Hjálmtýr Axel Guðmundsson fæddist í Reykjavík 27. janúar 1944. Hann lést á líknardeild LSH 30. júní 2013.

Foreldrar hans voru hjónin Ásta Guðmunda Hjálmtýsdóttir, f. 1917, d. 1999, og Guðmundur Sigurðsson, f. 1907, d. 1996. Bróðir Axels var Sigurður Guðmundsson, f. 1939, d. 2004.

Axel giftist 20. nóvember 1965 Guðrúnu Björgu Tómasdóttur, f. 17. nóvember 1946. Foreldrar hennar eru Tómas Sigurjónsson, f. 1922, d. 1999, og Jóhanna Laufey Óskarsdóttir, f. 1924. Börn Axels og Guðrúnar eru: 1) Ásta Guðmunda, f. 1966, maki Sigurður Sigurðsson, f. 1964. Börn þeirra eru Magni Reynir, f. 1985, maki hans er Inga Helga Sveinsdóttir, f. 1985, barn þeirra er Sigurður Svavar, f. 2009, Ólöf Ýr, f. 1990, Guðrún Björg, f. 1993 og Hjálmtýr Axel, f. 1996. 2) Jóhann Tómas, f. 1967, maki Lilja Margrét Óladóttir, f. 1972. Börn þeirra eru Sóley Björg, f. 1999, Hjördís Ásta, f. 2005, og Sigurður Óli, f. 2005. 3) Harpa Björg, f. 1972. Börn hennar eru Íris Björg, f. 1992, Anna Kristín, f. 1992, og Sigríður María, f. 1998. 4) Hanna María, f. 1976, maki Jón Heimir Sigurbjörnsson, f. 1972. Börn þeirra eru Ásbjörn Freyr, f. 1997, Eva María, f. 2001, og Jón Kristján, f. 2012. 5) Guðrún Ása, f. 1978, maki Pálmi Franklín Guðmundsson, f. 1977. Börn þeirra eru Guðmundur Franklín, f. 2004, Axel Franklín, f. 2006, og Jóhann Franklín, f. 2012.

Axel ólst upp við Laugaveg til sex ára aldurs en flutti þá í Bústaðahverfið þar sem fjölskyldan bjó í Hæðargarði 20. Axel kynntist Guðrúnu er hún flutti í sama hús þegar þau voru sextán og átján ára. Axel og Guðrún fluttust í Kópavoginn árið 1967 og áttu þar heimili eftir það. Skólaganga Axels var hefðbundin og árið 1975 kláraði hann annað stig vélstjóra frá Vélskóla Íslands. Axel vann hin ýmsu störf, flest tengd vélum og bílum, en lengst af starfaði hann á eigin sendibifreið hjá Plastprenti hf. Axel var félagi í björgunarsveitinni Stefni í Kópavogi og Kiwanisklúbbnum Esju í Reykjavík. Guðrún og Axel byggðu sér sumarbústað í Fljótshlíð og dvöldu þar löngum stundum eftir að starfsævinni lauk. Þar átti Axel góðar stundir og ber bústaðurinn merki þess hversu handlaginn hann var.

Útför Axels fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 11. júlí 2013, og hefst athöfnin kl. 15.

Elsku, elsku yndislegi pabbi minn. Mikið eru síðustu vikur í lífi okkar fjölskyldunnar búnar að vera skrítnar. Þegar ég hugsa til baka líður mér eins og stór hvirfilbylur hafi tekið okkur öll inn í miðja hringiðu sína, snúið okkur í ótal hringi og svo þegar yfir lauk tekið þig til sín. Okkur hin skildi hann eftir máttvana og uppfull af spurningum.

