Nýtt sprotasetur hefur opnað á Nýbýlavegi 8 í Kópavogi. Rýmið hefur fengið nafnið Byrjunarreitur (www.byrjunarreitur.is) og er Gísli Kristjánsson, eða Gísli Kr. eins og hann er kallaður, maðurinn á bak við verkefnið.
Hann segir Byrjunarreit framhald af þeirri áhugaverðu og hröðu þróun sem orðið hefur í sprotaheiminum hér á landi frá hruni, en eins hafi verið leitað innblásturs hjá vel heppnuðum frumkvöðlasetrum erlendis: „Við sem stöndum á bakvið Byrjunarreit höfum fylgst mjög vel með gangi mála og séð hvað það er sem vikar best þegar kemur að stuðningsumhverfi sprotafyrirtækja og frumkvöðla. Miklu skiptir fyrir ung sprotafyrirtæki að geta haft aðstöðu sem ekki kostar mikið og veitir um leið ákveðið aðhald og aðgang að bæði upplýsingum og tengslaneti.“
Gísli segir að þökk sé góðu samstarfi við eiganda hússins þá sé nú verið að byggja rýmið upp, m.a. í samráði við fyrstu leigjendurna. „Við munum bjóða upp á vinnuaðstöðu á ca. 50-80 skrifborðum auk skapandi rýma og fundarherbergja. Bæði er hægt að leigja fasta aðstöðu á hóflegu verði sem er þá vinnustaður frumkvöðulsins allan sólarhringinn ef því er að skipta. Hins vegar er hægt að kaupa pakka sem felst í því að nýta laust borð hverju sinni á venjulegum vinnutíma og er sá kostur t.d. hugsaður fyrir þá sem alla jafna vinna að heiman frá sér eða eru í annarri vinnu en þykir gott að geta endrum og sinnum unnið í nýju umhverfi eða haft afnot af fundarherbergi með væntanlegum viðskiptavinum og samstarfsaðilum.“
Eftir bankahrun hafa sprottið upp nokkur frumkvöðlasetur af svipuðum toga og segir Gísli að þessi rými hafi gefið mjög góða raun. Einhverjir galdrar virðast gerast þegar frumkvöðlar koma saman á einum stað. „Jafnvel þó allir séu að vinna að ólíkum verkefnum þá verður til mjög frjó og kröftug blanda nýrra hugmynda, innblásturs og þors. Þessi rými verða oft að stöðum þar sem hugsað er langt út fyrir kassann og ekkert er ómögulegt.“
Þróunin hefur verið ör síðustu ár og ófá áhugaverð ný fyrirtæki komið fram á sjónarsviðið í gegnum útungunarstöðvar af svipuðum toga. „Viðhorfið til frumkvöðla og sá stuðningur sem þeir fá hefur breyst mjög til batnaðar. Við eigum enn svolítið í land en stefnum greinilega í rétta átt.“ ai@mbl.is