Björk Þorgrímsdóttir fæddist á Sjúkrahúsinu á Húsavík 29. maí 1953. Hún lést á gjörgæsludeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri 19. júní 2013.

Útför Bjarkar fór fram frá Akureyrarkirkju 28. júní 2013.

Ég þakka Guði löngu liðinn dag

sem lét mig eignast þig að ævivin.

Og öll þau blóm sem uxu á þinni leið

með ilm og fegurð hresstu og glöddu mig.

Og birtan sem þú breiddir yfir allt

sló bjarma á lífið allt í kringum þig.

Svo líða dagar, ár og ævitíð

og ýmsum blikum slær á loftin blá.

Í sorg og gleði alltaf varstu eins

og enginn skuggi féll á þína brá.

Svo brast á élið, langt og kólgukalt

og krafan mikla um allt sem gjalda má.

Og fljótið niðar enn sem áður fyrr

og ennþá flúðin strýkur næman streng.

Við blæþýtt ljóð, um blóm og sumaryl

og bjarta kyrrð – í minningu um þig.

(Oddný Kristjánsdóttir)

Ég kynntist Björk vinkonu minni þegar við vorum 17 ára starfsstúlkur á elliheimili. Ég var mjög óörugg í nýju vinnunni, en Björk var þar fyrir og tók mig umsvifalaust upp á arma sína. Hún var á þeim tíma mjög grönn, síðhærð með þykk gleraugu og svo góðan húmor að hlátrasköllin glumdu um gangana. Ég hef sjaldan hlegið jafnmikið og þetta yndislega sumar.

Björk var forkur til vinnu og vel liðin bæði af vistmönnum og starfsfólki. Það var því vel við hæfi að hún lærði til sjúkraliða og vann síðan lengst af hjá FSA.

Í gegnum árin sýndi hún mér mikið trygglyndi og einnig sameiginlegri vinkonu okkar Ingu. Við sitjum nú hér fyrir sunnan og syrgjum okkar gömlu góðu vinkonu. Við gleðjumst þó yfir að þjáningum hennar er lokið.

Börnum Bjarkar og öðrum aðstandendum sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Guð blessi minningu hennar.

Sigurvina Kristjana Falsdóttir.