Reykjavík menningarsafarí verður haldið í sjötta skipti í kvöld. Þá standa menningarstofnanir borgarinnar fyrir dagskrá sem hefur að markmiði að fræða innflytjendur og aðra áhugasama um söfn, styttur, sögulega viðburði, leikhús og aðra áhugaverða staði í miðbæ borgarinnar á skemmtilegan hátt.
Lagt verður af stað frá Borgarbókasafni að Tryggvagötu 15 klukkan 20 og gengið í um klukkustund. Hægt verður að velja leiðsögn á ensku, pólsku, spænsku, tælensku og filippseysku. Að göngunni lokinni hittast hóparnir fimm í Hafnarhúsinu þar sem boðið verður upp á hressingu, tælenskan dans og tónlist með hljómsveitinni The Bangoura Band. Sveitin var sett saman í byrjun þessa árs og spilar „afrobeat“ tónlist í anda Fela Kuti. Forsprakki sveitarinnar, Cheick Bangoura, er fæddur og uppalinn í Gíneu. Dagskránni lýkur um kl. 22. Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir.