• Frosti Ólafsson er nýr framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands • Verkefni ráðsins snúa fyrst og fremst að eflingu íslensks viðskiptaumhverfis • Mikilvægt að skapa ramma í ríkisfjármálum sem tryggir stöðugleika • Margar skattkerfisbreytingar hafa orðið til að auka flækjustigið • Lækkun tryggingagjalds forgangsmál • Tækifæri fólgin í aðkomu einkaaðila að rekstri skóla • Sameining Samtaka Atvinnulífsins og Viðskiptaráðs hefur bæði jákvæðar og neikvæðar afleiðingar í för með sér • Mikill meðbyr með sjónarmiðum ráðsins að verðmætasköpun sé forsenda bættra lífskjara
Viðtal
Kristinn Ingi Jónsson
kij@mbl.is
Þrátt fyrir ungan aldur hefur Frosti Ólafsson komið víða við. Í byrjun júnímánaðar var hann ráðinn framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands en áður hafði hann starfað hjá alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækinu McKinsey & Company í Kaupmannahöfn í um tvö ár að loknu MBA-námi frá London Business School. Frosti hefur áður starfað hjá Viðskiptaráði, fyrst sem hagfræðingur og síðar sem aðstoðarframkvæmdastjóri. „Umhverfið er mér ekki ókunnugt og mikið af starfsfólki ráðsins vann með mér fyrir nokkrum árum. Stjórnin er að sama skapi kunnugleg, en í henni sitja margir sem ég hef unnið með bæði á þessum vettvangi sem og í öðrum verkefnum. Fyrstu skrefin hafa því verið þægileg og hefur verið tiltölulega auðvelt að koma mér inn í starfið og umhverfið,“ segir Frosti aðspurður hvernig fyrstu dagarnir í nýja starfinu hafi gengið.
Tækifæri til að hafa jákvæð áhrif
– Hvað er Viðskiptaráð og hvaða hlutverki gegnir það?„Viðskiptaráð er, eins og það er skilgreint, heildarsamtök atvinnurekenda. Verkefni ráðsins snúa fyrst og fremst að eflingu viðskiptaumhverfis á Íslandi og stuðningi við efnahagslegar umbætur með það að markmiði að efla lífskjör. Þessu verkefni er sinnt með ýmsu móti, svo sem með málefnastarfi, þar sem við komum sjónarmiðum atvinnulífsins varðandi efnahagsmál á framfæri, með stuðningi við menntun í gegnum sjálfseignarstofnun ráðsins, sem rekur Háskólann í Reykjavík og Verzlunarskóla Íslands, með alþjóðlegu samstarfi, sem fer að miklu leyti fram í gegnum millilandaráð, og með því að virkja uppbyggilegt samtal á milli atvinnulífsins og stjórnvalda.“
Frosti segir margt við verkefnið hafa heillað. „Þetta er tækifæri til þess að stuðla að bættum lífskjörum og hafa jákvæð áhrif á lífsskilyrði hér heima.“ Hann bætir því við að nýja starfið myndi tengipunkt við þá vinnu sem hann hafði sinnt hjá McKinsey, en þau sneru meðal annars að stefnumótun í efnahagsmálum. „Svo eru einnig persónulegar ástæður. Ég á fjölskyldu, vini og vandamenn og mig langaði til að koma heim og vera hér til lengri tíma,“ segir Frosti.
