Þóra Sigrún Gunnarsdóttir fæddist á Siglufirði 26. mars 1945. Hún varð bráðkvödd á heimili sínu, Jörfa, Kjalarnesi, 29. júní 2013.
Foreldrar hennar voru Stefán Gunnar Símonarson, f. 1917, verkstjóri hjá síldarútvegsnefnd, og Þóra Einarsdóttir, f. 1912.
Systkini hennar eru þau Ásdís, f. 1934, Símon Ægir, f. 1941, Steinunn, f. 1943, Gunnar Sævar, f. 1946, og Guðmundur, f. 1949.
Hinn 15. febrúar 1964 giftist Þóra Sigrún Eggerti Ólafssyni flugvirkja og rafverktaka og eignuðust þau sex börn: 1) Guðrún, f. 1964, Waldorfkennari. Maki hennar er Jón Viðar Óskarsson, f. 1961, rafverktaki og tæknimaður. Börn þeirra eru a) Óskar, f. 1983, b) Rakel, f. 1987. Hennar börn eru Aron, Jón Tómas og Mikael Enok. c) Berglind f. 1989. 2) Kristín, f. 1965, tækniteiknari. Maki hennar er Kjartan Flosason, forstöðumaður Póstmiðstöðvar. Börn þeirra a) Arnar, f. 1992. b) Þóra Sigrún, f. 1996. 3) Stella Bára, f. 1969, fatahönnuður. Börn hennar a) Glódís Una, f. 1995. b) Bergsveinn Logi, f. 2000. c) Þóra Kristín, f. 2004. d) Elmar Darri, f. 2006. 4) Gunnar Þór, f. 1970, framkvæmdastjóri. Maki hans er Stephenie Lyn Surbey. Börn þeirra a) Thor Charles, f. 1996. b) Ari David, f. 2001. c) Ólafur Raimond, f. 2003. 5) Sigrún, f. 1975. Börn hennar. a) Írena Ösp, f. 1999. b) Bjarni Jökull, f. 2004. 6) Ólöf Dröfn, f. 1981, sálfræðingur. Maki hennar er Adam Charles Drennan tölvunarfræðingur, f. 1978. Börn þeirra. a) Óðinn Eggert, f. 2008. b) Magni Charles, f. 2010, c) Alexander Þór, f. 2012.
Þóra lauk fullnaðarprófi frá Melaskólanum. Einnig fékk hún hæstu einkunn og varð stúdent ársins frá Platt College í Tulsa Oklahoma. Þar var hún nefndur nemandi ársins og útskrifaðist hún sem blómaskreytingameistari og með gráðu í verslunarrekstri.
Þóra fór ung að vinna við síldarsöltun á plani á Siglufirði og var hún þá varla 10 ára. Hún stundaði ýmis störf. Hún var með eggjaframleiðslu um tíma, vann við minkabú á Kjalarnesi og einnig vann hún í Arnarholti við ýmis störf, þar á meðal rak hún sjoppuna til nokkurra ára. Þóra bjó í Tulsa, Oklahoma, í nokkur ár með eiginmanni sínum og fjórum yngstu börnum þar sem Eggert stundaði nám í flugvirkjun, flugradíó- og mælitækjavirkjun. Þóra keypti Blómahafið við Gullinbrú 1992 og rak það í 12 ár ásamt því að reka samtímis Blómahafið í Firðinum, Hafnarfirði, í tvö ár.
Útför Þóru Sigrúnar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 11. júlí 2013, og hefst athöfnin kl. 13.
