Blaðamannafundur Sara Björk Gunnarsdóttir og Sigurður Ragnar Eyjólfsson á fundinum í gær.
Blaðamannafundur Sara Björk Gunnarsdóttir og Sigurður Ragnar Eyjólfsson á fundinum í gær. — Morgunblaðið/Víðir Sigurðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EM 2013 Víðir Sigurðsson í Kalmar vs@mbl.is „Við höfum mætt Norðmönnum nokkrum sinnum undanfarin ár og þetta hafa alltaf verið hörkuleikir.

EM 2013

Víðir Sigurðsson í Kalmar

vs@mbl.is „Við höfum mætt Norðmönnum nokkrum sinnum undanfarin ár og þetta hafa alltaf verið hörkuleikir. Sigrarnir hafa fallið báðum megin, við höfum unnið þá og þeir okkur, þannig að ég býst við jöfnum leik og erfiðum, en þetta er jafnframt geysilega mikilvægur leikur og ég held að okkar leikmenn hlakki mikið til hans,“ sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfari í knattspyrnu í gærkvöld en Ísland mætir Noregi í fyrsta leik sínum í úrslitakeppni EM í Kalmar í dag klukkan 16 að íslenskum tíma.

Sigurður sagði að þar sem Norðmenn hefðu skipt um þjálfara um áramótin hefði lið þeirra tekið breytingum frá því það mætti Íslandi tvívegis í undankeppninni.

„Það verða alltaf einhverja áherslubreytingar en þeir hafa spilað marga vináttuleiki og við höfum séð mikið til þeirra og getað skoðað hverju hefur verið breytt og hvernig þeir spila. Við þekkjum vel til þeirra og vitum að mestu við hverju má búast af þeim. Við erum því vel undirbúin fyrir þennan leik, það er hinsvegar aldrei hægt að kortleggja allt því þjálfararnir hafa haft góðan tíma með sínum liðum í lokaundirbúningi og Norðmenn gætu því hafa breytt einu og öðru í sínum leik. En í heildina erum við vel undir það búin að mæta þeim og vitum á hverju við eigum von,“ sagði Sigurður.

Spurning hvort liðið vill þetta meira

Sara Björk Gunnarsdóttir miðjumaður íslenska liðsins sagði við Morgunblaðið að tilhlökkunin væri búin að vera mikil og nú væri mótið loksins að byrja.

„Leikurinn leggst mjög vel í mig og allar stelpurnar. Við höfum beðið lengi eftir þessu og erum mjög spenntar. Hann er geysilega mikilvægur, við þurfum að fá þrjú stig, Norðmenn þurfa þrjú stig, og það er afar mikilvægt að ná að vinna. Þær eru með svipað lið og við, eru mjög grimmar, stórar og sterkar eins og við og úrslitin munu ráðast af því hvor aðilinn vill þetta meira, er tilbúinn til að berjast meira og vinna alla bolta, og vonandi verðum það við,“ sagði Sara Björk.

Sigurður Ragnar mun tilkynna byrjunarliðið um miðjan dag í dag en vafi hefur leikið á þátttöku Sifjar Atladóttur og Þóru B. Helgadóttur. Þær æfðu báðar með liðinu á aðalleikvanginum í Kalmar í gærkvöld.