Bóndinn Jú, vissulega getur starfið verið erfitt en með hörkunni hefst þetta,“ segir Ástþór Skúlason. Hann heldur búskap ótrauður áfram þrátt fyrir fötlun sína og á torfærutækinu er hann með hjólastólinn á pallinum.
Bóndinn Jú, vissulega getur starfið verið erfitt en með hörkunni hefst þetta,“ segir Ástþór Skúlason. Hann heldur búskap ótrauður áfram þrátt fyrir fötlun sína og á torfærutækinu er hann með hjólastólinn á pallinum. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Heyskapur byrjar einhvern næstu daga. Komin er slægja á túnin og okkur er því ekkert að vanbúnaði,“ segir Ástþór Skúlason á Melanesi á Rauðasandi.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Heyskapur byrjar einhvern næstu daga. Komin er slægja á túnin og okkur er því ekkert að vanbúnaði,“ segir Ástþór Skúlason á Melanesi á Rauðasandi. Á undanförnum árum hefur þjóðin reglulega fengið fréttir af þessum kappsama bónda sem slasaðist og lamaðist neðan mittis í bílveltu snemma árs 2003. Strax að lokinni endurhæfingu á Grensásdeild það sama ár sneri hann aftur í heimasveitina. Hefur stundað þar búskap síðan, síðari árin með Sigríði Maríu Sigurðardóttur, eiginkonu sinni.

Óskaplegt púl

„Jú, vissulega getur starfið verið erfitt en með hörkunni hefst þetta,“ segir Ástþór sem í vetur var með 260 fjár á fóðrum. Hann fer til gegninga á hverjum morgni á sérútbúinni dráttarvél. Í fjárhúsunum hefur líka ýmsu verið breytt svo Ástþór getur sjálfur gefið á garðann. „Auðvitað er þetta stundum óskaplegt púl, en fín æfing fyrir líkamann. Ég kýs að minnsta kosti að líta svoleiðis á málið,“ segir Ástþór og hlær.

Um langt árabil hefur Ástþór verið refaskytta Rauðsendinga. Hann segir dýrbítinn og ágegni hans vera viðvarandi vandamál í sveitinni og nauðsynlegt sé að halda honum í skefjum. „Ég gaf ekkert eftir þó ég slasaðist og þurfi að vera í hjólastól,“ segir Ástþór sem fljótlega eftir slysið komst yfir fjórhjól sem reynst hefur honum þarfaþing. Sexhjólið hefur reynst enn betur.

„Slökkviliðið á Keflavíkurflugvelli var að endurnýja tækjabúnað sinn og skipta út sexhjóli sem þeir voru með. Strákarnir í liðinu buðu mér hjólið sem ég þáði. Fyrir mig kemur sér vel að hafa farartæki með mjúkum hreyfingum. Og svo kemst maður nánast allt á hjólinu, meðal annars hér upp í fjöllin þar sem greni rebba er. Svo liggur maður þar fyrir sitjandi á hjólinu og grípur svo í gikkinn á byssunni þegar dýrið gægist út úr holunni,“ segir Ástþór.

Stefnir á ferðaþjónustu

Afkoman í sauðfjárbúskapnum er léleg. Að vera með 260 fjár er ekki umfangsmikill búrekstur og innkoman rétt stendur undir kostnaði, að sögn Ástþórs. „Örorkubæturnar sem ég hef eru ekki miklar og fyrir vikið þurfum við hjónakornin að leggja harðar að okkur,“ segir Ástþór, sem næsta vetur ætlar að fjölga fé á fóðrum. Rauðasand segir hann sömuleiðis æ fjölsóttari meðal ferðamanna, enda þótt tónlistarhátíð sem þar átti að halda um síðustu helgi hafi fokið út í veður og vind í orðsins fyllstu merkinu. Saga og náttúra svæðisins sé mikið aðdráttarafl og staðurinn mörgum kunnur. Því opnuðu Ástþór og Sigríður María tjaldsvæði á Melanesi í fyrra og þar hafa margir viðkomu. Einnig er komið kaffihús á kirkjustaðnum Saurbæ.

Mánudagstraktor

„Ef vel tekst til gætu tjaldsvæðin og frekari ferðaþjónusta orðið ágæt búbót. Þar sé ég fyrir mér gistiaðstöðu og menningartengda starfsemi,“ segir Ástþór sem segir sig og sína eiga góða bakhjarla. Uppbygging ferðaþjónustu, sem væri starf við sitt hæfi, sé því ekki endilega fjarlægt markmið.

„Mér hefur hins vegar pínulítið gramist að almannatryggingar geti ekki komið betur til móts við mig. Uppsetningu á hjólastólalyftu á dráttarvél þurfum við sjálf að kosta og traktorinn er bilanagjarn. Er hálfgert mánudagseintak. Minn metnaður stendur til að vera sjálfbjarga og reka mitt bú. Hjálp til þess að byggja upp slíkan atvinnurekstur er hins vegar ekki í boði, en ég gæti fengið margvíslegan stuðning til tómstundaiðkunar eins og fólk með mikla fötlun fær. En búskapur í sveit telst víst ekki áhugamál og niðurstaðan sem ég fæ úr samskiptum mínum við tryggingarnar er í rauninni sú að ég sé ekki nógu mikið fatlaður,“ segir Ástþór Skúlason.