Ósáttir Lyfsalar telja að reglugerðin skerði samkeppni á markaði.
Ósáttir Lyfsalar telja að reglugerðin skerði samkeppni á markaði. — Morgunblaðið/Sverrir
Árni Grétar Finnsson agf@mbl.

Árni Grétar Finnsson

agf@mbl.is

Sjúkratryggingum Íslands (SÍ) hafa borist ábendingar þess efnis að einhverjir lyfsalar skili ekki upplýsingum um afslætti sem þeir veita við sölu á lyfjum sem falla undir greiðsluþátttöku sjúkratrygginga og fari því ekki eftir settum reglum. Þetta kemur fram í bréfi sem SÍ sendu frá sér í vikunni til lyfsala.

Vísað er til reglugerðar um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í lyfjakostnaði. Í henni felst að afsláttur af verði lyfs lækki smásöluverð þess og miðast greiðsluþátttaka sjúkratrygginga því við verðið eftir að afsláttur er gefinn. Því megi til dæmis ekki gefa svonefndan „afslátt á kassa“ á lyfjum með þeim hætti að einungis kaupandinn njóti góðs af.

Lagaheimild ekki fyrir hendi

„Það á að valta yfir mann með öllum ráðum og dáðum,“ segir Haukur Ingason, apótekari í Garðsapóteki, um efni bréfsins. Haukur hefur veitt viðskiptavinum sínum afslátt, en hann segir afsláttinn vera mótframlag apóteksins til sjúklinga. „Við köllum þetta mótframlag vegna þess að við erum í raun að taka þátt með sjúklingnum í hans hlutdeild,“ segir Haukur og bætir við: „Þetta snýst um afslátt á þeim lyfjum sem sjúkratryggingar taka þátt í. Samkvæmt þessari reglugerð vilja Sjúkratryggingar Íslands meina að ef maður gefur afslátt af því verði, þá eigi það að lækka smásöluverð á lyfinu. En þeir hafa engar heimildir til þess í lögum vegna þess að lyfjaverð og þá jafnframt smásöluverð er ákveðið af lyfjaverðsnefnd samkvæmt lögum. Það kemur þessu ekkert við.“

Vilja fá sinn hluta af verðinu

„Með nýja kerfinu var gert ráð fyrir því að afslættir smásalanna kæmu til lækkunar á greiðsluþátttökuverðinu og myndu þannig hafa bæði áhrif á kostnaðarhlutdeild sjúklings og sjúkratrygginganna,“ segir Steingrímur Ari Arason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands. Hann segir málið snúast um að nokkrir lyfsalar hafi veitt afslátt sem hafði einungis áhrif á kostnaðarhlutdeild kaupanda lyfsins, en ætlun laganna var að slíkur afsláttur myndi bæði hafa áhrif á kostnaðarhlutdeild sjúklings og greiðsluþátttöku sjúkratrygginga.

Hann segir að lögfræðileg álitaefni hafi komið upp í tengslum við málið, og í framhaldinu hafi stofnunin kallað eftir lögfræðilegri afstöðu frá heilbrigðisráðuneytinu: „Þegar niðurstaðan var komin sendum við út þetta bréf og ætlumst þá til þess að framkvæmdin verði með þeim hætti sem allan tímann var gert ráð fyrir að yrði,“ segir Steingrímur.

Samkeppnisstaða lyfsala skert

Haukur í Garðsapóteki segir að framkvæmdin stangist á við samkeppnislög og með þessu séu opinberir aðilar að takmarka samkeppni á lyfsölumarkaði. Steingrímur segir hins vegar að þrátt fyrir þau sjónarmið standi stofnunin við það sem í bréfinu segir.

Vegna málsins var haldinn fundur á vegum Sjúkratrygginga Íslands ásamt forsvarsmönnum Lyfju, Lyfja og heilsu og Lyfjavers, ásamt fulltrúa frá Samkeppniseftirlitinu. Fulltrúinn sat fundinn vegna þess að eftirlitið hefur fengið athugasemdir um hugsanlega samkeppnislega vankanta við kerfið en ekki hefur verið mótuð skoðun á málinu með hliðsjón af samkeppnislögum enn sem komið er. Samkeppniseftirlitið vildi ekki tjá sig frekar um málið að svo stöddu.

Dæmi um afsláttinn
» Sjúkratryggingin borgar yfirleitt 85% verðsins og sjúklingurinn 15%.
» Lyfsalar veita afslátt á lyfjunum, svokallað mótframlag. Þannig borgar sjúklingurinn 5% af upphaflegu verði lyfsins, en áfram borga sjúkratryggingar 85%.
» Sjúkratryggingar Íslands eru ósammála og telja að hlutföllin eigi að vera þau sömu eftir að afsláttur er gefinn, nema nú með því lækkaða verði sem afslættinum nemur.