Bjartsýnn Fyrirliðinn Eiður Aron Sigurbjörnsson skallar að marki HB í fyrri leik Eyjamanna gegn færeyska liðinu sem endaði með jafntefli, 1:1. Miðvörðurinn ungi er á því að ÍBV sé betra lið og óttast ekki gervigrasið í Færeyjum.
Bjartsýnn Fyrirliðinn Eiður Aron Sigurbjörnsson skallar að marki HB í fyrri leik Eyjamanna gegn færeyska liðinu sem endaði með jafntefli, 1:1. Miðvörðurinn ungi er á því að ÍBV sé betra lið og óttast ekki gervigrasið í Færeyjum. — Ljósmynd/Sigfús Gunnar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Tómas Þór Þórðarson tomas@mbl.is „Úrslitin í fyrri leiknum voru klárlega svekkjandi. Við áttum að vera búnir að klára þetta áður en HB jafnar. Seinni leikurinn leggst bara vel í okkur.

Fótbolti

Tómas Þór Þórðarson

tomas@mbl.is „Úrslitin í fyrri leiknum voru klárlega svekkjandi. Við áttum að vera búnir að klára þetta áður en HB jafnar. Seinni leikurinn leggst bara vel í okkur. Við yfirspiluðum þá mest allan leikinn og við eigum alveg að geta gert það aftur,“ segir Eiður Aron Sigurbjörnsson, fyrirliði ÍBV, við Morgunblaðið um HB frá Þórshöfn sem Eyjamenn mæta í seinni leik liðanna í 1. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í kvöld. Þrátt fyrir yfirburði ÍBV í fyrri leiknum sluppu Færeyingarnir með flott úrslit, 1:1, frá Vestmannaeyjum og þurfa Eyjamenn að skora í seinni leiknum til að komast áfram.

Það sama gildir um KR-inga sem mæta Glentoran frá Norður-Írlandi í kvöld en fyrri leik liðanna lyktaði með markalausu jafntefli. Blikar eru aftur á móti sama og komnir áfram eftir 4:0-stórsigur á ansi döpru liði FC Santa Coloma frá Andorra.

Gervigrasumræðan þreytt

Eiður Aron er afar brattur fyrir seinni leikinn gegn HB. „Ef maður miðar við síðasta leik erum við töluvert betra lið,“ segir hann. „Þeir áttu kannski eitt skot eða skalla á markið. Menn áttuðu sig bara ekki á því og þá kom smá stress í menn. Við áttum samt að vera búnir að klára þá. Ég sé samt ekki af hverju við ættum ekki að geta farið út og unnið þennan leik. Við þurfum að skora en ég býst við að við gerum það,“ segir Eiður Aron.

HB er með algjöra yfirburði í Færeyjum þessa leiktíðina. Liðið er í efsta sæti með sjö stiga forystu á næsta lið og hefur ekki tapað á heimavelli. Eiður Aron óttast ekki gervigrasið á Gundadals-velli þar sem Færeyingunum líður hvað best.

„Mér finnst umræðan um gervigras orðin þreytt. Það æfa öll lið á þessu hér heima stærsta hluta ársins. Við erum sjálfir komnir með höll og æfum í henni frá desemeber til byrjun maí. Við getum alveg unnið þarna og það væri virkilega gaman að komast áfram. Menn þurfa bara vera á tánum og með einbeitinguna í lagi. Þó við séum betra lið þurfum við að sýna það.“

Bretar geta spilað fótbolta

Kjartan Henry Finnbogason, framherji KR, beið á flugvellinum í Manchester eftir tengiflugi til Belfast þegar Morgunblaðið sló á hann í gær en KR-ingar mæta Glentoran frá Norður-Írlandi í kvöld. Liðin skildu jöfn, 0:0, í fyrri leiknum hér heima þar sem gestirnir höfðu engan áhuga á að spila fótbolta heldur töfðu bara leikinn og fögnuðu úrslitunum eins og heimsmeistarar.

„Síðasti leikur var ekki sá skemmtilegasti sem ég hef spilað. Ég tel okkur vera með betra lið þannig ég er búinn að bíða spenntur eftir þessum leik,“ segir Kjartan Henry, en hvað sá hann í leik Glentoran síðast þegar liðin mættust?

„Þeir reyndu nú ekki mikið en eru samt ágætlega vel spilandi og halda boltanum vel. Við megum ekki missa einbeitinguna því þá verður okkur refsað. Við vitum alveg að Bretar geta spilað fótbolta og þetta lið er með ágætis leikmenn innanborðs. Það er samt ekkert sem við hræðumst. Við bara höldum okkar leikáætlun.

Kallar eftir þolinmæði

Framherjinn var ekki ánægður með spilamennsku KR í fyrri leiknum. „Við vorum ekki að nýta þau færi sem við fengum og vorum óþolinmóðir. Nú erum við á útivelli og þeir á heimavelli. Glentoran þarf að skora og hlýtur að ætla gera eitthvað. Við breytum samt ekkert okkar leik. Við þurfum bara vera þolinmóðari því eitt mark dugar okkur áfram,“ segir Kjartan Henry Finnbogason.