Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Greiðslubyrði af óverðtryggðum íbúðalánum er of há fyrir marga neytendur sem velja því fremur verðtryggð lán til að geta fjármagnað eign af þeirri stærð sem þeir óska.
Þetta segir Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans, þegar hann er spurður hvort bankinn sé að þrengja aðgengi að óverðtryggðum lánum og þannig óbeint að hvetja viðskiptavini sína til að taka fremur verðtryggð lán. Hann segir að greiðslugeta ráði því hvort fólk velur verðtryggt eða óverðtryggt lán, en jafnframt sé rétt að hafa í huga að hægt sé að blanda saman verðtryggðum og óverðtryggðum lánum og margir velji þá leið. ,,Landsbankinn leggur mikla áherslu á að viðskiptavinir hafi val,“ segir Kristján.
Eins og Morgunblaðið hefur greint frá eru verðtryggð íbúðalán aftur orðin vinsælli en óverðtryggð lán, eftir að þau síðarnefndu voru tímabundið vinsælli eftir hrunið.
Þurfa meiri greiðslugetu
„Fólk þarf að hafa hærri greiðslugetu í upphafi til þess að geta staðið undir greiðslubyrði óverðtryggðs láns. Það liggur í hlutarins eðli. Lánshlutfallið hefur einnig lækkað frá því sem áður var. Allt hnígur þetta í sömu átt. Það eru gerðar meiri kröfur en áður um eigin fé við íbúðakaup,“ segir Kristján en Landsbankinn lánar að hámarki fyrir 85% af markaðsvirði eignar. Lánað er fyrir 70% á lægri kjörum en til viðbótar bætast 15% á hærri vöxtum. Fór hlutfallið hæst í 100% á árunum fyrir hrun.Spurður hvaða áhrif vaxtahækkanir seðlabankans hafi haft á vaxtakjör óverðtryggðra lána bendir Kristján á að Landsbankinn bjóði upp á óverðtryggð lán með föstum vöxtum til tiltekins árafjölda. Vaxtahækkanir hafi því ekki áhrif á þessa lánasamninga nema þegar þeir renna sitt skeið. Hins vegar hafi stýrivextir bein áhrif á breytilega vexti og þeir hafi farið hækkandi, þó Landsbankinn hafi lækkað þá aftur þegar bankinn gaf út sértryggð skuldabréf í júní.
Sögulega lágir vextir
„Jafnframt hafa verðtryggðu vextirnir lækkað verulega. Þeir eru nú lægstir 3,75% en voru lægstir 4,15% fyrir hrun og hafa aldrei verið svona lágir. Þannig að verðtryggð lán eru að því leytinu til hagstæðari en þau voru. Verðtryggð íbúðalán til 40 ára tryggja lægstu greiðslubyrðina og eru af þeirri ástæðu fýsileg fyrir þá sem hafa minni greiðslugetu, t.d. barnmargar fjölskyldur sem þurfa á stærra húsnæði að halda.“Gísli Hauksson, hagfræðingur og framkvæmdastjóri GAMMA, hvetur fólk til að taka ekki íbúðalán til 40 ára, enda sé eignamyndun þá hæg. Skynsamlegt sé að taka blöndu af verðtryggðum og óverðtryggðum lánum. „Raunvextir af verðtryggðum lánum hafa ekki verið lægri síðan lög um verðtryggingu voru sett. Bankar eru að bjóða verðtryggð lán með 3,8-4% vöxtum og ÍLS á 4,4% vöxtum.“