Enn mikið verk fyrir höndum
Það liggur beinast við að spyrja Frosta hvernig honum hefur fundist takast til við endurreisn hagkerfisins, nú bráðum fimm árum eftir fall bankanna. „Ég myndi segja, í ljósi þess hve stór áskorunin var í upphafi, að það hafi gengið vel að ná jafnvægi og stöðugleika í efnahagslífinu og hemja þann bráðavanda sem steðjaði að hagkerfinu. Það má merkja jákvæða þróun á ýmsum hagvísum, verðbólga hefur hjaðnað umtalsvert og atvinnuleysi hefur dregist saman, þó að sú þróun hefði mátt vera drifin af fjölgun starfa í auknum mæli.“Að sögn Frosta er enn mikið verk fyrir höndum. „Við þurfum að nálgast ríkisfjármálin á markvissari og skipulagðari hátt en gert hefur verið. Hingað til hefur þetta snúið mikið að flötum niðurskurði án þess að horft hafi verið til sértækra málaflokka eða aðgerða til að auka framleiðni í opinbera geiranum. Sú stefna er komin á endastöð.“ Telur hann brýnt að horfa í frekari mæli til afmarkaðri útgjaldaflokka, eðli þeirra og möguleika til hagræðingar án verulegra neikvæðra áhrifa á samfélagið og vaxtartækifæri hagkerfisins.
Grunnmarkmiðin þau sömu
– Hverjar eru helstu áskoranir íslensks efnahagslífs í dag?„Ég held að það sé alveg óhætt að segja að það eigi eftir að vinna á ýmsum rótarmeinum. Þar ber helst að nefna erfið skilyrði til fjárfestinga, áðurnefnda stöðu ríkissjóðs, sem er á mörkum þess að geta talist sjálfbær í núverandi mynd, flókið tolla- og skattaumhverfi og gjaldeyrishöftin, sem skapa viðamikil vandamál á fjármagnsmörkuðum.“
Frosti segir hins vegar tækifærin mörg en til að hægt sé að nýta þau sé mikilvægt að nálgast hlutina á opinskáan og uppbyggilegan hátt. „Ég er á þeirri skoðun að við séum sammála um fleira heldur en almenn umræða gefur tilefni til að ætla. Það eru sterkar forsendur fyrir því að ná breiðri samstöðu um ákveðna grunnmynd í efnahagsmálum. Við viljum tryggja aukinn aga í opinberum fjármálum og tryggja þannig styrk ríkissjóðs til framtíðar sem myndar grunn fyrir öfluga velferðarþjónustu og góð rekstrarskilyrði. Við viljum hafa nothæfa mynt, þ.e. gjaldmiðil sem nota má á alþjóðlegum grunni, og við viljum opið samfélag með aðgengi að erlendum mörkuðum.“ Er það mat Frosta að grunnmarkmið allra flokka séu að einhverju leyti þau sömu, að efla lífsskilyrði á Íslandi og skapa grundvöll fyrir verðmætasköpun, en eðlilega sé ágreiningur um heppilegustu leiðirnar að því marki og hversu mikla áherslu skuli leggja á endurdreifingu verðmæta samanborið við sköpun verðmæta.
Skapa ramma í ríkisfjármálum
Gjaldmiðlamálin hafa verið í brennidepli undanfarin ár og eru mjög skiptar skoðanir, til að mynda á meðal stjórnmálaflokka, um hvað eigi til bragðs að taka. Frosti bendir hins vegar á að þarna sé stórt tækifæri fyrir stjórnmálaflokka að sammælast um fyrstu skref óháð því hver langtímamarkmið flokkanna séu í málaflokknum. „Þau skref felast í því að skapa ramma í ríkisfjármálum sem tryggir stöðugleika í kerfinu og að styrkja umgjörð peningamála. Að sama skapi þarf umgjörð vinnumarkaðar, bæði hvað varðar almennan vinnumarkað og opinberan, að styðja við þennan þjóðhagsramma sem skapar þær forsendur sem þarf til að gjaldmiðill virki óháð því hvaða nafni hann kallast.“Segir Frosti þessi skilyrði vera í takt við Maastricht-skilyrðin sem nauðsynlegt er að uppfylla til að taka upp evru. „Með þessum aðgerðum er hægt að efla krónuna í núverandi mynd, styrkja forsendur fyrir afnámi hafta og aukinni verðmætasköpun. Hvað menn gera í framhaldinu hefur jafn mikið með stjórnmál og hagfræði að gera.“
– Er Viðskiptaráð á þeirri skoðun að hagsmunum Íslands sé betur borgið innan Evrópusambandsins?
