Leiftur Nýr tíu metra langur harðbotna slöngubátur sem nú er notaður til eftirlits með strandveiðum.
Leiftur Nýr tíu metra langur harðbotna slöngubátur sem nú er notaður til eftirlits með strandveiðum. — Ljósmynd/Landhelgisgæslan
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Leiftur heitir nýr tíu metra langur harðbotna slöngubátur Landhelgisgæslunnar. Báturinn er frá bátasmiðjunni Rafnar og var tekinn í notkun í síðustu viku. Hann er m.a.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Leiftur heitir nýr tíu metra langur harðbotna slöngubátur Landhelgisgæslunnar. Báturinn er frá bátasmiðjunni Rafnar og var tekinn í notkun í síðustu viku. Hann er m.a. notaður til eftirlits með strandveiðum í samvinnu við Fiskistofu. Báturinn hefur farið í eftirlitsferðir á Faxaflóa, Breiðafirði og Vestfjörðum. Áhöfnin gistir í landi og siglir um miðin á daginn, að sögn Ásgríms L. Ásgrímssonar, framkvæmdastjóra aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar.

Við byggingu nýja bátsins var m.a. tekið mið af reynslunni sem fékkst af minni harðbotna slöngubáti sem Landhelgisgæslan var með til reynslu í fyrra.

Tvær varðskipsáhafnir

Varðskipið Ægir fer á mánudaginn í rúmlega tveggja vikna eftirlitsferð. Stefnt er að því að gera varðskipið Þór út í vetur, að sögn Ásgríms. Varðskipið Týr er nú í þjónustu Frontex, landamærastofnunar Evrópusambandsins, í Miðjarðarhafi. Ásgrímur sagði að ekki hefði verið reiknað með því að Týr færi út til Spánar. Beiðni um það barst skyndilega og var orðið við henni. Landhelgisgæslan er með áhafnir til að manna tvö varðskip, einnig stendur nú yfir aðal sumarleyfistíminn sem hefur áhrif á útgerð varðskipanna.

Flugvél Landhelgisgæslunnar TF-SIF sinnir eftirliti fyrir Frontex líkt og Týr. Hún var staðsett á Sikiley og er nú að færa sig til Brindisi.

Fjareftirlitið breytir miklu

Ásgrímur sagði að fjareftirlitið í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar hafi breytt miklu í starfsháttum við eftirlit með fiskimiðunum. Fyrstu daga hvers mánaðar er varðstjórum á vakt í stjórnstöðinni fjölgað vegna strandveiðanna. Með fjareftirlitinu er t.d. hægt að grípa inn í og gera bátum viðvart sem eru komnir of nálægt lokuðum hólfum.

„Fjareftirlit hefur gert eftirlitið og notkun varðskipa og flugvéla hnitmiðaðri. Við ætlum t.d. að senda þyrlu í dag til eftirlits í Húnaflóa, við Strandirnar og norður fyrir og á Vestfirðina, byggt á fjareftirliti. Þar er mikið af bátum,“ sagði Ásgrímur í gær.