Eiríkur Rúnar Guðmundsson Öfjörð fæddist á Lækjamóti, Sandvíkurhreppi, Árnessýslu, 12 apríl 1960. Hann lést á heimili sínu Lækjamóti 25. júní 2013.
Eiríkur var sonur hjónanna Jóhönnu Óskar Halldórsdóttur, f. 26. september 1936, og Guðmundar Sigfússonar Öfjörð, f. 5. júlí 1923, d. 3. maí 2003.
Systkini Eiríks eru: Sigfús G. Öfjörð, f. 1954, maki Lilja Bragadóttir, Ari G. Öfjörð, f. 1954, maki Sólrún Sverrisdóttir, d. 3. september 2007, Lára G. Öfjörð, f. 1957, maki Ólafur S. Bjarnason, Þorsteinn G. Öfjörð, f. 1961, maki Linda Steingrímsdóttir, Ása Guðrún G. Öfjörð, f. 1962, Ingigerður G. Öfjörð, f. 1964, Guðmundur Jóhann G. Öfjörð, f. 1966, maki Þórunn Jónsdóttir.
Eiríkur Rúnar ólst upp í foreldrahúsum og var fjórði í röðinni af átta syskinum. Hann gekk í skóla á Selfossi, vann við virkjanaframkvæmdir, einnig var hann til sjós og vann hjá Fossvélum á Selfossi og var bóndi í Ásbrekku, Gnúpverjahreppi. Árið 1982 kynntist hann eftirlifandi eiginkonu sinni, Björgu Sighvatsdóttur, f. 28. júní 1965, og eiga þau fjögur börn: Sighvatur, f. 23. maí 1984, Guðjón Ólafur, f. 10. desember 1985, Hanna Rún, f. 6. apríl 1994, og Halldóra Ósk, f. 21. september 1997. Foreldrar Bjargar eru Sólrún Guðjónsdóttir og Sighvatur Eiríksson.
Eiríkur og Björg byrjuðu búskap á Selfossi 1984 en árið 1992 flutttu þau að Ásbrekku í Gnúpverjahreppi og fluttu seinna til Hafnarfjarðar. Þegar faðir hans hætti búskap árið 2000 keyptu ungu hjónin Lækjamót af foreldrum Eiríks og tók hann við ýtustörfum föður síns og vann við það þar til heilsan brást.
Útför Eiríks fór fram í kyrrþey 5. júlí 2013.
Svo er því farið:
Sá er eftir lifir
deyr þeim sem deyr
en hinn dáni lifir
í hjarta og minni
manna er hans sakna.
Þeir eru himnarnir
honum yfir.
(Hannes Pétursson.)
Ég man þegar þú kenndir mér að blístra, ég man þegar þú kenndir mér aðferð í stærðfræði áður en mér var kennd hún í skóla, ég man þegar þú svaraðir spurningum lífsins frá mér, ég man þegar þú greiddir á mér hárið og kenndir mér að byrja neðst, ég man þegar þú pakkaðir alltaf sænginni utan um mig á kvöldin. Ég sakna þess svo að heyra þig segja „góða nótt, Halldóra mín“, með þinni hlýju rödd. Mig langar svo að lifa í draumum mínum þar sem ég sé þig á lífi og vakna upp frá þeirri staðreynd að þú sért farinn. Ég gæti haldið svona endalaust áfram, elsku pabbi, ég hefði ekki getað hugsað mér öðruvísi föður en þig. Ég hef og mun ávalt elska þig.
Þín einlæga dóttir,
Halldóra Ósk.
Ég náði aldrei að segja hversu mikið ég elska þig og hversu góður faðir þú varst mér. Ég vona að þér líði vel þar sem þú ert núna. Ég mun gera mitt besta til að passa upp á mömmu og reyna að lifa með því að það verður ekki lengur þú sem passar upp á hana og okkur, nema úr fjarska. Minning þín lifir enn í okkur og verður heiðruð í gjörðum okkar. Því miður fékkstu ekki að sjá okkur börnin þín dafna lengur og því miður fengum við ekki þann heiður að endurgjalda umhyggjusemi þína með því að hugsa um þig í ellinni. Þú fékkst ekki að upplifa barnabörnin sem hefðu gjarnan viljað koma til Eika afa í sveitina og hefðu fengið rúnt á ýtunni með þér. Þakklát er ég þó fyrir þau 19 ár, 1 mánuð og 25 daga sem ég fékk að njóta í nærveru þinni, ást og umhyggju, gríni og hlátri, helgarsteikunum og Led Zeppelin, bíltúranna og ferðalaganna. Það verður erfitt að sætta sig við það að geta ekki upplifað þessar stundir aftur með þér nema með minningum. Og að meðtaka það að þú hafir þurft að kveðja á besta aldri og svo skjótt. Þú stóðst þig eins og hetja í gegnum veikindin og ætlaðir aldrei að gefast upp. Þú verður alltaf mín fyrirmynd. Ég bíð enn eftir að þú komir heim í hlaðið eða að sjá þig við hlið mömmu þar sem þér leið best. Ég veit að þú ert hér hjá okkur og finn fyrir hlýju þinni. Við hittumst aftur seinna og tilhugsunin um að þú takir á móti mér með brosi sem yljaði mér ávallt um hjartarætur vekur tilhlökkun og öryggi. Þín verður sárt saknað og ætíð minnst. Ég mun lifa lífinu í þínum anda og leita til þín í gleði og sorg. Ég kveð þig, pabbi minn, þar sem þú ert farinn upp stigann til himna.
