Stina Lykke Petersen
Stina Lykke Petersen
Stina Lykke Petersen stal senunni á opnunardegi Evrópumótsins í knattspyrnu í Svíþjóð en hún varði tvær vítaspyrnur fyrir Danmörku í nokkuð óvæntu 1:1-jafntefli við heimakonur í Gautaborg.

Stina Lykke Petersen stal senunni á opnunardegi Evrópumótsins í knattspyrnu í Svíþjóð en hún varði tvær vítaspyrnur fyrir Danmörku í nokkuð óvæntu 1:1-jafntefli við heimakonur í Gautaborg. Danir komust yfir í leiknum með frábærum spretti Mariann Knudsen en Nilla Fischer jafnaði metin með skallamarki eftir aukaspyrnu í fyrri hálfleiknum. Svíar fengu svo tvö víti í seinni hálfleik en Petersen sá við því og varði bæði frá Lottu Schelin og Kosovare Asllani.

„Ég skil ekki hvernig þetta gerðist. Þetta er algjör klikkun. Ég valdi bara átt og fór þangað,“ sagði Petersen við vef UEFA eftir leikinn. Uppselt var á leikinn og mikil stemning meðal heimamanna en Petersen þaggaði niður í þeim.

„Við verðum að þakka Stínu. Hún hringdi í morgun og spurði hvort við ættum myndbönd með vítunum þeirra, en ég átti ekki nein. Ég er ánægður með að hafa ekki gefið henni neinar vísbendingar!“ sagði Kenneth Heiner-Möller, þjálfari Danmerkur.

„Þær sem tóku vítin þurfa nú að jafna sig á því og það er erfitt. Þær þurfa einn til tvo daga,“ sagði Pia Sundhage þjálfari Svía.

Norðurlandaþjóðirnar tvær leika með þeirri þriðju, Finnlandi, og Ítalíu í A-riðli. Ítalir og Finnar gerðu markalaust jafntefli og því er allt í einum hnút í riðlinum. Ítalir voru talsvert betri í leiknum og komust nálægt því að skora í uppbótartíma, en Finnar, sem voru gestgjafar síðasta Evrópumóts, áttu ekki eitt einasta skot á mark. sindris@mbl.is