<strong>Einvígi aldarinnar</strong> Spasskí íhugar næsta leik sinn á meðan Fischer stikar um á sviði Laugardalshallarinnar.
Einvígi aldarinnar Spasskí íhugar næsta leik sinn á meðan Fischer stikar um á sviði Laugardalshallarinnar. — Morgunblaðið/ Kristinn Benediktsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Heimsmeistarinn Spasskí hreyfir drottningarpeðið fram um tvo reiti. Þannig hófst fyrsta skákin í einvígi aldarinnar sem haldið var í Reykjavík fyrir 41 ári.

Viðtal

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Heimsmeistarinn Spasskí hreyfir drottningarpeðið fram um tvo reiti. Þannig hófst fyrsta skákin í einvígi aldarinnar sem haldið var í Reykjavík fyrir 41 ári. Þar mættust þeir Boris Spasskí, þáverandi heimsmeistari, og Bobby Fischer. Skákin sjálf þótti róleg til að byrja með en henni lauk að lokum með sigri Spasskís eftir að Fischer hafði fórnað biskupi fyrir tvö peð áður en skákin fór í bið. Voru menn ekki á einu máli um hvor hefði betri stöðu en daginn eftir náði Spasskí að landa sigrinum. Það átti eftir að ganga á ýmsu áður en einvíginu lauk loksins 1. september með sigri Fischers. Hann rauf þar með einokun Sovétmanna á heimsmeistaratitlinum sem hafði staðið óslitið frá 1948.

Friðrik Ólafsson, fyrsti stórmeistari Íslands í skák, segir að einvígið hafi verið mikil skákhátíð á sínum tíma. „Það hafði ekki lítið gengið á, áður en þeir settust niður við taflborðið í fyrstu skákinni,“ segir Friðrik en erfiðlega gekk að fá Fischer til Íslands. Friðrik bendir á að Fischer hafi meðal annars ekki verið viðstaddur setningu mótsins og þurfti að fresta fyrstu skákinni um viku. Það var því mikil eftirvænting eftir fyrsta taflinu í einvíginu.

Stefndi allt í stórmeistarajafntefli

„Þessi skák var friðsamleg lengi vel. Það virtist stefna í jafntefli mjög fljótlega eftir svona tuttugu leiki. Þá höfðu mennirnir skipst upp og það voru ekki eftir nema biskup hjá hvorum og sex peð. Allir í höllinni bjuggust við að það yrði samið um jafntefli, en þá gerðust þau undur og stórmerki að Fischer drap peð, sem virtist vera mjög hæpið, því að biskupinn sem drap peðið lokaðist inni, og endaði með því að Fischer missti biskupinn en fékk tvö peð fyrir.“ Eftir að skákin hafði staðið yfir í þrjá og hálfa klukkustund var hún sett í bið. Friðrik segir að Spasskí hafi daginn eftir sýnt mjög nákvæma taflmennsku og þannig landað sigrinum í fyrstu einvígisskákinni.

Friðrik segir að óhætt sé að segja að þetta peðsdráp hafi orðið frægt í skáksögunni. „Það skildi eiginlega enginn hvers vegna Fischer fór út í þetta. Hann hefur sjálfur sagt að hann hafi talið að þetta yrði í lagi, að hann myndi koma biskupnum í var.“ Friðrik segir að þó að biskupsfórnin hafi byggst á röngu stöðumati Fischers sýni hún hvernig skákmaður Bobby Fischer var. „Hann tefldi alltaf til sigurs, hann taldi að þetta gæti gengið en það gerði það ekki. En sigurviljinn var mikill og það hefði enginn tekið þessa áhættu nema að hafa þann sigurvilja til að bera.“

Kalda stríðið birtist í dagblöðunum

Friðrik segir að skákin hafi verið upphafið að glæsilegu einvígi, þó að gengið hafi á ýmsu í kjölfarið. Fischer neitaði til dæmis að mæta til leiks í næstu skák og fékkst ekki til að tefla þá þriðju nema fyrir luktum dyrum. „Einvígið byrjaði því með miklum látum. Það vantaði ekkert á til þess að gera þennan viðburð mjög eftirminnilegan.“

Kalda stríðið var í algleymingi á þessum árum og hringdi Henry Kissinger, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, meðal annars í Fischer til þess að fá hann til að taka þátt í einvíginu. „Menn hérna á Íslandi skiptust alveg í tvo hópa og blöðin líka. Þjóðviljinn var algjörlega á bandi Spasskís, en hin blöðin voru líklega meira hliðholl Fischer,“ segir Friðrik og segir að einvígið hafi verið ein opinberunin á kalda stríðinu. „Fischer var fulltrúi hins vestræna heims gegn Sovétríkjunum,“ segir Friðrik og bætir við að það hafi ekki síst verið vonin um að ná heimsmeistaratitlinum úr höndum Sovétmanna sem höfðu einokað hann árin á undan. „Það var því líka það í húfi að þarna gætu orðið söguleg umskipti.“

Áhrif einvígisins voru mikil hérlendis. „Þetta orsakaði skákbylgju hérna, þó að mikill áhugi hafi verið fyrir. Þetta jók hann um allan helming,“ segir Friðrik og bætir við að upp úr því hafi komið á sjónarsviðið líklega öflugasta skáksveit sem Ísland hafi haft. „Jóhann Hjartarson, Jón L. Árnason, Margeir Pétursson og Helgi Ólafsson, þessir fjórir aðallega, má segja að séu afsprengi skákbylgjunnar sem kom í kjölfar einvígisins.“

MORGUNBLAÐIÐ

Fyrsta skákin tvísýn og óvíst um úrslit

„EKKI voru menn á einu máli um, hvor keppandinn hefði betri stöðu, er fyrsta skák heimsmeistaraeinvígisins fór í bið í gærkvöldi eftir 40 leiki. Framan af var skákin lengi jafnteflisleg, en þegar Fischer fórnaði biskupi fyrir tvö peð færðist mikið líf í skákina, þannig að skákin varð afar tvísýn.“

Þannig lýsti blaðamaður Morgunblaðsins fyrstu skákinni í einvígi aldarinnar. Inni í blaðinu var rætt við ýmsa um hvernig staðan væri. Júgóslavneski stórmeistarinn Glicoric sagði að Fischer hefði tekið á sig ónauðsynlega áhættu en engin leið væri að spá hvernig skákin myndi fara. Haft var eftir Krogius, einum af aðstoðarmönnum Spasskís, að hann hefði einhverja sigurmöguleika, þó að þeir kynnu að vera litlir.