<strong>Sérstakur</strong> Þessi hvalur er með ugga langreyðar og litarhaft steypireyðar. Sérfræðingur telur hugsanlegt að um sjaldgæfan blending sé að ræða.
Sérstakur Þessi hvalur er með ugga langreyðar og litarhaft steypireyðar. Sérfræðingur telur hugsanlegt að um sjaldgæfan blending sé að ræða. — Ljósmyndari/Marianne Helene Rasmussen
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Jón Heiðar Gunnarsson jonheidar@mbl.is „Þetta einkennilega dýr er hugsanlega blendingur tveggja stærstu dýra jarðar, steypireyðar og langreyðar,“ segir dr.

Fréttaskýring

Jón Heiðar Gunnarsson

jonheidar@mbl.is

„Þetta einkennilega dýr er hugsanlega blendingur tveggja stærstu dýra jarðar, steypireyðar og langreyðar,“ segir dr. Marianne Helene Rasmussen, líffræðingur og sérfræðingur í sjávarspendýrum, en hún er jafnframt forstöðumaður hvalarannsóknarstöðvar Háskóla Íslands á Húsavík.

Síðustu daga hefur sést til hvals í Skjálfandaflóa sem sker sig frá öðrum hvölum í útliti.

„Við erum ekki viss hvort dýrið sé langreyður eða steypireyður. Uggi dýrsins er svipaður og hjá langreyði en litur þess er í anda steypireyðar,“ segir Marianne.

Hún segir slíka blendinga vera afar fágæta í heiminum og að eingöngu séu til örfá staðfest tilvik um tilveru slíkra hvala.

„Til að hægt sé að staðfesta grun okkar verðum við að taka húðsýni af dýrinu og greina erfðamengi þess,“ segir Marianne.

Auðvelt er að verða sér úti um slíkt húðsýni að hennar mati þrátt fyrir að steypireyður sé alfriðuð hvalategund.

„Lásbogi eða sérútbúin loftbyssa er notuð til verksins en með þeim hætti má nálgast lítið sýnishorn af húð dýrsins með tiltölulega einföldum hætti.“

Starfsmaður frá Hafrannsóknastofnun ætlar að freista þess að ná húðsýni af dýrinu í dag.

Mistókst að ná húðsýni 2011

Marianne getur staðfest að meintur blendingur sást einnig í Skjálfandaflóa árið 2011 en þá tókst ekki að útvega húðsýni.

„Það er mjög auðvelt að þekkja þetta umrædda dýr þar sem það sker sig úr og er allt öðruvísi en hinar steypireyðarnar í flóanum,“ segir Marianne en þrjár aðrar steypireyðar eru í Skjálfandaflóa um þessar mundir.

„Hver og ein steypireyður er þekkjanleg af örum sínum þ.e. ef hún býr yfir þeim og einnig af sérstöku litamynstri á hlið hvalsins.“

Hvalarannsóknarsetrið á Húsavík hefur greint 105 mismunandi steypireyðar í Skjálfandaflóa frá árinu 2007 en þá hóf setrið formlega rannsóknarstarfsemi í umboði Háskóla Íslands.

„Það er ekki til sjálfvirkt gagnasafn til að bera kennsl á hvali og því verðum við að bera saman myndirnar sjálf og það getur verið mjög tímafrekt og mikil vinna. Oft þarf maður að taka margar myndir til að sjá allan skrokkinn á dýrinu og svo þarf að bera myndirnar saman við gagnasafnið okkar.“

Óvissa um ástæður blöndunar

„Ein kenning er sú að steypireyðar eigi einfaldlega erfitt með að finna sér maka og leiti þá til langreyða í staðinn,“ segir Gísli Víkingsson, hvalasérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, en steypireyðar eru frekar sjaldgæfar hér við land á meðan langreyðar eru mjög algengar.

Hann telur að það séu um 1.000 steypireyðar í stofninum við Ísland á meðan langreyðar eru um 20-25.000. Hann bendir jafnframt á að mikil óvissa sé til staðar varðandi orsakir á slíkri kynblöndun enda hefur fyrirbærið lítið verið rannsakað.

„Það eru margar ástæður sem geta spilað inn í þetta og ekkert hægt að segja um ástæður með vísindalegri vissu enn sem komið er.“

FJÖGUR STAÐFEST TILVIK BLENDINGA VIÐ ÍSLANDSSTRENDUR

Reyna að ná húðsýni í dag

„Starfsmaður er á leiðinni til Húsavíkur og ætlar að reyna að ná húðsýni af dýrinu á morgun [í dag],“ segir Gísli Víkingsson, hvalasérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun.

„Við höfum fjórum sinnum áður getað staðfest tilveru slíkra blendinga við strendur Íslands en slík dýr eru mjög sjaldgæf,“ segir Gísli en hann var hluti af vísindateymi sem sannaði fyrst allra að blöndun tveggja hvaltegunda gat átt sér stað úti í náttúrunni.

Slíkur blendingur veiddist við Íslandsstrendur árið 1986 og varð í kjölfarið heimsfrægur innan vísindaheimsins sem fyrsti blendingur tveggja stærstu dýra jarðar.

FURÐUSÖGUR SJÓMANNA UM EINKENNILEGA HVALABASTARÐA

Hvalur 8 veiddi hvalablending

Aðfaranótt 19. júní árið 1986 veiddi hvalveiðibáturinn Hvalur 8 einkennilega hvalkú. Vísindamenn staðfestu fjórum árum síðar að kýrin var samblanda af langreyði og steypireyði. Við rannsókn á legi kýrinnar kom í ljós að hún var með fóstri og að þetta var önnur meðganga hennar.

Þetta var fyrsta vísindalega sönnun þess að blöndun tveggja hvalategunda gat átt sér stað úti í náttúrunni og að afkvæmi slíkrar blöndunar sé frjótt.

Nokkrar heimildir eru til um sjómenn sem telja sig hafa séð undarlega hvali í gegnum tíðina, svokallaða bastarða. Ein slík skjalfest heimild er um 100 ára gömul frá Noregi og önnur rússnesk frá árinu 1965 um undarlegan blendingshval í Norður-Kyrrahafi. Sagnir um slíka furðuhvali eru einnig til á meðal íslenskra hvalveiðimanna.