Margar áminningar, enn fleiri hótanir og loks utanstefnur sýna voðann í hnotskurn

Nokkuð var fjallað um það í fréttum nýlega að eftirlitsstofnunin ESA hefur gefið út „rökstutt álit til Íslands vegna tafa á innleiðingu reglugerðar nr. 284/2011. Reglugerðin varðar aðferðir vegna innflutnings á eldhúsáhöldum frá Kína og Hong Kong sem innihalda pólýamíð og melamín. Rökstudda álitið telst lokaaðvörun til Íslands.“

Fréttastofa Ríkisútvarpsins var áhugasöm um þetta mikilvæga mál og sagði svo frá: „Fyrrverandi atvinnuvegaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) segir að bæði sé við ríkisstjórn og stjórnarandstöðu að sakast að ekki hafi verið innleidd reglugerð um matvæli. Íslendingar hafa fengið lokaaðvörun frá eftirlitsstofnun EFTA um málið og eiga á hættu að verða dregnir fyrir dóm. ESA, eftirlitsstofnun EFTA, hefur veitt Íslendingum lokaaðvörun þar sem stjórnvöld hafa látið hjá líða í 2 ár að innleiða reglugerð um eftirlit með eldhúsáhöldum frá Hong Kong og Kína sem innihalda pólýamíð og melamín. Verði ekki brugðist við eigi Íslendingar á hættu að verða dregnir fyrir dóm.

Þá segir ESA að opinberu eftirliti með hlutum eða efnum sem komast í snertingu við matvæli sé ýmist ábótavant eða því ekki sinnt. Fréttastofa hefur árangurslaust reynt að ná tali af atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra í dag og í gær.

Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi atvinnuvegaráðherra, lagði fram frumvarp í lok febrúar síðastliðnum sem ætlað var auðvelda reglugerðarinnleiðinguna. „Það er alveg ljóst, og það er rétt að við þurfum að taka okkur á í framkvæmdinni hvað þetta varðar. Ráðuneytið vann og lagði fram frumvarp, að vísu seint, í vetur og það náði því miður ekki afgreiðslu á Alþingi,“ segir Steingrímur. Inntur eftir því af hverju ekki hefði verið gengið fyrr í málið segir Steingrímur ástæðuna liggja í álagi á innleiðingarstofnunum. „Það er búið að vera gríðarleg vinna og mikið álag á þeim fámennu og illa fjármögnuðu stofnunum sem standa að því að innleiða alla þessa flóknu löggjöf,“ segir Steingrímur.

Þessi frétt segir einkennilega sögu. Ef ljóst þykir að verið sé að flytja inn og selja skaðlegar vörur eru til fljótvirkari leiðir til að bregðast við því en að baksast við að innleiða aðsenda reglugerð. Fyrir inngöngu í EES sáu Íslendingar um slík atriði sjálfir. Inngangan í efnahagssvæðið kemur ekki í veg fyrir það að innlend yfirvöld geti tryggt slík atriði sjálf.

En hitt er ekki síður athyglisvert, sem haft er eftir Steingrími J. Sigfússyni, sem dugði ekki tvö ár til að innleiða hina merku tilskipun. Ríkisútvarpið hefur eftir honum að ástæðan liggi í „álagi á innleiðingarstofnunum“.

Nú er svo sem ekki ljóst hvað gamli fjölræðisráðherrann á við með „innleiðingarstofnunum“.En hann sagði einnig: „Það er búið að vera gríðarleg vinna og mikið álag á þeim fámennu og illa fjármögnuðu stofnunum sem standa að því að innleiða alla þessa flóknu löggjöf.“

Nú verða menn að vona að starfsmenn hinna aðþrengdu og blönku stofnana hafi ekki þjáðst af næringarskorti eins og ráðherrann fyrrverandi hefur upplýst að gilti um hann, er hann vann miklu meira en allir aðrir menn á síðasta kjörtímabili. En að því slepptu þá verður ekki hjá því komist að rifja upp að stjórnvöld á því dökka skeiði harðneituðu því að þá ætti sér stað nokkur aðlögun vegna umsóknar um aðild að ESB, eins og stækkunarstjórinn og hans menn fullyrtu að væri. En hvers vegna var þá allt hið yfirþyrmandi álag við að „innleiða alla þessa flóknu löggjöf?“

Svo mikið var álagið að þótt Steingrímur ynni matarlaus 10 sinnum meira en meðal Íslendingurinn tókst ekki í tvö ár að innleiða tilskipun nr. 284 varðandi aðferðir vegna innflutnings á eldhúsáhöldum frá Kína.

Vonandi heldur enginn að hér sé verið að gera úlfalda úr mýflugu, en til ýtrasta öryggis skal áréttað að fréttastofa „RÚV“ segir að vegna þess hvernig komið sé fyrir reglugerðinni nr. 284 „eigi Íslendingar á hættu að verða dregnir fyrir dóm“.Verði þjóðin dregin þangað í stafrófsröð fer best á að brúka hana öfuga að þessu sinni svo að Össur, fyrrverandi utanríkisráðherra, verði einna fyrstur í drættinum. Það fer best á því.