Á liðnum dögum er fátt sem maður skilur og ég á erfitt með að átta mig á því að hún Þóra tengdamóðir mín sé látin. Mér finnst því mikilvægt að rifja upp í huganum allar þær góðu minningar sem ég á um hana og það veitir mér ákveðna ró því hún Þóra var einstök tengdamóðir. Brosmild, glaðlynd og tók öllum með opnum örum. Margar góðar stundir áttum við saman bæði hér heima og á ferðalögum erlendis. Þóra var hrein og bein, talaði skýrt og gott var að ræða við hana bæði þegar vel gekk og einnig þegar eitthvað bjátaði á. Við náðum afar vel saman og gátum rætt málin opinskátt og hún gaf góð ráð í öllum málum. Fyrstu minningar mínar um Þóru voru þegar við Kristín mín fórum að heimsækja Þóru og Eggert til Tulsa en þangað fylgdi hún Eggerti þegar hann fór í nám. Þóra var alltaf að hugsa um allt og alla á heimilinu og passa að allt gengi upp enda var hún kraftmikil og dugleg. Bjartsýn og ósérhlífin eru orðin sem passa vel við hana enda sá hún ekki vandamál heldur verkefni sem þurfti að leysa og aldrei kvartaði hún yfir einu né neinu. Stærsta sameiginlega stund okkar hjóna var þegar Þóra var með okkur Kristínu þegar nafna hennar Þóra Sigrún fæddist. Að hafa hana þar með okkur var mikill styrkur fyrir Kristínu en ekki síður fyrir mig. Þær nöfnur bundust síðan mjög nánum böndum og veit ég að hún tengdamamma mín mun fylgjast með henni Þóru minni og leiðbeina henni í gegnum lífið. Ári seinna þá fluttum við Kristín með krakkana okkar upp á Jörfa og fengum að búa í skúrnum á meðan við vorum að koma okkur fyrir í Starenginu. Var það góður tími fyrir okkur og einnig krakkana sem kynntust þá ömmu sinni vel. Alltaf er gott að koma upp á Jörfa, maður er kominn út úr skarkalanum í bænum og nær að slaka vel á. Aldrei fór maður þaðan svangur, hvort sem það var á matartíma eða kaffitíma því Þóra var alltaf að bera í mann mat. Þóra lagði einnig áherslu á það að fylgja manni til dyra þegar maður var að fara því hún vildi ekki að maður færi með vitið úr húsinu eins og hún sagði.
Þóra átti og rak blómabúðina Blómahafið við Stórhöfða til margra ára. Þegar hún kvaddi viðskiptavini sína hafði hún til siðs að þakka fyrir viðskiptin og bætti síðan við „Eigðu góðan dag“, þótti mér þetta sérstakt, en þannig var Þóra, hún vildi að öllum liði vel og kvaddi því sína viðskiptavini með þessum hætti.
Sagt er að það sé Lottó að fá góða tengdamömmu og ef það er rétt, þá fékk ég stærsta lottóvinninginn sem hægt er að fá. Þóra var einstök kona í alla staði og mun ég sakna hennar mikið.
Elsku Eggert, minningar mínar um ykkur Þóru saman eru endalaust góðar og fallegar enda voruð þið samhent í öllu því sem þið tókuð ykkur fyrir hendur og voruð dugleg að sinna okkur í fjölskyldunni.
Kjartan Flosason.
„Þegar þú grætur, skoðaðu þá huga þinn og þá munt þú sjá að þú grætur bara vegna góðra minninga.“
Það er svo sannarlega rétt.
Hvíldu í friði, elsku Þóra amma, ég mun alltaf elska þig.
Kær kveðja,
Glódís Una Ríkharðsdóttir.
Mér fannst skemmtilegt að hjálpa ömmu og afa að taka upp úr garðinum grænmeti og kartöflur og gott að fá rabarbara með sykri.
Þegar að amma var að passa mig var hún alltaf góð og hún las fyrir mig þegar að hún setti mig í rúmið.
Amma knúsaði mig alltaf þegar ég kom í heimsókn og afi líka.
Það var gott að koma til ömmu og afa, en núna er gott að koma til afa.
Stundum þegar að við komum á Jörfann fórum við út á leynistað og fengum pulsur og mat af grillinu.