Hvernig gat þetta gerst, elsku pabbi? Þú af öllum, sá allra besti. Maðurinn sem vildi öllum vel og máttir ekkert aumt sjá, það var pabbi minn. Alltaf tilbúinn að hjálpa öðrum og gefa af sér og þá sérstaklega þeim sem minna máttu sín. Þegar við systkinin grétum yfir kistunni þinni lét ég þau orð falla hvað við værum nú heppin að geta grátið pabba okkar. Já, pabbi minn, tárin eru ótalmörg sem hægt er að fella yfir söknuði til þín en á sama tíma gleðjumst við líka yfir þeirri miklu gæfu að hafa átt þig.

Mest mun ég sakna þess að geta ekki átt við þig fleiri af okkar dásamlegu samtölum. Hvort sem ég hringdi í þig eða þegar við hittumst þá gátum við rætt svo margt. Eftir því sem ég eltist og þroskaðist áttaði ég mig alltaf meir og meir á því hversu mikinn fjársjóð var að finna í þér. Þú varst svo vel inni í öllum málum og gast deilt þínum skoðunum. Með því að hlusta á þína lífssýn lærði ég mikið.

Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að umgangast foreldra þína mikið sem barn og fékk því á vissan hátt sama uppeldi og þú. Reglulegir matmálstímar og alltaf vel pússuð og fín til fara hjá Ástu ömmu. Ég hef alveg örugglega verið eina barnið sem mætti í bónuðum gúmmístígvélum í skólagarðana.

Anna Kristín mín sagði í vikunni hvað við værum nú heppin að eiga svona góða fjölskyldu. Við gerðum alltaf allt saman. Maður sér það alltaf betur og betur að góð fjölskylda er einmitt það sem lífið snýst um. Sérstaklega þegar erfiðleikar skella á, þá er ómetanlegt að vera hluti af okkur eins og við erum. Því miður fá ekki allar fjölskyldur að upplifa þau tengsl sem við eigum.

Hvers virði er allt heimsins prjál

ef það er enginn hér

sem stendur kyrr

er aðrir hverfa á braut.

Sem vill þér jafnan vel

og deilir með þér gleði og sorg

þá áttu minna en ekki neitt

ef þú átt engan vin.

(Ólafur Haukur Símonarson.)

Þetta lag sungum við Ólöf yfir kistunni þinni, elsku pabbi, og það er eitt mikilvægasta verkefni sem ég hef tekið að mér. Það kom ekkert annað til greina en að syngja fyrir þig og var það síðasta gjöf mín til þín í þessu lífi.

Ég varð líka þess heiðurs aðnjótandi að klippa þig í síðasta sinn en ég hafði séð um hárið á þér frá því ég var sextán ára hárskurðarlærlingur. Síðustu nóttina sem þú áttir í rúminu þínu heima kúrði ég hjá þér, labbaði með þér í síðasta sinn út um dyrnar heima og hélt utan um þig þegar þú dróst andann í síðasta sinn. Það er svo margt sem ég hefði viljað gera með þér miklu oftar í þessu lífi, elsku pabbi, en ég fæ engu þar um ráðið, það er annar sem gerir það og ég verð bara að lúta hans ákvörðun.

Ég vil að lokum þakka þér fyrir allt sem þú gafst mér og allt sem þú varst mér.

Ég mun alltaf elska þig,

Harpa.

Kveðja til pabba

Það rann upp fallegur sunnudagsmorgunn og pabbi var að leggja í ferð til forfeðranna.

En pabbi hafði þá lokið eftirminnilegri ferð með okkur og eftir sitjum við með söknuð í hjarta. Þessi ferð var full af gleði, ást og umhyggju og fyrir það er ég þakklátur. Við pabbi áttum margt sameiginlegt, við höfðum svipuð áhugamál sem snérust fyrst og fremst um bíla. Við áttum mikla samleið þar sem við störfuðum saman við sendibílaaksturinn og svo var björgunarsveitin mjög oft ofarlega í huga okkar. Það lék allt í höndunum á pabba, það var fátt sem pabbi gat ekki lagað eða smíðað og alltaf var hann tilbúinn að redda hlutunum þegar við leituðum til hans, hvort sem það þurfti að laga eitthvað eða smíða. Pabbi var ekki bara hagleiksmaður, það var líka nærveran sem heillaði, hnyttni og skemmtileg framkoma sem laðaði að. Pabbi kunni ótal sögur sem voru sígildar þó svo að ein og ein heyrðist oftar en aðrar. Það tómarúm sem pabbi skilur nú eftir á aldrei eftir að fyllast, ég kveð þig, pabbi minn, með miklu þakklæti fyrir þá samveru sem við áttum saman.