„Viðskiptaráð sem heildarsamtök í atvinnurekstri hefur félaga innan sinna raða sem hafa ólíkar skoðanir á þessu máli. Hvað varðar inngöngu í sambandið þá hefur ráðið ályktað að aðildarviðræður ætti að klára. Þar hefur sýn manna verið sú að ákvörðun um hvort styðja bæri við endanlega aðild Íslands að ESB velti á niðurstöðu þessara samninga og þar er, eins og kemur lítið á óvart, fyrst og fremst horft til niðurstöðu hvað varðar sjávarútveginn, okkar sterkustu atvinnugreinar.“
Gjaldeyrishöftin eitt af rótarmeinunum
Eins og áður hefur komið fram telur Frosti gjaldeyrishöftin vera eitt af rótarmeinum íslensks efnahagslífs. „Fjárfestingarumhverfið á Íslandi var flókið og erfitt fyrir tilkomu haftanna. Lítilli mynt fylgja miklar flækjur og áhætta, og verður líklega ekki komist hjá þeim vandamálum öðruvísi en að taka upp aðra mynt. Að búa við gjaldeyrishöft í ofanálag við smámynt er augljóslega mikil hindrun í vegi fyrir erlendri fjárfestingu.“ Er það trú Frosta að höftin skapi miklar skekkjur á fjármálamarkaði og óheilbrigt umhverfi til lengri tíma litið.Spurður um ferlið tengt afnámi hafta segir Frosti menn standa á ákveðnum krossgötum. „Það felast tækifæri í því að nýta samninga við erlenda kröfuhafa til að útfæra lausn sem getur skapað forsendur til afnáms hafta.“ Vill hann að stjórnvöld horfi á þessar tvær aðgerðir sem samtvinnað verkefni og að útfærsla samninga taki mið af því hvernig létta megi á snjóhengjunni og efla gjaldeyrisvarasjóð Seðlabankans. „Í grunninn eru þau tækifæri sem við höfum til að efla verðmætasköpun nægjanleg til þess að skapa langtímaforsendur fyrir afnámi hafta,“ bætir hann við.
Viðskiptalífið hefur ekki farið varhluta af öllum þeim skattkerfisbreytingum sem gerðar hafa verið undanfarin ár. „Staða ríkissjóðs hefur verið erfið þannig að atvinnulífið, líkt og hið opinbera og heimilin í landinu, hefur þurft að leggja lóð sín á vogarskálarnir í því augnamiði að brúa fjárlagahallann. Aftur á móti hefur vandamál skattastefnunnar falist í því að markmiðið hefur ekki snúið í nægjanlega ríkum mæli að kjarnamarkmiðinu um auknar tekjur. Margar breytingar hafa því orðið til þess að auka flækjustigið verulega, án verulegs tekjuauka.“
Sem dæmi nefnir Frosti að gjaldahækkanir hafi verið nýttar í ríkum mæli án þess að horft hafi verið til heildaráhrifa þeirra á hagkerfið. „Það er skilningur og vilji af hálfu allra aðila að takast á við þær áskoranir sem til staðar eru. Það verður best gert með einföldum og markvissum skattkerfisbreytingum en ekki þeim flóknu og viðamiklu breytingum sem hafa átt sér stað.“
Meðal skattkerfisbreytinga sem eru líklegar til að styðja við aukinn hagvöxt nefnir hann sérstaklega þau tækifæri sem felist í lækkun tryggingagjalds, sem lagst hefur með talsverðum þunga á fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum. „Það er skattur sem hefur bein áhrif á getu fyrirtækja til að ráða í störf og leggjast í arðbærar fjárfestingar.“
Stytting náms hagkvæmur kostur
