við getum annars vegar haldið áfram á þeirri braut sem við höfum verið á og horft upp á heilbrigðiskerfið molna hægt en örugglega niður. Eða við getum tekið ákvörðun um þjóðarsátt um að verja heilbrigðiskerfið, endurskipulagt og byggt það upp að nýju. Forsenda slíkrar þjóðarsáttar er að grunnþjónustan um allt land sé varin og að þingmenn taki erfiðar ákvarðanir um forgangsröðun ríkisútgjalda.
Vandinn mun aukast
Að óbreyttu stefnir í að það vanti um 8.600 milljónir króna á þessu ári til að leysa fjárhagsvandann, þar af er uppsafnaður vandi fyrri ára um eða yfir 3.800 milljónir. Verði ekkert að gert verður vandinn enn meiri á komandi ári. Nú er svo komið að lengra verður ekki haldið nema að eitthvað láti undan. Álag á starfsfólk eykst, þjónusta við sjúklinga versnar og öryggi þeirra er ógnað. Hætta á miklum atgervisflótta úr öflugri sveit heilbrigðisstarfsfólks er raunveruleg og er þegar hafin.Við þurfum annars vegar að leysa bráðavandann sem blasir við í rekstri heilbrigðisstofnana um allt land, en um leið horfa til langrar framtíðar. Fátt bendir til annars en að sameiginlegur kostnaður við heilbrigðiskerfið aukist verulega enda eru Íslendingar að eldast. Samhliða er ljóst að kostnaður við sjúkdóma sem tengjast lífsstíl eykst ár frá ári. Það er því ekki tilviljun að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á forvarnir og lýðheilsu. Verkefnin sem blasa við eru því ekki aðeins að byggja nýtt sjúkrahús, heldur mun víðtækara þar sem allt hangir saman, heilsugæsla, bráðaþjónusta, forvarnir, lífsstílssjúkdómar, ný öflugur Landspítali, aðbúnaður og kjör starfsmanna.
Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að vinna að auknum lífsgæðum landsmanna og þar leikur heilbrigðisþjónustan lykilhlutverk.
Erfiðar ákvarðanir
Á sama tíma og barist er í bökkum og kerfinu er haldið gangandi með seiglu starfsmanna, er ætlunin að ráðast í húsbyggingar á ýmsum sviðum, s.s. sjúkrastofnana, fangelsis og Húss íslenskra fræða fyrir milljarða króna. Á sama tíma og þrengt er að starfi heilbrigðisstofnana um allt land og álagið stöðugt aukið renna milljarðar í margvíslega styrki og sjóði og rekstur sendiráða víða um heim. Á sama tíma og teflt er á tæpasta vað í heilbrigðisþjónustu landsmanna hefur eftirlitskerfi hins opinbera þanist út og nýjar stofnanir settar á fót.Sum þessara verkefna sem ákveðið hefur verið að vanmáttugur ríkissjóður standi undir, eru gagnleg og þjóðinni vonandi til heilla til framtíðar. En spurningin er hvort við höfum efni á því að gera allt sem hugurinn stendur til en láta á sama tíma reka á reiðanum í heilbrigðismálum þjóðarinnar. Svar mitt er nei, það er vitlaust gefið. Við sem njótum þess trúnaðar að sitja á Alþingi verðum að vera þess umkomin að taka erfiðar ákvarðanir og forgangsraða þegar kemur að ráðstöfun takmarkaðra ríkissjóðstekna
Sýn til framtíðar
Stefna ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum er skýr og gefur fyrirheit um að nýjum vinnubrögðum verði beitt í stað þess að velta vandanum stöðugt á undan sér líkt og gert hefur verið. Í stefnuyfirlýsingu segir meðal annars: „Íslenskt heilbrigðiskerfi verður að vera samkeppnisfært við nágrannalönd um tækjakost, aðbúnað sjúklinga og aðstæður starfsmanna. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að landsmenn njóti aðgengis að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu.“Það er í samræmi við þessa stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem ég mun starfa sem heilbrigðisráðherra. Verkefnið er að leysa þann vanda sem við er að glíma og tryggja að undirstöðurnar séu traustar. Þegar því verkefni er lokið getum við hugað að því að ráðast í umfangsmiklar fjárfestingar, m.a. í nýju tæknivæddu sjúkrahúsi sem á að þjónusta alla landsmenn og þá getum við horft bjartsýn til framtíðar.
Þingmenn standi saman
Í umræðu um byggingu nýs Landspítala á Alþingi 25. júní síðastliðinn sagðist ég eiga þá ósk heitasta að þingheimur allur standi saman um það verk að koma íslenska heilbrigðiskerfinu á fæturna aftur. Þar með gefst okkur tækifæri á að „horfa með bjartsýni og trú til nýrra tíma og gerir okkur kleift að endurnýja húsakostinn og reisa heilbrigðisþjónustuna úr þeim rústum sem hún stefnir í í dag“.Ég er sannfærður um að allir Íslendingar taka undir þessa ósk. Þjóðarsátt um öflugt heilbrigðiskerfi, þar sem þjónustan er tryggð og búið er vel að starfsmönnum, felur í sér kröfu um skynsamlega forgangsröðun í ríkisfjármálum og skýra sýn til framtíðar.
Höfundur er heilbrigðisráðherra.