Jóhann.

Snemmsumars skein sól með fögur fyrirheit um að bjartir tímar væru framundan. Á einum þessara fallegu daga kom í ljós að þú værir haldinn sjúkdómi sem erfitt yrði að ráða við. Næstu sjö vikurnar grétu himnarnir með okkur og svo á sólríkum sunnudegi kvaddir þú okkur.

Núna þegar samleið okkar er orðin að minningum er mér fyrst og fremst í huga þakklæti, bæði fyrir að hafa fengið tíma til að kveðja og segja þér hvað ég elska þig mikið en einnig fyrir nærri hálfrar aldar samleið með þér. Betri pabba er ekki hægt að hugsa sér. Fjölskyldan var þér allt og þú umvafðir okkur með umhyggju þinni. Minningarnar um þig eru margar og góðar. Ein sú sem mér þykir vænst um er frá þeim tíma þegar þú varst í kór nema við Vélskóla Íslands. Þá fékk átta ára skotta stundum að fara með pabba sínum á æfingar. Ég sat þá prúð og stillt í salnum og hlustaði á og auðvitað þótti mér pabbi minn syngja best. Í bílnum á leiðinni heim héldum við svo okkar einkatónleika þar sem sjóaravalsarnir voru sungnir með hárri raust. Við vorum með svipaðar skoðanir á mörgu og oft fékk ég að heyra hversu lík ég væri föður mínum. Stjórnmálaskoðunum deildum við þó ekki og áttum við oft ansi líflegar samræður um þau mál en mörgum stundum eyddir þú í að reyna að koma fyrir mig vitinu í þeim efnum. Þið mamma voruð einstaklega samrýnd hjón og missir hennar er mikill en þú veist að við munum umvefja hana fyrir þig.

Hjarta mitt er fullt af þakklæti, elsku pabbi minn, fyrir að hafa fengið að eiga þig. Þó að ég þakki fyrir að stutt en erfið veikindi þín séu að baki verð ég að játa að ég var ekki tilbúin að sjá á eftir þér svona snemma. Ég óska þér góðrar ferðar til nýrra heimkynna og veit að við eigum eftir að hittast aftur.

Þín elskandi dóttir,

Ásta.