Viðskiptaráð hefur lagt sitt af mörkum við uppbyggingu menntakerfisins en eins og áður kom fram er ráðið bakhjarl tveggja öflugra skóla, Háskólans í Reykjavík og Verzlunarskólans. Það er mat Frosta að stærstu áskoranirnar í menntamálum snúi að háskólakerfinu. „Fjármagn á nemanda í háskólakerfinu er gríðarlega lágt í alþjóðlegum samanburði og ef við snúum þeirri þróun ekki við munum við vega verulega að vaxtartækifærum til lengri tíma.“Segir Frosti Viðskiptaráð vera fylgjandi því að skoða hvort mögulegt sé að fækka námsárum á grunn- og menntaskólastigi. „Hvort sem horft er til menntaskóla eða háskóla, þá útskrifast Íslendingar seint í alþjóðlegum samanburði. Auðvitað er það fagnaðarefni að fólk, sem hefur flosnað úr námi, snúi aftur til náms og bæti við sig menntun, sem er hluti af skýringunni. Staðreyndin er engu að síður sú að menntaskóli hér á landi er fjögur ár samanborið við þrjú ár í velflestum löndum og grunnskólanám lengra en almennt gengur og gerist. Ég er bjartsýnn á að stytting náms geti verið hagkvæmur kostur og með betri nýtingu fjármuna vonandi dregið úr brottfalli nemenda og stuðlað að auknu svigrúmi til fjárfestingar í háskólanámi.“ Frosti tekur þar með undir orð framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins sem sagði nýlega í viðtali við Viðskiptablað Morgunblaðsins verulegan ávinning fást af því að stytta nám að háskólastigi.
Spurður um hvort heppilegt væri að innleiða samkeppni, til dæmis með aðkomu einkaaðila að rekstri skóla, segist Frosti sjá fjölmörg tækifæri fólgin í því. „Það hefur myndast ákveðið neikvætt viðhorf gagnvart aðkomu einkaaðila að þáttum eins og menntakerfi og heilbrigðisþjónustu. Það þarf hins vegar ekki að ganga lengra en svo að þjónustan sé fjármögnuð af hinu opinbera en rekin af einkaaðilum. Þar höfum við séð mjög góðan árangur t.d. í heilsugæslu og öldrunarþjónustu og með rekstri Háskólans í Reykjavík. Þarna eru mikil tækifæri.“
Meðbyr með sjónarmiðum ráðsins
Fyrr á árinu var rætt um hugsanlega sameiningu Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs. Frosti segir að hagsmunasamtök atvinnulífsins eigi að horfa á hlutina með sama hætti og fyrirtæki eða opinberar stofnanir, þ.e. að leita leiða til að nýta fjármunina með sem bestum hætti. „Það er alveg ljóst að slík sameining hefði bæði jákvæða kosti í för með sér sem og ákveðna neikvæða þætti. Í þessu samhengi eru það á endanum stjórnir samtakanna sem taka ákvörðun um hvaða fyrirkomulag skilar bestum árangri.“Eftir bankahrunið bar á gagnrýni á Viðskiptaráð fyrir aðgerðir eða, eftir tilvikum, aðgerðaleysi ráðsins á árunum fyrir hrun. Frosti segir að farið hafi verið í naflaskoðun í kjölfar hrunsins þar sem ráðið skoðaði vel hvað hefði mátt nálgast með öðrum hætti og hvernig ráðið gæti stuðlað að aukinni ábyrgð í framhaldinu. „Ráðið hefur aukið við hlutverk sitt við upplýsingamiðlun, stuðlað að traustum stjórnarháttum fyrirtækja og auknu gagnsæi í rekstri, til að mynda með skilum á ársreikningum og öðrum slíkum þáttum. Þetta er allt saman liður í því að styðja við og styrkja trúverðugleika atvinnulífsins sem og hagsmunasamtaka líkt og Viðskiptaráð er. Á endanum ávinnur ráðið sér fyrst og fremst traust með markvissri þátttöku í eflingu viðskiptaumhverfisins á réttum forsendum og með skynsamlegri nálgun og aðferðafræði.“
– Finnur þú meðbyr með sjónarmiðum ráðsins?
