[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Skúli Hansen skulih@mbl.is Fimmtán ár eru í dag síðan opnað var fyrir bifreiðaumferð um Hvalfjarðargöngin.

Sviðsljós

Skúli Hansen

skulih@mbl.is

Fimmtán ár eru í dag síðan opnað var fyrir bifreiðaumferð um Hvalfjarðargöngin. Göngin styttu talsvert ferðalagið um Hvalfjörðinn en áður en þau komu til sögunnar hafði fólk val um að keyra annars vegar meðfram firðinum í heild sinni eða að kaupa sér far með ferjunni Akraborginni sem sigldi reglulega frá Akraneshöfn til Reykjavíkurhafnar.

Ákveðið samfélagsverkefni

„Ánægjulegast er að þetta hefur allt gengið eftir þeim vonum sem voru settar upp. Þetta hefur valdið verulegum breytingum og það var stór áfangi í samgöngusögu þjóðarinnar þegar göngin voru opnuð,“ segir Gísli Gíslason, hafnastjóri Faxaflóahafna og stjórnarformaður Spalar ehf. Hann bendir jafnframt á að jákvæð áhrif ganganna hafi verið jafnvel meiri en menn hafi búist við á sínum tíma.

„Það eina sem við klikkuðum á í upphafi var að við vanreiknuðum umferðina. Hún er miklu meiri en við létum okkur detta í hug,“ segir Gísli og bætir við að stefnt sé að því að allar skuldir verði uppgreiddar að fimm árum liðnum, árið 2018. „Þannig að þá verður að líta svo á að vegfarendur sem hafa borgað þetta mannvirki muni aka þar um ókomna framtíð sælir og glaðir endurgjaldslaust,“ segir Gísli og telur ekkert geta raskað því í fljótu bragði.

Að sögn Gísla hafa Hvalfjarðargöngin ávallt verið ákveðið samfélagsverkefni.

„Þetta var auðvitað gert til að bæta verulega þessar samgöngur en áður keyrði maður fyrir Hvalfjörð eða fór með Akraborginni og við höfum passað vel upp á það að með aukinni umferð þá hefur veggjaldið lækkað, þannig að ávinningurinn hefur skilað sér til vegfarenda,“ segir Gísli og bendir á að grundvallarþátturinn sé sá að það eru vegfarendurnir sem borga göngin og að þeir eigi þakkirnar skildar til lengri tíma.

Lágt veggjald

Þá segir Gísli að fyrstu árin hafi umferð um göngin aukist talsvert. Ástandið hafi haldist stöðugt frá árinu 2008 þó svo að umferð hafi dregist eitthvað saman eftir árið 2007. Hann bendir einnig á að um tvær milljónir bifreiða keyri árlega í gegnum göngin. Þá leggur hann áherslu á að gjaldið í göngin sé talsvert lægra en gert var ráð fyrir í upphafi. Gísli bendir á að þúsundkallinn, sem í upphafi hafi verið markmið, sé samkvæmt verðlagi dagsins í dag í raun rétt um 2.000 krónur. „Meðalgjaldið í göngin á þessu ári er um 570 krónur á bíl. Þannig að við erum bæði í krónutölu langt undir og ég tala nú ekki um í verðlagi,“ segir Gísli og telur engar forsendur vera til annars en að gjaldið verði áfram eins lágt og kostur er.

Draumur í göngum

Að sögn Gísla aka að meðaltali um 5.200 bifreiðir um göngin á dag. „Fyrstu mánuði þessa árs er örlítil aukning þannig að ef samfélagið er að rétta úr kútnum og umferð að aukast þá verðum við komnir tiltölulega fljótlega í þær tölur sem munu kalla eftir auknu öryggi og nýjum göngum,“ segir Gísli. Spurður um skuldastöðu ganganna segir hann langtímaskuldirnar vera rétt um þrír milljaðar í dag.

„Endurgreiðsluáætlunin á næstu árum dekkar þá fjárhæð. Síðan má segja að það séu einhver frágangsatriði sem muni koma til á þeim tíma þegar langtímalánin eru uppgreidd en að öðru leyti þá sjáum við ekkert annað en að þetta eigi að ganga allt vel eftir,“ segir Gísli og bætir við að verkefnið hafi verið „draumur í göngum“ og verði það vonandi áfram.

TVÖFÖLDUN GANGANNA

„Gríðarlegt öryggismál“

Þegar Hvalfjarðargöngin áttu tíu ára afmæli árið 2008 voru uppi áætlanir um að grafin yrðu ný göng samhliða þeim. „Á tíu ára afmælinu þá höfðum við látið vinna öll nauðsynleg gögn fyrir næstu göng við hliðina og þau liggja fyrir hjá samgönguráðherra og Vegagerðinni,“ segir Gísli, spurður út í þetta og bætir við að eftir að umferðin dróst lítillega saman þá hafi pressan á framkvæmdir ekki verið sú sama og hún hefði verið ef umferðin hefði haldið áfram að aukast.

„Hinsvegar þá er það svo að ný göng eru umfram allt gríðarlegt öryggismál til framtíðar og þess vegna ætti þetta verkefni að vera til alvarlegrar skoðunar hjá samgönguyfirvöldum. Umferðin þarf ekki að aukast mjög mikið, að mínu viti, til að það verði knýjandi þörf á því að huga að þessu verkefni,“ segir Gísli og bætir við að nýju göngin myndu liggja um 20-30 metrum austan við núverandi göng og tengd þeim með öryggisgöngum. „Það má segja að þegar þau göng verða fullgerð, og þau verða fullgerð á einhverjum tímapunkti, þá fyrst verði verkið fullkomnað.“