Þriðjudagurinn 7. maí stefndi í að verða eins og hver annar dagur í lífi okkar en þá kom reiðarslagið, pabbi greindist með krabbamein. Pabbi huggaði okkur þó fljótt og sagðist ætla að sigra þennan óvelkomna gest, hann yrði bara stutt í heimsókn. Heimsóknin varði sannarlega stutt. Margt brýst um huga okkar á þessari stundu, við mörgu fáum við aldrei svör en það er gott að geta yljað sér við minningarnar sem eru margar og góðar. Við vorum nefnilega svo heppnar að eiga svo góðan pabba. Pabba sem var annt um velferð okkar, kenndi okkur svo margt, fræddi okkur um liðna tíma og var alltaf til staðar þegar á þurfti að halda. Pabbi var einkar handlaginn maður og má sjá handbragð hans víða. Við systurnar græddum oft á því að eiga pabba sem allt gat gert. Þegar pabbi hafði lokið smíði á bústaðnum í Fljótshlíðinni tíndi hann saman afganga og byggði kofa fyrir okkur. Kofinn sem fékk nafnið Bútakot var ekkert slor einangraður, panel- og parketlagður og gátum við systur meira að segja gist í honum. Þegar við vorum 17 og 19 ára fengum við bíl í jólagjöf frá foreldrum okkar. Pabbi keypti forláta Daihatsu Charade sem var frekar illa farinn en eftir nokkra daga í skúrnum hjá honum kom út hinn fínasti kaggi, gylltur með sportröndum, sem við systurnar rúntuðum á næstu árin. Þegar barnabörnin fóru að bætast í hópinn naut pabbi sín virkilega og voru farnar margar ferðir í bústaðinn með fullt aftursætið af barnabörnum. Hann hafði yndi af að umgangast þau og hlakkaði mikið til að fá að fylgjast með vor- og haustlaukunum eins og hann kallaði tvo yngstu afastrákana sem fæddust í fyrra. Pabbi og mamma hafa alltaf haldið vel utan um hópinn sinn og erum við fjölskyldan dugleg að koma saman og ferðast saman. Minnisstæðar eru Glasgowferðin, vikan í Haganesvík og síðasta ferðin okkar saman til Tenerife í lok febrúar. Það er skrýtið að ímynda sér tilveruna án pabba. Hlutirnir hafa gerst hratt undanfarnar vikur og það er sárt að leiðir okkar skilji nú, alltof fljótt. En við höldum ferðinni áfram án hans en hugsum með þakklæti til allra frábæru stundanna sem við áttum saman. Mömmu höldum við þétt utan um í hennar miklu sorg, en pabbi og hún voru sem eitt. Það er því við hæfi að enda þetta á verðlaunaástarljóði sem hann orti um hana.

Ástarbál í brjósti þér

bræðir klaka harða

um mig skjálfti allan fer

átta á Ricterkvarða.

Hanna María og Guðrún Ása.

Tengdaföður mínum kynntist ég vorið 1989 og myndaðist strax með okkur góður vinskapur. Ég verð ævinlega þakklátur þeim hjónum fyrir hversu vel þau tóku á móti mér einstæðum föðurnum og syni mínum. Axel var bóngóður og handlaginn og tók alltaf þátt í öllu sem börnin hans og fjölskyldur þeirra voru að aðhafast hverju sinni, hvort sem um var að ræða húsbyggingar eða bílaviðgerðir. Allt lék í höndunum á honum og þegar ég stofnaði fyrirtæki mitt var gott að eiga hann að. Eitt var þó ekki hægt að fá hann til að gera og það var að mála. Þá var hann fljótur að láta sig hverfa til annarra verka.

Axel var mikill og góður afi og langafi. Börnin mín tala um ferðirnar með afa og ömmu í sumarbústaðinn með ævintýrablæ enda gerðu þau allt til að gera dvölina sem skemmtilegasta og oft var fjölmennt hjá þeim í sveitinni. Það lýsir tengdaföður mínum vel að hann hélt góða skapinu og húmornum í veikindum sínum allt þar til yfir lauk enda vildi hann ekki að fólkinu sínu liði illa vegna hans. Ég þakka tengdaföður mínum samfylgdina. Hvíldu í friði, kæri vinur.

Þinn tengdasonur,

Sigurður.

Það er svo óraunverulegt að hann afi sé dáinn.

Það er eins og það hafi bara verið í gær þegar við þrjár frænkurnar vorum að leika okkur úti á túni í sumó og fengum að sitja með afa á sláttuvélinni meðan hann var að slá grasið. Og svo fórum við oft í sund á Hvolsvelli og á meðan við þrjár vorum í lauginni sat afi í heita pottinum og talaði við alla sem sátu þar ofan í, honum fannst svo gaman að spjalla og segja skemmtilegar sögur.

Hann kenndi okkur margt eins og t.d. að brenna gat á pappa með sólarljósi og stækkunargleri og að smíða litla báta sem við settum svo á flot í ánni.

