Fyrsta formlega sprenging Vaðlaheiðarganga verður framkvæmd á morgun, föstudaginn 12. júlí, í gangamunnanum á Svalbarðsströnd. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og 1. þingmaður Norðausturkjördæmis, ýtir á sprengjuhnappinn og markar um leið upphaf hinnar eiginlegu gangagerðar. Framkvæmdir við göngin hófust fyrir nokkrum vikum. Verklok eru áætluð í desember 2016.
Vaðlaheiðargöng hf., sem eru í eigu Vegagerðarinnar (51%) og Greiðrar leiðar ehf. – undirbúningsfélags heimamanna (49%) er verkkaupi. Fyrirtækið Ósafl annast gerð ganganna fyrir ÍAV hf. og svissneska fyrirtækið Marti Contractors Lts., sem stóðu sameiginlega að lægsta tilboðinu í gangagerðina þegar þau voru opnuð í október 2011, 8,8 milljarðar króna. Verksamningar voru undirritaðir á Akureyri 1. febrúar sl. og var uppfært tilboð ÍAV og Marti 9,3 milljarðar króna, en heildarkostnaður við gangagerðina, þ.m.t. rannsóknir, undirbúning, bráðabirgðabrú, eftirlit og greiðslukerfi, er áætlaður um 11,5 milljarðar.
Vaðlaheiðargöng tengja saman Eyjafjörð og Fnjóskadal. Gangamunni vestan heiðarinnar er í landi Halllands en austari gangamunninn verður skammt frá bænum Skógum í Fnjóskadal. Göngin sjálf verða tæpir 7,2 kílómetrar, með vegskálum verða þau 7,5 km. Miðað við akstur yfir Víkuskarð styttist leiðin um 16 kílómetra. sisi@mbl.is