Verndun Kristinn segir opinber gjöld á sumar plöntur vera svo há að þau jafnist við gjöldin sem leggjast á áfengi.
Verndun Kristinn segir opinber gjöld á sumar plöntur vera svo há að þau jafnist við gjöldin sem leggjast á áfengi. — Morgunblaðið/Golli
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Kristinn Einarsson segir niðursveifluna í efnahagslífi þjóðarinnar hafa haft lítil áhrif garðvörusölu. Þvert á móti hafi salan haldið sér vel á heildina litið og ýmsir vöruflokkar rokið upp.

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Kristinn Einarsson segir niðursveifluna í efnahagslífi þjóðarinnar hafa haft lítil áhrif garðvörusölu. Þvert á móti hafi salan haldið sér vel á heildina litið og ýmsir vöruflokkar rokið upp.

Kristinn er framkvæmdastjóri verslanasviðs Húsasmiðjunnar og Blómavals.

„Með hruninu fór fólk að hugsa í nýjum gildum. Fólst viðhorfsbreytingin m.a í því að rækta meira og jókst áhuginn sérstaklega á ræktun matjurta og kryddjurta. Í takt við samdrátt í byggingargeiranum og að minna er um að nýir sumarbústaðir rísi hefur pallagerðin ögn dregist saman, en allt sem snýr að plöntum og garðræktun hefur bara aukist.“

Það eru helst dýru lúxusvörurnar sem seljast minna nú en í góðærinu og neytendur leita í milliverðflokka frekar en kaupa bara það allrabesta og allradýrasta: „Núna selst t.d. lítið af dýrustu heitu pottunum, þessum sem kosta um milljón og uppúr og voru vinsælir í góðærinu. Hins vegar er salan ágæt á pottum sem kosta í kringum hálfa milljón. Þetta eru þá einfaldari pottar sem fólk lætur sjálft byggja utan um.“

Ekki er þar með sagt að salan á vörum fyrir garðinn standi og falli með verðinu. Í sumum vöruflokkum er greinilegt að neytendur velja að fjárfesta í endingu og gæðum frekar en kaupa það allra ódýrasta. „Sala á t.d. Weber-grillunum hefur verið góð. Grillin kosta sitt en landsmenn virðast reiðubúnir að leggja út fyrir hágæðagrilli sem endist og mikið virði fæst fyrir krónurnar.“

Loks hafa ákveðnar vörur tekið mikinn kipp í sölu og vilja t.d. margir hafa leiktæki í garðinum. „Í dag er svo komið að má finna trampólín ínánast öðrum hverjum garði, og þá alveg sérstaklega þegar spáð hefur verið óveðri skömmu áður,“ segir Kristinn og hlær. „Áætla má að hér á landi seljist núna í kringum 500-600 trampolín á ári.“

Há gjöld á pottablómin

Eins og búast mátti við hafa Blómaval og Húsasmiðjan þurft að leggja sig fram við að halda verði niðri með öllum leiðum og ná fram hagstæðum samningum við birgja og framleiðendur. Opinber gjöld og innflutningshindranir hjálpa þá ekki til en Kristinn segir há gjöld leggjast á ýmsar garðvörur. Verslun með plöntur er að verulegum hluta háð innflutningskvótum og þarf að þola mjög háa tolla.

„Gróðurvörugeirinn býr við gríðarlega erfitt tolla- og verndarumhverfi og hefur ástandið lítið batnað í þá þrjá áratugi sem ég hef starfað á þessum vettvangi. Þannig má ekki flytja inn pottablóm nema í gegnum kvótakerfi og er kvótinn boðinn upp tvisvar á ári með bæði miklum kostnaði og umstangi. Þá má t.d. ekki flytja inn neinar trjáplöntur sem vaxa villtar í íslenskum skógum, og því ekki inni í myndinni að flytja inn t.d. birki eða aspir.“

Kristni virðist að þessi ströngu höft skýrist að hluta af sóttvarnarsjónarmiðum en einnig af verndun viðskiptahagsmuna aðila innanlands. „Þegar málið er skoðað vandlega læðist að manni grunur að það séu þó frekar viðskiptahagsmunirnir sem ráða för frekar en möguleikinn á að pestir geti borist til landsins með innfluttum plöntum.“

Kostnaðurinn sem seljendur og neytendur þurfa að bera vegna þessa er töluverður. „Kvótinn til að flytja inn pottaplöntu kostar t.d. á bilinu 180-200 kr. fyrir hvert stykki og algengt er að ofan á það bætist 30% tollur. Loks bætist við 25,5% virðisaukaskattur. Ef dæmið er reiknað kemur í ljós að hið opinbera er að fá í sinn hlut bróðurpartinn af söluverði pottaplöntunnar og keppir jafnvel við þau gjöld sem lögð eru á sumar tegundir áfengis.“

Ávaxtatré í þúsundavís

Greinilegt er að íslenskir garðræktendur leggja núna mikla áherslu notagildi jurta. Kristinn segir söluna á matjurtum af ýmsu tagi aldrei hafa verið meiri og óhætt sé að tala um sprengingu, t.d. í sölu ávaxtatrjáa. „Fyrir svona hálfum öðrum áratug þá seldust kannski 10-20 eplatré á ári hér á landi og kaupendurnir þóttu óttalegir sérvitringar. Núna erum við að flytja inn árlega þúsundir ávaxtatrjáa af ýmsum tegundum og þau þrífast vel. Bæði hafa aðstæður til ræktunar batnað með hlýrra veðurfari og mun meira skjóli í grónum hverfum borgarinnar en eins hefur það hreinlega gerst að sjálfstraust garðyrkjumanna hefur aukist.“

Samhliða vinsældum ávaxtatrjáa og berjarunna hefur líka komið kippur í sölu á áhöldum og ílátum til að vinna og geyma matvælin sem vaxa í garðinum. Sultukrukkur seljast t.d. sem aldrei fyrrr. Raunar hefur það verið árviss viðburður síðustu haustin að í fjölmiðlum má lesa frásagnir ergilegra neytenda sem þykja krukkurnar í íslenskum verlsunum helst til dýrar. Sumir benda á að tómar krukkur kosti jafnvel meira en þær fullu sem fást úti í næstu kjörbúð.

„Þar held ég að fólk sé þó iðulega að gera þau mistök að bera saman verðið á mjög ólíkum vörum. Sultukrukkurnar sem við seljum eru sterkbyggð og vönduð framleiðsla oft úr þykku og óbrjótandi gleri og allt annað en umbúðirnar sem notaðar eru utan um sultuna sem seld er í matvöruverslunum,“ útskýrir Kristinn.