Hann passaði mjög vel upp á öll 16 barnabörnin sín og langafabarn og var besti afi sem maður gat óskað sér.

Þegar afi var uppi á spítala á krabbameinslækningadeildinni þá komu hjúkrunarkonurnar oft inn á herbergi til að athuga með hann afa en þá byrjaði afi alltaf að tala og tala og tala svo hjúkrunarkonurnar sátu oft fastar inni á stofu næsta korterið en þær skemmtu sér mjög vel því sögurnar hans voru svo skemmtilegar og fyndnar.

Þótt það hafi verið alveg rosalega sárt að missa þennan yndislega afa okkar erum við samt sem áður ótrúlega þakklátar fyrir að hafa fengið alveg frábær og yndisleg ár með honum afa okkar.

Hvíl í friði.

Kveðja frá

Sigríði Maríu, Sóleyju Björgu og Evu Maríu.

Elsku afi minn, alltaf svo góður. Afi var alltaf svo góður, hann var alltaf tilbúinn að hjálpa. Hann þurfti alltaf að vera að gera eitthvað, frá því að ég man eftir þá man ég eftir afa inni í bílskúr, undir bílum eða bara það sem hann þurfti að gera. Afa fannst svo gaman að tölvum, þær voru ekkert smáflottar og mikið var hann nú ánægður þegar hann fékk Facebook-síðu. Og þegar ég ferðaðist eitt ár til Brasilíu fannst afa sko ekki leiðinlegt að geta bara hringt í gegnum tölvuna og þar sem að ég gat sýnt honum hvar ég byggi. Hann var svo yndislegur maður, hann vildi að maður tæki lífið ekki of alvarlega, hann vildi bara að öllum liði vel. Og setti alltaf allt og alla fram fyrir sjálfan sig. Allar þær minningar sem ég man eftir þegar ég var yngri, eru þegar ég var uppi í sumó með ömmu og afa. Þar lék maður sér og fékk svo að sitja í fanginu á afa meðan hann sló túnið á bláa traktornum. Man svo vel þegar ég vakti alla sveitina með öskrum, þegar ég steig á nagla og fékk hann í gegnum löppina. Man eftir ömmu og afa hlaupandi til mín og færa mig inn í hús. Þar var búið um sárið og svo var færður út stóll þar sem að mér var pakkað inn með sæng og fékk allt það sem ég vildi. Svo fór fóturinn að bólgna meira og afi henti mér á öxlina og fór með mig um alla sveit til að koma mér til læknis. Hann var svo yndislegur, það var alltaf jafn gaman að tala við hann um allt milli himins og jarðar. Alltaf tók hann á móti mér þegar ég kom heim úr skólanum, þar sem hann var á hinu planinu að vesenast eitthvað í bílskúrnum. Ég vil þakka elsku afa mínum fyrir allt sem hann hefur kennt mér og gert fyrir mig. Þessi maður var gull af manni og þeir sem fengu að kynnast honum eru heppnir. Hvíldu í friði, elsku engillinn minn, og ég veit að þú ert alltaf hérna hjá mér.

Guðrún Björg Sigurðardóttir.

Elsku Axel afi okkar, takk fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman. Við hefðum viljað hafa þær svo miklu fleiri. Þú varst alltaf svo hjálpsamur, góður og hress.

Við höfum alltaf verið miklar afa- og ömmustelpur og urðum strax mikið fyrir að fá að komast í sumarbústaðinn með ykkur. Ein saga sem þú sagðir okkur oft var af því þegar mamma var að kveðja okkur áður en lagt var af stað í sumarbústaðinn. Við vildum ekki sjá hana og sögðum bara „farrrrrrru mamma farrrru“. Enda voru ferðirnar í sumarbústaðinn alltaf jafn skemmtilegar. Þú sagðir okkur svo mikið af skemmtilegum sögum á leiðinni sem við munum aldrei gleyma. Í uppáhaldi hjá okkur voru auðvitað prakkarasögurnar af þér frá því þú varst lítill strákur í Bústaðhverfinu og svo sagan um mjólkurbílana sem féllu ofan í Ölfusá. Þið sunguð alltaf með okkur lagið Í Hlíðarendakoti og kennduð okkur nöfn á helstu fjöllunum á leiðinni. Á leiðinni heim úr sumó var svo alltaf stoppað á Olís Selfossi og keyptur ís í brauðformi.