Alltaf þegar við fórum kysstum við afa og ömmu og fengum stórt knús og svo stóðu þau í glugganum og gerðu gluggavink og stundum hurðavink.
Ég elska þig, amma mín, og vona að þér líði vel hjá Guði.
Kveðja,
Elmar Darri.
Ég fékk nafnið hennar ömmu,
það var sök hennar mömmu.
Á afmælisdegi hennar ég fæddist,
og aldrei hún að því hæddist.
Sudoku, kapal og prjón kenndir þú mér.
Ást og umhyggju kenndi ég þér.
Þú varst alltaf góð við mig,
og ég var alltaf góð við þig.
Gluggavink var svo gaman,
þegar að við höfðum verið saman.
Með bros á vör,
hófst okkar för.
Elsku amma mín, þú hefur verið svo góð við mig alla mína ævi.
Kveðja,
Þóra Kristín.
Þegar ég kom heim til ykkar afa var alltaf það fyrsta sem heyrðist var kallið í þér „nei, hver er kominn?“ eða „hver er þar?“ og þá gekk maður upp stigann og þá sögðu þú og afi „nei, eruð þið komin?“ og áður en ég vissi af varst þú búin að steikja hrúgu af pönnukökum.
Mér tókst að vinna hjá ykkur í heila viku og í hvert skipti sem það var kaffi var alltaf hlaðborð af kökum og allskonar og auðvitað glænýjum pönnukökum, það var alltaf til eitthvað gott að borða hjá þér.
Þú varst alltaf rosalega dugleg og kvartaðir aldrei, en það var regla hjá þér, það var stranglega bannað að hjálpa þér í eldhúsinu, þú vildir alltaf fá að ganga frá í eldhúsinu sjálf. Þú varst alltaf mjög brosmild og þú hrósaðir eða sagðir alltaf eitthvað fallegt við alla.
Þú varst besta amma í öllum heiminum. Ég elska þig, amma mín, og sakna þín óendanlega mikið. Lífið verður aldrei eins án þín.
Kveðja,
Bergsveinn Logi.
Ástarkveðjur frá
Ólöfu Gunnarsdóttur.
Þóra og Eddi voru alltaf að ferðast með sínu lagi og þetta voru sko alvöru ævintýraferðir, ég held að ég segi það satt að þau hafi aldrei farið í skipulagða pakkaferð, það voru ferðasögur fyrir allan peninginn og mikið var gaman að hlusta á frásagnirnar og sérstaklega fyndnar lýsingar á því sem hefði mátt fara betur.
Ég er þakklát fyrir allar fallegu minningarnar um yndislegu frænku mína.
Elsku Eddi, ég sendi þér og fjölskyldu þinni mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Íris Emilsdóttir.
Þóra var einstaklega heilsteypt og hjartahlý, vildi allt fyrir alla gera hvort sem það var fjölskyldan eða vinirnir. Þau hjón voru vinamörg og alltaf var tekið vel á móti manni, með opnum örmum í orðsins fyllstu merkingu. Oft var setið á Jörfa langt fram eftir og spjallað um ýmis málefni og hafði Þóra ákveðnar skoðanir sem gaman var að ræða, hún var svo fordómalaus á allan hátt. Hún var kletturinn sem ekkert gat haggað.
Þóra mín, ég þakka þér vinskapinn og tryggðina í gegnum árin og vona að Guð gefi fjölskyldunni styrk í þeirra miklu sorg.
Áslaug.
Þóra var listfeng og nutum við þess, sérstaklega á meðan hún rak blómabúðina en líka við önnur tækifæri.
Það var gæfa þeirra Þóru og Edda að hittast og skapa sína samfylgd sem bar ríkulegan ávöxt í börnum og barnabörnum.
Að upplifa gleðina sem geislaði frá þeim var vægt til orða tekið mannbætandi fyrir okkur öll.
Elsku Þóra, takk fyrir allt.
Helga, Þórunn, Baldur, Magnea, Sævar, Soffía, Stefán og Pétur.