Þín dóttir,
Hanna Rún.
Elsku Björg, elsku hjartans Sighvatur, Guðjón Ólafur, Hanna Rún og Halldóra Ósk, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð og biðjum góðan guð að styrkja ykkur og okkur öll í sorg okkar.
Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama;
en orðstír
deyr aldregi,
hveim er sér góðan getur.
(Úr Hávamálum)
Minning þín lifir.
Þín móðir og systkini,
Jóhanna Ósk Halldórsdóttir,
Sigfús, Ari, Lára, Þorsteinn, Ása Guðrún, Ingigerður, Guðmundur Jóhann og fjölskyldur.
Eiríkur var afskaplega duglegur sem unglingur að koma sér áfram. Hann dreif sig í vinnu til Grindavíkur aðeins 16 ára gamall. Hann vissi hvernig hlutirnir áttu að vera og fylgdist með tískustraumum. Pabbi klippti okkur alltaf og þegar kom að því að Eiríkur vildi safna hári var gamli maðurinn hissa. Útvíðu buxunum fannst pabba álíka erfitt að kyngja en Eiríkur hafði það í gegn. Útvíðar buxur, axlasítt hár og ennisband.
Eiríkur var skemmtilegur og sterkur karakter, húmoristi og glettinn. Hann var afar rökfastur, ákveðinn og stóð fastur á sínu, heiðarlegur og kom alltaf til dyranna eins og hann var klæddur. Hann ætlaði ekki að tapa glímunni við veikindin, glímu sem hófst með nýju ári. Hann barðist allt fram á síðasta dag. Líkt og ég fylgdist með honum hans fyrstu andartök í lífinu fylgdist ég með honum hans síðustu spor og baráttu hans við þennan illvíga sjúkdóm. Fráfall hans er ótímabært og sárt.
Við Lilja vottum Björgu, Sighvati, Guðjóni Ólafi, Hönnu Rún og Halldóru Ósk okkar dýpstu samúð og biðjum Guð að styrkja þau á þessum erfiðu tímum.
Sigfús G. Öfjörð.
Ég kveð þig, hugann heillar minning blíð,
hjartans þakkir fyrir liðna tíð,
lifðu sæl á ljóssins friðar strönd,
leiði sjálfur Drottinn þig við hönd.
(Guðrún Jóhannsdóttir.)
Sólrún og Sighvatur.
Á kertinu mínu ég kveiki í dag
við krossmarkið helgi og friðar
því tíminn mér virðist nú standa í stað
en stöðugt þó fram honum miðar.
Ég finn það og veit að við erum ei ein
að almættið vakir oss yfir,
því ljósið á kertinu lifir.
Við flöktandi logana falla nú tár,
það flýr enginn sorgina lengi.
Hún braut allar vonir, hún braut allar þrár,
hún brýtur þá viðkvæmu strengi,
er blunda í hjarta og í brjósti hvers manns.
Nú birtir, og friður er yfir,
því ljósið á kertinu lifir.
Sá einn þekkir gleðinnar gáska og fjör
sem gist hefur þjáning og pínu.
Sá einn getur sigrast á ótta og kvöl
sem eygir í hugskoti sínu,
að sorgina við getum virkjað til góðs,
í vanmætti sem er oss yfir,
ef ljósið á kertinu lifir.
(Kristján Stefánsson frá Gilhaga)
Elsku Björg, Sighvatur, Guðjón, Hanna, Halldóra, fjölskylda og vinir, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð.
Megi mildi guðs lina söknuð ykkar og auka ástvinum Eiríks öllum styrk í sorginni.
Þínar mágkonur,
Lilja, Sigrún og fjölskyldur.
Elsku pabbi minn, nú ert þú farinn frá mér.
Ég gái út um gluggann minn
hvort gangir þú um hliðið inn.
Mér alltaf sýnist ég sjái þig.
Ég rýni út um rifurnar.
Ég reyndar sé þig alls staðar.
Þá napurt er, það næðir hér
og nístir mig.
(Vilhjálmur Vilhjálmsson)
Ég sakna þín.
Þinn sonur,
Sighvatur.