Við fjölskyldan erum öll svo heppin að hafa átt þig að, ef eitthvað þurfti að gera þá varst þú alltaf kominn til að hjálpa hvort sem það var til þess að smíða handrið fyrir heimilin okkar, innréttingar eða laga bíla svo eitthvað sé nefnt.

Þú varst alltaf svo umhyggjusamur og passaðir vel upp á alla. Þegar Anna var á leiðinni í flug til Madríd fylgdist þú alltaf vel með textavarpinu og lést strax vita ef það varð seinkun.

Við erum svo þakklátar þér fyrir það að hafa mætt í útskriftina hennar Önnu og afmælið hennar Siggu systur, þrátt fyrir mikil veikindi. Þú varst alltaf hrókur alls fagnaðar og það sannaðir þú sko þegar þú mættir í afmælið hennar Siggu aðeins tuttugu dögum áður en þú kvaddir þennan heim, með göngugrind og syngjandi Fatlafól. Húmorinn var sko alltaf til staðar hjá þér.

Við systur höfum alltaf verið miklir sælkerar eins og þú og með sama matarsmekk. Það var því í ófá skipti sem rifist var um kjúklingarassa á Sæbólsbrautinni í den.

Elsku besti afi, þín verður sárt saknað en minningin um þig mun alltaf lifa í hjörtum okkar.

Hvíldu í friði.

Tvíburasysturnar,

Íris Björg og Anna Kristín.

Kór frænkufélags Túllu Hansen söng hressilega frænda sínum til heiðurs á afmæli hans. Texti lagsins sem gerður var af einni frænkunni Ernu, lýsti Axel vel og kom að öllum þeim ótal hlutum sem hann tók sér fyrir hendur á lífsins leið. Axel frændi minn var einn af þeim mönnum sem vöknuðu eldsnemma á morgnana til að takast á við dagsins önn. Hann var bílstjóri og sinnti starfi sinu af ábyrgð og festu. Tómstundirnar nýtti hann til félagsstarfa, bygginga, endurbóta og viðhalds allskonar þar sem hann var einstaklega laghentur, má segja listasmiður. Heimili hans og fjölskyldunnar bar hagleik hans merki svo ekki sé minnst á sælureitinn í Fljótshlíð þar sem fjölskyldan naut margra sólardaga. Hann hafði gaman af að safna saman fróðleik og upplýsingum um fólkið sitt og fyrri tíð en Íslendingabók og timarit.is var kjörinn vettvangur fyrir hann í þeim efnum. Axel ólst upp við jákvætt, gott og húmorískt hugarfar sem hann tileinkaði sér alla tíð. Hann var greiðasamur og góður drengur og mikill fjölskyldumaður. Sem sonur, bróðir og seinna eiginmaður, faðir, afi og langafi var hann sannur og heill. Axel var góður sögumaður og þrælminnugur. Frásagnarhæfileiki hans og lifandi lýsingar af mönnum og málefnum komu áheyrendum oftar en ekki til að skellihlæja. Við stórfjölskyldan höfum upplifað saman með foreldrum okkar, börnum og barnabörnum margar góðar gleðistundir. Frá árinu 1989 hefur meðal annars verið staðið fyrir árlegu þorrablóti og lögðu Axel og kona hans Guðrún heimili sitt að Sæbólsbraut undir slík blót um árabil. Þá var ferð okkar frændsystkina og maka saman á siglingu um Karíbahaf með dvöl í New York og hjá Íju frænku og fjölskyldu í Connecticut haustið 2006 stórskemmtileg og er ómetanleg í minningunni en Axel er sá þriðji sem fellur frá af ferðafélögunum.

