Útboð Erlendir aðilar létu til sín taka í gjaldeyrisútboðinu í júní.
Útboð Erlendir aðilar létu til sín taka í gjaldeyrisútboðinu í júní. — Morgunblaðið/Ómar
Erlendir aðilar voru fyrirferðamiklir á eftirmarkaði með skuldabréf í júní og jókst eignarhlutdeild þeirra í nær öllum ríkisbréfaflokkum, eftir því sem fram kemur í Morgunkorni greiningardeildar Íslandsbanka.

Erlendir aðilar voru fyrirferðamiklir á eftirmarkaði með skuldabréf í júní og jókst eignarhlutdeild þeirra í nær öllum ríkisbréfaflokkum, eftir því sem fram kemur í Morgunkorni greiningardeildar Íslandsbanka. Segir greiningin þetta vera framhald á þeirri þróun sem var í maí, sem megi að miklu leyti rekja til gjalddagans á RIKB13 skuldabréfaflokknum um miðjan maí.

Meiri áhugi á ríkisbréfaleiðinni

Í Morgunkorni kemur fram að ríkisbréfaeign erlendra aðila hafi aukist um 18 milljarða króna að nafnvirði í júní en það megi að stórum hluta rekja til gjalddagans á RIKB13. Greinendur bankans benda einnig á að erlendir aðilar virðast hafa haft mun meiri áhuga á ríkisbréfaleiðinni í gjaldeyrisútboði Seðlabanka Íslands, sem fram fór í júní, en þeir hafi áður haft. „Þannig jókst eign þeirra í RIKS33 um 3,0 ma.kr. í mánuðinum og er því ljóst að þeir hafa keypt bróðurpart þeirra bréfa sem seld voru í útboðinu, eða sem nemur um 90% af seldu magni. Er þetta mun meira en þeir hafa áður keypt, enda áttu þeir ekki nema 768 m.kr. í RIKS33 flokknum í lok maí síðastliðnum,“ segir greiningardeildin jafnframt.

kij@mbl.is