Anna Bjarnadóttir var fædd í Reykjavík 11.7. 1897. Hún var dóttir hjónanna Bjarna Sæmundssonar, fiskifræðings sem var brautryðjandi í rannsóknum á lífríki Íslands, og Steinunnar Sveinsdóttur. Foreldrar Bjarna voru Sæmundur Jónsson útvegsbóndi og Sigríður Bjarnadóttir.
Anna lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1916 með ágætiseinkunn. Hún hugði á nám erlendis en þetta var á stríðsárunum og því var hún þrjú ár hér heima í námi við norrændu deildina í Háskóla Íslands. Þann tíma vann hún einnig við orðabók Sigfúsar Blöndal. Svo fór hún út og lauk BA (Hons) gráðu í ensku með íslensku sem aukafag frá Westfield College í London árið 1922.
Anna kenndi ensku í Menntaskólanum í Reykjavík frá 1923 til 1931. Þá var ákveðið að takmarka aðgang að MR, því fækkaði kennslustundunum og þurfti Anna að víkja. Hún kenndi þá næstu tvo vetur dönsku og ensku í Flensborg. Hún hafði þá kynnst manni sínum, Einari Guðnasyni prófasti í Reykholti. Hún giftist honum árið 1933 og flutti til hans í Borgarfjörðinn og fór að kenna við Héraðsskólann í Reykholti og kenndi þar allt til ársins 1964.
Veturinn 1923-1924 hélt hún röð af fyrirlestrum um Shakespeare sem stóðu allan veturinn og voru vel sóttir. Hún hafði veg og vanda að stofnun Félags íslenskra háskólakvenna/Kvenstúdentafélags Íslands, sem var stofnað árið 1928. Björg Þorláksson hafði verið aðalhvatamaður að stofnun félagsins en var búsett erlendis. Anna varð seinna heiðursfélagi félagsins. Einnig var hún fyrsti formaður Prestkvennafélags Íslands. Anna samdi margar kennslubækur í ensku.
Anna segir í viðtali í Morgunblaðinu 1978 að hún hafi goldið þess að vera kvenmaður hvað stöðuveitingar varðar. „Karlmönnum var þar tvímælalaust hyglað. Mér var svona frekar ýtt til hliðar.“
Anna Bjarnadóttir lést 9.12. 1991 og var jarðsett í Reykholtskirkjugarði.