„Já, ég tel að það sé mikill meðbyr með þeim grundvallarsjónarmiðum ráðsins að verðmætasköpun sé forsenda bættra lífskjara til lengri tíma. Það er mikilvægt að atvinnulífið eflist og þrífist vel og tel ég að áherslur ráðsins í þá veru séu í takt við það sem breiður hluti landsmanna styður.“
– Ertu bjartsýnn á að við komumst aftur á beinu brautina?
„Ég er þokkalega bjartsýnn en vonast til að geta orðið enn bjartsýnni. Ég hlakka til að sjá nálgun nýrra stjórnvalda í mikilvægum málaflokkum. Þar ber helst að nefna ríkisfjármálin og aðgerðir til afnáms hafta og bættra skilyrða til fjárfestinga. Að sama skapi verður fróðlegt að sjá langtímastefnu þeirra í menntamálum og leiðir til að efla alþjóðlega starfsemi. Ef vel tekst til í þessum málum, þá tel ég að tækifæri Íslands til framtíðar séu ríkari en í flestum öðrum þróuðum ríkjum.“
SKÝRSLAN DREGUR FRAM HAGVAXTARMÖGULEIKA ÍSLANDS TIL FRAMTÍÐAR
Skýrsla McKinsey góð og gagnleg fyrir atvinnulífið og stjórnvöld
Frosti tók þátt í gerð skýrslu McKinsey um Ísland og hagvaxtarmöguleika þess sem kynnt var í októbermánuði síðastliðnum. Úttekt McKinsey er í grófum dráttum þrískipt. Í fyrsta lagi er farið ítarlega yfir helstu áskoranir íslensks efnahagslífs. Í öðru lagi eru drifkraftar hagkerfisins skoðaðir og að lokum eru helstu tækifæri Íslands til aukins hagvaxtar dregin saman.– Hvað kom til að ákveðið var að gera þessa úttekt?
„Fyrirtækið ver bæði tíma og fjármunum í ýmis verkefni af þessu tagi. Það er liður í stefnu þess að styðja við þekkingarsköpun og innan þess ramma eru meðal annars skýrslur um stöðu efnahagsmála og samkeppnishæfni hagkerfa. Skýrslur líkt og sú sem var gefin út hér á landi hafa áður verið unnar fyrir til að mynda Svíþjóð, Danmörku og Finnland. Markmið fyrirtækisins er fyrst og fremst að koma með nýtt innlegg í umræðuna og sína sýn á möguleika til úrbóta. Frosti segir vinnuna hafa staðið í um hálft ár. „Það var byrjað á því að hitta stóran hóp af hagsmunaaðilum hér heima til að fá eins djúpa innsýn í stöðu mála og hægt var. Í kjölfarið var gerð upphafsgreining á stöðunni í þjóðhagslegu samhengi. Síðan voru þær niðurstöður kynntar til að fá frekari athugasemdir og álit. Í kjölfarið var áherslan færð meira yfir á sértækar atvinnugreinar. Að lokum voru haldnir fundir með hagsmunaaðilum á haustmánuðum og skýrslan að lokum kynnt í október.“
Heildræn mynd af stöðunni
Að mati Frosta hefur skýrslan nýst vel sem ný nálgun á efnahagsmálin. Hún einblíni á framleiðsluhliðina og dragi fram nýjar upplýsingar er varða stöðu Íslands í alþjóðlegu samhengi og í samanburði við nágrannaríkin. „Ég held að bæði stjórnvöldum og atvinnulífinu hafi þótt gott og gagnlegt að fá heildræna mynd af stöðunni eins og hún er. Ég tel að skýrslan hafi dregið ágætlega fram þá möguleika sem Ísland hefur til þess að efla verðmætasköpun og bæta hér lífskjör. Að sjálfsögðu eru skýrslur um efnahagsmál aldrei þannig að þær svari öllum þeim spurningum sem brenna á stjórnmálunum eða atvinnulífinu, en ég tel að ágætlega hafi tekist til við að teikna upp heildarmyndina og gefa hugmyndir um hvar stærstu tækifærin liggja.“
