Líney Sigurðardóttir
Þórshöfn
Höfnin er oft talin lífæð Þórshafnar með allri þeirri starfsemi sem þar fer fram. Lífið er þó ekki bara fiskur, heldur bæði matarlyst og list, því á hafnarsvæðinu er bæði að finna veitingahúsið Eyrina og nýtt handverksgallerí, sem fékk nafnið Gallerí Beita. Það var opnað um helgina í gamla Villahúsinu, sem í gegnum tíðina hefur gegnt hlutverki beitningahúss og veiðarfærageymslu smábátasjómanna og sú starfsemi er ennþá í hinum enda hússins. Húsið hefur nú fengið verðuga andlitslyftingu með tilkomu gallerísins en húsið er í eigu Ísfélagsins.
Handverkskonurnar Hrafngerður Ösp Elíasdóttir og Gréta Bergrún Jóhannesdóttir eiga hugmyndina að stofnun gallerísins og þar verður til sölu bæði þeirra eigið handverk og frá öðru hagleiksfólki. Ýmiss konar prjónles er á boðstólum og margt annað sem gleður augað. Í sumar verður opið hjá þeim alla daga vikunnar hluta úr deginum. Hrafngerður og Gréta voru ánægðar með þennan fyrsta opnunardag í Gallerí Beitu og gestafjöldann.