Ingibjörg Hákonardóttir fæddist 3. september 1947. Hún lést á heimili sínu 1. júlí 2013.
Hún var dóttir hjónanna Sigurbjargar Einarsdóttur, f. 28. maí 1921, d. 30. ágúst 1997 og Hákonar Sumarliðasonar, f. 15. júlí 1918, d. 17. júlí 2003. Systkini hennar eru Magnús, f. 6. október 1940, Guðný, f. 11. október 1943, d. 7. nóvember 2008, Einar, f. 14. janúar 1945, Svanhildur, f. 5. september 1958, og Edda Björg, 25. júní 1960.
Ingibjörg var gift Jóni Ævari Þorgeirssyni. Börn þeirra eru: Íris Lind, maki Bjarki Þór Atlason, börn þeirra eru: Jón Ævar, Jóel Gauti og Bried Edel. Rakel Ósk og María Lea, dóttir hennar er Amelía Líf.
Ingibjörg ól sinn aldur í Reykjavík og starfaði sem hjúkrunarfræðingur og síðar sem geðhjúkrunarfræðingur í Reykjavík alla sína starfsævi. Síðustu árin átti hún við erfið veikindi að stríða.
Útför Ingibjargar fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 11. júlí 2013, kl. 15.
Í dag er elskuleg stjúpmóðir mín Ingibjörg Hákonardóttir borin til grafar.
Ég kynntist Ingibjörgu Hákonardóttur eða Imbu eins og hún var alltaf kölluð þegar ég var 12 ára gömul en þá giftist hún föður mínum Ævari Þorgeirssyni. Hún var mjög fíngerð og nett kona, næstum eins og postulínsbrúða sem var bæði falleg og einnig brothætt.
Imba tók mér strax mjög vel og gerði allt sem hún gat til að ég fengi að upplifa mig sem eina af dætrum hennar. Imba var mjög listhneigð og bar heimili hennar merki þess með fallegum málverkum og antikhúsgögnum.
Ég var svo heppin að þau Imba og pabbi bjuggu nálægt heimili mínu þar sem ég ólst upp hjá móður minni oggat ég því gengið til þeirra og umgengist þau ásamt yngri systrum mínum og var ég þar alltaf velkomin. Þær voru ófáar stundirnar sem ég og Imba sátum og spjölluðum en hún var mér eins og vinkona á mínum yngri árum og sýndi hún mér og því sem ég var að gera mikinn áhuga hvort sem það var í mínum einkamálum eða öðru.
Síðustu ár hef ég ekki verið í miklu sambandi, en Imba átti við veikindi að stríða sem ég gat því miður ekki stutt hana í.
Ég á góðar minningar um góða konu.
Hvíl í friði, elsku Imba, og ég veit að allar þjáningar eru á bak og burt.
Elsku pabba, Írisi, Bjarka, Rakel, Maríu, systkinum Imbu og öðrum aðstandendum vil ég votta mína dýpstu samúð.
Undir háu hamrabelti
höfði drúpir lítil rós.
Þráir lífsins vængja víddir
vorsins yl og sólarljós.
Ég held ég skynji hug þinn allan
hjartasláttinn rósin mín.
Er kristallstærir daggardropar
drúpa milt á blöðin þín.
Æsku minnar leiðir lágu
lengi vel um þennan stað,
krjúpa niður kyssa blómið
hversu dýrðlegt fannst mér það.
Finna hjá þér ást og unað
yndislega rósin mín.
Eitt er það sem aldrei gleymist,
aldrei, það er minning þín.
(Guðmundur G. Halldórsson.)
Guðný Ævarsdóttir.
Ævin er stutt
en lífið er langt.
Ævin er aðeins meðganga
sem fylgir samdráttur
og oft harðar fæðingarhríðir
inn til lífsins ljóma,
þeirrar dýrðar
sem koma skal
og engan endi mun taka.
Ævin er stundleg og stutt,
en lífið,
tímalaus eilífð.
(Sigurbjörn Þorkelsson)
Takk fyrir samfylgdina hér á jörð elsku systir. Við hittumst aftur heima í eilífðinni.
Svanhildur (Svana) og Edda.