Nálgun samráðsvettvangsins góð
Í byrjun ársins var settur á fót þverpólitískur samráðsvettvangur um aukna hagsæld. Tilurð hans má rekja til óformlegra viðræðna á meðal stjórnmálaleiðtoga um hvernig best mætti koma slíkum umræðuvettvangi á fót á grundvelli m.a. skýrslu McKinsey. Frosti segir að honum lítist vel á efnisvinnu vettvangsins en hann er einkum ánægður með nálgunina, þ.e. að móta efnahagsstefnu með heildstæðum hætti. „Það er byrjað á því að skilgreina markmið, hagkerfinu er svo skipt í mismunandi geira og möguleikarnir til úrbóta innan hvers og eins geira eru að lokum metnir. Þetta er eitthvað sem ég vona að stjórnvöld komi til með að nýta í sinni vinnu á kjörtímabilinu, þ.e. að horfa á hlutina með heildstæðum hætti og móta áætlun sem byggist á kerfinu í heild fremur en að stefnumótun eigi sér í of miklum mæli stað innan einstakra ráðuneyta eða stofnana án breiðari samræmingar.“NAUÐSYNLEGT AÐ BREIKKA ÞANN GRUNN ÚTFLUTNINSGREINA SEM TIL STAÐAR ER
Kvótakerfið er lykillinn að aukinni verðmætasköpun í sjávarútvegi
Í skýrslu McKinsey kemur fram að ekkert ríki skapi jafn mikil hlutfallsleg verðmæti í sjávarútvegi og Íslendingar. Frosti segir það óumdeilanlegt að það fiskveiðistjórnunarkerfi, sem tekið var upp á sínum tíma, hafi verið lykill að aukinni verðmætasköpun greinarinnar. „Kerfið er sterkt út frá líffræðilegum sjónarhóli, tryggir viðgang stofna og sjálfbærni veiða, og er að sama skapi sterkt út frá efnahagslegum forsendum, með jákvæðum hvötum til aukinnar skilvirkni í rekstri og arðbærra fjárfestinga.“ Frosti bendir á að sá arður sem hafi myndast í greininni, sem almennt ætti að vera fagnaðarefni, hafi valdið því að sjávarútvegurinn sé pólitískt bitbein. Það sé því vandasamt verkefni að skapa ríka sátt um fyrirkomulag greinarinnar án þess að vega að skilvirkni kerfisins, sérstaklega á tímum sem þessum.Frosti bætir því við að vegna þeirrar staðreyndar að hér séu náttúruauðlindir sem geti skapað verðmæti hafi stjórnmálaumræðan í of ríkum mæli snúist um auðlindagreinarnar. „Það er mitt mat að auðlindagreinarnar séu okkar helsti styrkleiki en á sama tíma hafa þær dregið athyglina í of miklum mæli frá öðrum greinum sem koma til með að stuðla að frekari vexti og fjölbreytni hagkerfisins.“
Verði ekki jafn háðar auðlindunum
Hann tekur fram að auðlindagreinarnar myndi mikilvægar burðarsúlur fyrir hagkerfið. „Það verður að tryggja að svo verði áfram og að skilyrði til verðmætasköpunar innan þessara greina verði með besta móti. Aftur á móti, þegar við horfum 20 til 30 ár fram í tímann, þá er nauðsynlegt að breikka þann grunn útflutningsgreina sem við höfum til staðar í hagkerfinu. Þar er stór óplægður akur.“Frosti segir slík fyrirtæki geta sprottið upp út frá þeim greinum sem nú þegar eru sterkar, svo sem orkugeiranum og sjávarútveginum, en það sé mikilvægt að þær verði ekki jafn háðar auðlindunum. Rímar það við niðurstöður skýrslu McKinsey en í henni kemur fram að mikilvægt sé að huga að nýjum leiðum til að knýja hagvöxt til framtíðar.