Það er stór hópur frændsystkina og fjölskyldna sem kveður kæran frænda með söknuði en jafnframt virðingu og þakklæti fyrir árin öll, gamanið og góða samleið. Elsku Guðrún og fjölskylda, við vottum ykkur dýpstu samúð á sorgarstund. Megi fallegar minningar um Axel sefa sárasta söknuðinn, styrkja ykkur og styðja.

Valgerður Sigurðardóttir.

Æskuvinur minn og félagi, Hjálmtýr Axel, er látinn langt um aldur fram. Við félagarnir ólumst saman upp í Bústaðahverfinu og áttum heima hlið við hlið. Það var mikil samheldni hjá okkur krökkunum sem ólumst upp saman í hverfinu og oft var farið út í leiki saman eins og stórfiskaleik eða fallin spýta. Einnig var oft verið að gera ýmiss konar at í fólki eins og að binda saman húna á hurðum sem lágu saman, hafður var smá slaki á bandinu og síðan hringt bjöllum á báðum stöðum, þá náði annar að opna til hálfs og teygði sig út til að losa bandið þá opnaði hinn og toguðust þeir þá á. Einu sinn var hestur bundinn við húninn og bjöllunni hringt og þegar húsmóðirin opnaði dyrnar dróst hesturinn með og svo stóð einn aftan við hestinn og sagði „Gætirðu gefið mér brauðbita frú?“ Sagt var að hún hefði verið lengi að ná sér. Á veturna var farið á skauta og skíði, og þá var farið upp í Ármannskála í Jósepsdal á skíði. Þá var stundum gengið frá Litlu kaffistofunni ef ekki var fært nær skálanum. Þar var oft gaman og góður félagsskapur. Við grannarnir stofnuðum bæði skíða- og göngufélög og fórum víða um höfuðborgarsvæðið s.s. í Kópavog og á Álafoss. Seinna meir fórum við að ferðast um öræfin í gamla Weaponinum hans Gumma og voru ýmsir slóðar farnir. Eitt sinn ætluðum við að vera í samfloti með Bjarna í Túni en af einhverjum ástæðum töfðumst við en lögðum seint af stað. Til allrar hamingju var ekki komið bundið slitlag á vegi og við hver vegamót fór Axel út og las hjólförin eftir Bjarna en hann þekkti munstrið í afturdekkjunum. Um kvöldið komum við að honum í náttstað. Við ferðuðumst oft inn í Þórsmörk og eitt sumarið fórum við 11 helgar í röð þangað inn eftir.

Í gegnum árin höfum við hópur sem aðallega er úr Bústaðahverfinu haldið sambandi og reynt að hittast að minnsta kosti einu sinni á ári og var þá farið saman í útilegu eða hist í sumarbústað. Einnig voru stundum haldin þorrablót þegar við Solla bjuggum í Búrfelli. Í öllum þessum ferðum og samkomum var Axel alltaf hrókur alls fagnaðar. Hann söng og kunni marga texta en ef hann mundi þá ekki bjó hann þá bara til. Hann hafði gaman af því að segja sögur og þá aðallega sögur af okkur á yngri árum. Við töluðum oft um að hann hefði svo gott minni enda fæddur '44 en sá árgangur er án efa sá besti.

Við, félagar hans, eigum eftir að sakna Axels mikið en vonandi tekur hann á móti okkur þarna hinum megin í ferðafötunum með „Vagla“ með sér. Ég heimsótti hann á spítalann skömmu fyrir andlátið og hitti þar á hann í fullu fjöri. Hann var ekkert á því að gefast upp og ætlaði sér að lifa í nokkur ár í viðbót. Þá ákváðum við að stefna á að fara í Þórsmörk í sumar og ef það gengi ekki hjá honum í sumar þá bara yrði það bara næsta sumar.

