Bandaríska tæknifyrirtækið Apple var í gærfundið sekt um að hafa haft samráð við bókaútgefendur um verðlagningu á rafbókum.

Bandaríska tæknifyrirtækið Apple var í gærfundið sekt um að hafa haft samráð við bókaútgefendur um verðlagningu á rafbókum. Málið var sótt af saksóknara í Bandaríkjunum en dómari tók undir með að Apple hefði, ásamt bókaútgefendum, komið í veg fyrir dreifingu og með þeim hætti náð að halda verði á rafbókum uppi. Þetta kemur fram á fréttavef Reuters .

Á seinasta ári var Apple, ásamt fimm öðrum stórum bókaútgefendum, ásakað um brotin. Bókaútgefendurnir sömdu um skaðabætur en Apple ákvað að fara með málið fyrir dómstóla.

Saksóknari hélt því fram að tilgangurinn með samráðinu hafi verið að grafa undan sterkri stöðu Amazon á rafbókamarkaðinum. Var Apple ásakað um að hafa komið á viðskiptamódeli með útgefendunum sem gekk út á að leyfa þeim, en ekki heildsöluaðilum, að ákveða verð rafbókanna. Með því var hægt, að sögn saksóknara, að koma í veg fyrir að Amazon héldi verðinu undir 10 dollurum á bókina.

Í seinasta mánuði sögðu lögfræðingar Apple að ef fyrirtækið yrði fundið sekt, þá myndi „fordæmið leiða til titrings í hinu alþjóðlega viðskiptalífi“.

kij@mbl.is