Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
Jón Júlíus Elíasson garðyrkjumeistari segir það hafa komið sér vel fyrir fyrirtæki hans að búa að dreifðum og fjölbreyttum hópi viðskiptavina. „Í þau 25 ár sem við höfum starfað höfum við gert lítið af því að verða of háð stórum byggingafyrirtækjum og þjónustum þess í stað margbreytilegan hóp fyrirtækja, einstaklinga og stofnana. Upp á síðkastið hefur vöxturinn einkum verið í verkefnum fyrir Reykjavíkurborg en eins er mikið um að við erum fengin til að taka upp og endurgera gróna garða við heimilin í borginni. Minna er um nýframkvæmdir fyrir einstaklinga og mjög hefur dregið úr því að viðskiptavinirnir sækist eftir dýrum og íburðarmiklum lausnum.“
Jón Júlíus á og rekur skrúðgarðyrkjufyrirtækið Garðmenn en fyrirtækið sérhæfir sig í hvers kyns smíði og jarðvegsvinnu í görðum auk þess að halda úti trjáklippingadeild. „Við gerum allt frá því að búa til palla, leggja hellur og planta í beð. Við eftirlátum hins vegar öðrum að vinna rafmagns- eða pípulagningavinnuna eða sjá um að slá flatir og hreinsa beð,“ útskýrir hann.
Minni flottheit
Jón Júlíus segir rétt að landsmenn hafa í auknum mæli litið inn á við eftir að kreppan alræmda helltist yfir þjóðina, og nýtt hugarfar hafi m.a. birst í aukinni áherslu á að rækta garðinn og gera heimilið að grænum sælureit. Um leið hafi það gerst að þegar góðærið hvarf þurftu lausnirnar að verða ódýrari. „Því er ekki að neita að það var afskaplega gaman að gera hlutina á árunum 2005-8 enda þurfti þá allt að vera rosalega flott og af dýrustu og bestu gerð. Nú hafa pallarnir minnkað ögn, meira er af grasi en stórum breiðum af hellum og dýr efni eins og harðviður eru mun sjaldséðari. Einfaldleikinn ræður ríkjum og munaður eins og gosbrunnar sjást varla lengur í þeim verkefnum sem við fáumst við um þessar mundir.“Einnig er greinilegt að viðskiptavinir, og þá sérstaklega einstaklingar, leita minna til landslagsarkitekta. Lendir það þá oft á Jóni Júlíusi að taka að sér hönnun, skipulag og teikningar. Þetta er þróun sem hefur sína ókosti enda bendir Jón á að arkitektarnir búi yfir verðmætri sérþekkingu: „Fyrir hrun komu viðskiptavinirnir iðulega til okkar með fullkláraðar teikningar með magntölum og öllum öðrum upplýsingum sem þarf til að undirbúa verkið rétt og af mikilli nákvæmni. Við gerum okkar besta til að leiðbeina viðskiptavinunum, aðstoða við hönnun og við að finna lausnir á vandamálum en það vill stundum henda að hnökrar reynast vera á magntöluútreikningunum sem tilboðin okkar miða við, með óþægilegum afleiðingum fyrir bæði okkur og verkkaupann.“
Peningar festast neðanjarðar
Garðmenn hafa notið góðs af átaksverkefninu „Allir vinna“. Verkefnið felur í sér að einstaklingar geta fengið endurgreiddan að fullu virðisaukaskatt af vinnu iðnaðarmanna í og við heimilið. Jón Júlíus segir reynsluna af verkefninu mjög jákvæða og óskandi væri að átakið væri látið gilda til frambúðar, en eins og stendur eru allar horfur á að Allir vinna renni sitt skeið á enda í lok þessa árs.Að mati Jóns virðist þó að verkefnið hafi ekki dugað til að uppræta svarta starfsemi í skrúðgarðyrkjugeiranum og raunar segir hann svörtu starfsemina umfangsmikla. „Við höfum tapað fjölmörgum verkefnum því aðilar sem ekki standa skil á öllum opinberum gjöldum hafa boðið betur. Reglulega gerist það að hingað hafa samband einstaklingar með verkefni sem þarf að vinna en þeir fara annað með viðskiptin þegar í ljós kemur að við erum með allt uppi á borðinu.“
Þó svo verkkaupi geti fengið virðisaukaskattinn endurgreiddann situr jú enn eftir mikið af opinberum gjöldum sem óheiðarlegur verktaki og verkkaupi geta reynt að komast hjá að greiða, s.s. tryggingagjald og lífeyrissjóðsgjöld að ógleymdum tekjuskatti og útsvari. „Oft er það líka hvati hjá kaupandanum að peningarnir sem nota á til verksins eru hluti af svarta hagkerfinu. Ef peningunum er varið þannig að útgjöldin koma fram í skattframtalinu gætu spurningar farið að vakna hjá skattstjóra enda útgjöldin ekki endilega í samræmi við uppgefnar tekjur. Þegar hluti hagkerfisins fer á annað borð neðanjarðar er margt sem verkar hamlandi á að peningarnir komi aftur upp á yfirborðið.“
Hitastigið hefur mikil áhrif
Tískan og áherslurnar breytast í görðum landsmanna eins og á öðrum sviðum samfélagsins. Í dag segir Jón Júlíus að sé t.d. regla frekar en undantekning að fólk vilji einhvers konar ávaxtatré í garðinn sinn. „Þá er beðið um kirsuberjatré, eplatré, plómutré eða eitthvað slíkt en í blíðviðrinu og skjólinu sem verið hefur síðustu árin hafa þessi tré þrifist vel.“Eitthvað ber þó á að viðskiptavinir Jóns séu órólegir í sumar því ávaxtatrén eru ekki upp á sitt besta þetta árið. „Vorið var kalt og blautt og framan af var sumarið ekki sérlega sólríkt. Þá getur það gerst að ávaxtatrén ná sér ekki vel á strik og bera sennilega ekki ávexti.
Örlítil hækkun á hitastigi er líka að hafa áhrif á hvaða óværa þrífst í görðunum og gerir það að verkum að sumar plöntutegundir sem áður voru vinsælar koma varla lengur til greina. Gljávíðir var t.d. mjög algengur hér á árum áður en sést varla í dag og er hreinlega ekki til sölu lengur. Víðirinn fékk í sig slæma sveppasýkingu sem mögulega má skrifa á hlýnandi veðurfar. Sama virðist nú vera að gerast með birkið og víða um borgina má í dag sjá birki sem er orðið brúnt eins og væri haust.“
Aðrir valkostir eru þó í boði og fjölmargar plöntur sem nota má í stað þeirra gömlu. Bendir Jón Júlíus samt á að það er mikil synd þegar plöntur skemmast með þessum hætti og tjónið getur verið töluvert fyrir eigandann. „Að hreinsa alveg út t.d. 30 m limgerði er ekki einföld framkvæmd og getur m.a. kallað á notkun öflugra vinnuvéla sem eru dýrar í leigu.“