Að leiðarlokum viljum við ferðafélagarnir í gegnum tíðina og fjölskyldur okkar þakka þér alla þá skemmtun og vinskap sem þú hefur veitt okkur. Við áttum góðar stundir saman en þær liðu alltof fljótt. Gunna okkar, við vottum þér og fjölskyldunni okkar dýpstu samúð. Axel ferðafélagi mun lifa í minningum okkar um ókomna framtíð.

Björn Sverrisson.

Við hjónin viljum minnast kærs vinar okkar Hjálmtýs Axels Guðmundssonar sem fallinn er nú frá, eftir stutta og erfiða sjúkdómslegu.

Við kynntumst þeim hjónunum þegar Axel og Sigmar hófu samtímis nám í Vélskóla Íslands, þau kynni urðu náin þann tíma meðan á námi stóð og vinskapurinn hefur haldist, þó að oft hafi verið langt á milli okkar.

Axel var einstakur maður, glaðsinna, einlægur og fórnfús. Alltaf boðinn og búinn til að aðstoða og leysa úr hverjum vanda og hélt ekki aftur af sér við það. Hann kom til okkar vestur á firði til að aðstoða við húsbyggingu, hjálpaði okkur við búslóðaflutninga og fleira og fleira. Allt var það gert með gleði og ánægju og aldrei mátti minnast á greiðslu né annað fyrir.

Þau Guðrún eiga sérstakan stað í hjörtum okkar. Þó að mörg ár liðu milli þess að við hittumst var það alltaf eins og aðeins nokkrir dagar hefðu liðið. Okkur langar að segja svo margt, en það er eins og allt hverfi frá manni, enda verða orð fátækleg á svona stundum. Allt í einu er góður vinur horfinn á braut og þá skyndilega áttar maður sig á því hvað lífið er stutt og hverfult. Allt það sem maður ætlaði sér að gera í framtíðinni er skyndilega orðið of seint.

Við vitum að stórt skarð er höggvið í stórfjölskylduna samhentu og sendum þeim öllum, okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Pálína og Sigmar.

Axel Guðmundsson starfaði um árabil hjá Plastprenti hf. við vörudreifingu og er öllum minnisstæður, sem honum kynntust á þeim starfsvettvangi. Hann var glöggskyggn á samtíð sína og samferðafólk, margfróður og með eindæmum orðheppinn. Það kom enginn að tómum kofunum, þegar hann var annars vegar. Fáir gerðu betur að gamni sínu en Axel á góðum stundum, og við fáa var betra að ræða um alvöru lífsins, þegar það átti við. Hann var vel látinn af samstarfsfólki sínu og viðskiptavinum Plastprents og raungóður þeim sem mótdrægt áttu.

Axel starfaði hjá Plastprenti á miklu vaxtarskeiði fyrirtækisins, þegar það tók stakkaskiptum oftar en einu sinni. Umrót, sem slíkum breytingum fylgir, reynir á þolrif og afstöðu starfsmanna. Axel stóð með fyrirtækinu í gegnum þykkt og þunnt. Hann var í hópi þeirra liðsmanna Plastprents sem sátu lengi undir árum og skilaði fyrirtækinu í gegnum hvern brimskaflinn á fætur öðrum. Fyrir það vil ég þakka.

Eggert Hauksson, fv. framkvæmdastjóri Plastprents hf.

HINSTA KVEÐJA
Við elskum þig, afi. Þú varst besti afi í heimi. Þú varst góður að smíða. Þú smíðaðir flottan sumarbústað og strákakot fyrir strákana og stelpukot fyrir stelpurnar. Þú varst góður að slá á traktornum þínum. Það var skemmtilegt að vera með þér.
Kveðja,
Guðmundur Franklín, Axel Franklín og Jóhann Franklín.