Það eru ekki allir á eitt sáttir með áform Seðlabanka Bandaríkjanna og fleiri ríkisstofnana þar í landi. Því fengum við að kynnast í vikunni. Tilkynnt var að átta stærstu bankar Bandaríkjanna, þar á meðal JPMorgan Chase, Citigroup og Goldman Sachs, þyrftu, ef tillaga stofnananna nær fram að ganga, að auka eigið fé sitt verulega þannig að það verði tvisvar sinnum meira en hjá flestum alþjóðlegum bankastofnunum. Yfirvöld vilja bæði setja auknar eiginfjárkröfur á bankana og hækka lágmarkskröfu um gírunarhlutfall þeirra.
Bankarnir hafa ekki tekið þessum fregnum fagnandi og bent á að reglurnar séu mun strangari en Basel III reglurnar. Samkvæmt Basel III reglunum verða bankar að hafa 3% gírunarhlutfall en bandarísk yfirvöld krefjast þess að hlutfallið hækki um þrjú prósentustig.
Of stórir til að hrynja?
Að sögn yfirvalda koma nýju eiginfjárkröfurnar til vegna þess að stærstu bankarnir eru „enn of stórir til að hrynja“. Bankarnir hafa hins vegar sagt að kröfurnar muni draga úr samkeppnishæfni þeirra gagnvart evrópskum bönkum. „Eigið fé banka í bandaríska fjármálageiranum hefur sjaldan verið jafn mikið. Álagspróf seðlabankans sýna fram á það með skýrum hætti að bankarnir okkar eru nægilega sterkir til að standast hvaða efnahagslegu kringumstæður sem er,“ sögðu hagsmunasamtök bankamanna í tilkynningu.Talsvert hefur verið fjallað um kröfur yfirvalda út um allan heim er varða eigið fé banka og áhættumöt í kjölfar hrunsins haustið 2008. Tveir fræðimenn hafa til að mynda lagt leið sína hingað til lands og látið í ljós álit sín. Andreas Krause, þýskur prófessor í tölvunarfræði, fann út með rannsóknum sínum að skilyrði um lágmarks eigið fé hefði óveruleg áhrif á smitáhættu í bankakerfinu. Lagði hann til, á WEHIA-ráðstefnunni í júní, að stjórnvöld sýndu bönkum ákveðið svigrúm og hefðu reglurnar breytilegar.