Davíð Már Stefánsson
davidmar@mbl.is
Ég er að gera minnisvarða núna og er að fara meira út í þann bransa. Verkið sem ég var að klára rétt áður en ég kom til Íslands er minnisvarði um Jay Berwanger. Hann var amerísk ruðningshetja frá árinu 1935. Það ár vann hann svokallað Heisman Trophy en það var fyrsta árið sem verðlaunin voru veitt. Styttan er um sjö fet og er í raunsæisstíl. Hún er úr bronsi en það er einstaklega gaman að vinna með það efni, það er svo sterkt að maður getur nánast gert hvað sem er með það. Ég leira þó styttuna fyrst. Þegar ég er búin að gera það þá er nýjasta tæknin að láta skanna þetta inn í tölvu. Svo er þetta unnið upp úr því,“ segir listakonan Vala Ola sem farið hefur mikinn vestanhafs að undanförnu. Nýkláraði minnisvarðinn verður settur upp á nýbyggðum ruðningsleikvangi í Iowa í Bandaríkjunum.
Örlögin sögðu Santa Fe
„Ég var í Myndlistar- og handíðaskólanum á Íslandi í gamla daga áður en ég fór til Englands í nám. Eftir að hafa unnið á auglýsingastofunni Hvíta húsinu í mörg ár, þá fór ég til Santa Fe í sumarfrí. Það var sem örlögin vildu að ég yrði áfram í Santa Fe því um leið og ég kom út þá fékk ég allt upp í hendurnar. Fyrr en varði var ég farin að mála klassísk olíuportrett fyrir fólk þar í landi. Ég var þá að stúdera Rembrandt og gömlu meistarana, það voru hetjurnar mínar. Ég var búin að gera það í átta ár þegar ég byrjaði að einbeita mér að skúlptúrum,“ segir listakonan. Vala var áður Ólafsdóttir en ákvað þegar hún var í námi í Englandi að gera enskumælandi fólki þann greiða að einfalda nafn sitt.„Ég hef alltaf gert fólk, hvort sem ég hef málað það eða búið til skúlptúra. Ég hef voða gaman af líkamsbyggingu og það er skemmtileg áskorun að vinna með slíkt. Ég kenni einu sinni á ári vikunámskeið úti í Arizona og ég er nýbúin að tala við Leirlistafélagið og ætla að setja upp slíkt námskeið næsta haust á Íslandi. Það virðist vera mikill áhugi fyrir því,“ segir Vala en hægt er að kynna sér námskeiðið nánar með því að senda henni tölvupóst.
Markaðurinn er stór
„Bandaríkin heilluðu mig strax. Þau eru svo risastór og svo misjafnt eftir fylkjum hvernig menningin er. Fjölbreytnin er afar skemmtileg. Bandaríkin eru líka þannig að það er alveg sama í hvaða stíl maður vinnur, það er alltaf fólk til staðar sem kann að meta það sem þú ert að gera. Þetta er svo stór markaður að það er pláss fyrir alla,“ segir hún.„Þetta var líka bara eins og gullkista, í Bandaríkjunum er svo mikið magn af verkum eftir gömlu meistarana og aðra listmálara. Þegar maður kemur síðan í suðurfylkin þá er stíllinn spánskur, mikið af mjúkum línum í byggingarlistinni og svoleiðis. Arizona er líka áhugavert fylki. Það eru grænir golfvellir í bland við eyðimörkina. Svo er hér mikið af fjöllum. Það er fjall fyrir utan gluggann hjá mér sem ég kalla Esjuna mína,“ segir Vala sposk.