Víðir Sigurðsson í Kalmar
vs@mbl.is
Fjögur stig eru engin trygging fyrir áframhaldi og samt gæti eitt stig dugað Íslandi til að komast í átta liða úrslit Evrópukeppni kvenna í Svíþjóð.
Keppnisfyrirkomulagið, þar sem átta lið af tólf komast áfram, býður uppá talsverða óvissu. Eitt lið í þriðja sæti, það sem verður með lakastan árangur, kemst ekki áfram úr riðlunum þremur.
Talað hefur verið um að Ísland verði að ná í fjögur stig gegn Noregi og Hollandi til að komast áfram úr B-riðlinum. Vissulega yrði það góð staða, en dygði ekki ef liðin í þriðja sæti hinna riðlanna fengju sex stig, eða þá fjögur stig og betri markatölu.
Á sama hátt er mögulegt að eitt stig myndi nægja. Ef tvö neðstu liðin í einhverjum hinna riðlanna gera jafntefli innbyrðis, og tapa hinum leikjunum, gæti liðið í þriðja sæti í B-riðlinum, þar sem niðurstaðan hefði orðið nákvæmlega eins, komist áfram á betri markatölu.
En þetta er eitthvað sem ekki er hægt að velta sér mikið uppúr. Í fyrstu og annarri umferð riðlakeppninnar getur eitt og annað gerst, en í lokaumferðinni geta málin þróast þannig að það séu ekki bara úrslitin í leik Íslands sem skipta máli – heldur líka hvernig leikir fara í hinum riðlunum.
Í síðustu keppni, í Finnlandi, þróuðust úrslit á þann veg að 4 stig þurfti til að komast áfram. England og Noregur fóru áfram á 4 stigum í þriðja sæti sinna riðla, og komust svo bæði í undanúrslit. Danir fengu 3 stig í þriðja sæti í sínum riðli, sátu eftir með sárt ennið og þurftu að halda heim eins og liðin þrjú sem urðu í neðstu sætum riðlanna þriggja, Ísland, Úkraína og Rússland.